Orðskýringar

Á síðunni er að finna orðalista. Smelltu á orðin til að sjá merkingu þeirra.

Þú er hér: Forsíða Fréttir og fróðleikur Orðskýringar Orðskýringar

A

Afkomutrygging

Trygging sem greiðir mánaðarlegar bætur til 60 eða 65 ára aldurs ef vátryggður missir starfsorku og verður fyrir sannanlegum tekjumissi. Bætur eru greiddar ef starforka skerðist um 40% eða meira og eru þær greiddar í hlutfalli við starfsorkuskerðingu en fullar bætur eru greiddar ef vinnugeta skerðist um 67% eða meira.

Aldurstengd verðbréfasöfn

Vegna sveiflna í ávöxtun henta verðbréf mismunandi vel fyrir aldurshópa. Hlutabréf gefa t.d. hæstu ávöxtunina en ávöxtun sveiflast mikið og því henta þau ekki vel fyrir þá sem eru að ávaxta fé í stuttan tíma. Í aldurstengdum verðbréfasöfnum er eignum raðað saman í þrjú til fimm verðbréfasöfn þannig að þau henti fyrir mismunandi aldursskeið. Í safninu sem hefur lengstan sparnaðartíma er vægi hlutabréfa hátt en í safninu hjá þeim sem hafa mjög stuttan sparnaðartíma er vægi þeirra lágt eða ekkert.

Á

Áunnin réttindi

Með greiðslum í lífeyrissjóð ávinna sjóðfélagar sér réttindi til ellilífeyrisgreiðslna frá viðmiðunaraldri til æviloka, örorku- og barnalífeyri við starfsorkumissi og maka- og barnalífeyri við fráfall. Þau réttindi sem sjóðfélagi hefur áunnið sér með greiðslum eru kölluð áunnin réttindi.

B

Barnalífeyrir

Lífeyrissjóðir greiða barnalífeyri með börnum örorkulífeyrisþega og látinna sjóðfélaga. Barnalífeyrir er greiddur meðan börnin eru undir 18 til 20 ára aldri og er hann yfirleitt föst fjárhæð sem tilgreind er í samþykktum lífeyrissjóðs. Fjárhæðin er verðtryggð og breytist í takt við breytingar á vísitölu neysluverðs. Hjá nokkrum lífeyrissjóðum er barnalífeyrir hlutfall af makalífeyri en þó aldrei lægri en lágmarksfjárhæð samkvæmt lögum.

Bíðtími

Sá tími sem líður frá því vátryggður verður fyrir tjóni þar til tryggingabætur eru greiddar (ef eingreiðsla) eða greiðsla tryggingabóta hefst (mánaðarlegar bætur).

Bótatími

Sá tími sem tryggingabætur eru greiddar.

C

D

E

Eftirlaun

Samtala lífeyrisgreiðslna úr lífeyrissjóðum og frá almannatryggingum og tekna af vörslureikningi lífeyrissparnaðar og öðrum sparnaði til að greiða lífeyri eftir að vinnu lýkur.

Eignasamsetning verðbréfasafna

Með eignasamsetningu er átt við hlutfallslega skiptingu eigna á milli verðbréfaflokka. Ef um er að ræða blandað verðbréfasafn segir eignasamsetning til um vægi hlutabréfa, skuldabréfa og annarra sparnaðarforma. Samkvæmt niðurstöðum fræðimanna ræður eignasamsetning mestu um mismun á ávöxtun verðbréfasafna til langs tíma.

Ellilífeyrir

Lífeyrisgreiðsla frá viðmiðunaraldri lífeyrissjóðs til æviloka. Oftast miða lífeyrissjóðir við 67 ára aldur og greiða lífeyri þar til sjóðfélagi fellur frá. Heimilt er að flýta eða seinka töku lífeyrisgreiðslna um allt að fimm ár en reglur eru mismunandi milli lífeyrissjóða. Ef lífeyrisgreiðslum er flýtt lækkar fjárhæð mánaðarlegs lífeyris en hækkar ef lífeyrisgreiðslum er seinkað frá viðmiðunaraldri.

É

F

Flýtistuðull

Flestir lífeyrissjóðir heimila sjóðfélögum að hefja töku lífeyris fyrir viðmiðunaraldur ellilífeyrisgreiðslna. Ef það er gert lækka mánaðarlegar lífeyrisgreiðslur um tiltekna prósentu á mánuði sem nefnist flýtistuðull.

Framreiknuð réttindi

Virkir sjóðfélagar sem verða öryrkjar vegna slyss eða sjúkdóms og verða fyrir sannanlegum tekjumissi eiga rétt á örorkulífeyrisgreiðslum. Fjárhæð örorkulífeyris miðast við þegar áunnin réttindi en auk þess er reiknað hvaða réttindi sjóðfélagi hefði áunnið sér með áframhaldandi greiðslum til starfsloka. Þau réttindi sem bætast við með þeim hætti eru kölluð framreiknuð réttindi. Við fráfall eru makalífeyrisréttindi maka virkra sjóðfélaga framreiknuð með sama hætti.

Freststuðull

Flestir lífeyrissjóðir heimila sjóðfélögum að fresta töku lífeyris fram yfir viðmiðunaraldur ellilífeyrisgreiðslna. Ef það er gert hækka mánaðarlegar lífeyrisgreiðslur um tiltekna prósentu á mánuði sem nefnist freststuðull.

G

Gengismunur verðbréfasjóða (upphafsgjald)

Munur á kaup- og sölugengi verðbréfasjóða.

Gjaldmiðlaáhætta

Með gjaldmiðlaáhættu er átt við áhættuna sem felst í sveiflum á gengi gjaldmiðla. Fyrir mann sem kaupir erlend verðbréf er gjaldmiðlaáhætta fólgin í því að hann getur hagnast eða tapað þegar erlendu verðbréfin eru seld og skipt yfir í krónur. Hafi gengi íslensku krónunnar styrkst gagnvart erlendum myntum fær hann færri krónur fyrir bréfin og öfugt ef krónan hefur veikst.

Grundvallarlaun

Margir lífeyrissjóðir miða lífeyrisgreiðslur við svokölluð grundvallarlaun. Þá eru lífeyrisréttindin oft mæld í stigum sem eru hlutfall launa sem greitt er af og grundvallarlauna lífeyrissjóðs. Grundvallarlaunin eru yfirleitt verðtryggð og breytast í takt við breytingar á vísitölu neysluverðs. Verðtrygging grundvallarlauna þýðir að lífeyrisréttindi eru einnig verðtryggð því lífeyrisgreiðslurnar eru reiknaðar sem hlutfall af grundvallarlaununum.

H

Hlutabréf

Eignarhlutdeild í hlutafélagi. Ávöxtun ræðst af arðgreiðslum og verðbreytingum á hlutabréfamarkaði. Á löngum tíma ræður arðsemi hlutafélaganna mestu um ávöxtun.

I

Iðgjald

Greiðsla sem er innt af hendi endurtekið með reglubundnum hætti. T.d. lífeyrissjóðsiðgjald eða tryggingaiðgjald.

Iðgjald til lágmarkstryggingarverndar

Það iðgjald sem lífeyrissjóður reiknar með að þurfi til að standa undir lágmarkstryggingarvernd.

Iðgjaldsstofn

Sá stofn sem iðgjald í lífeyrissjóð er greitt af. Iðgjald í lífeyrissjóð skal reiknað af heildarfjárhæð greiddra launa og endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf og þjónustu. Til iðgjaldsstofns skal þó ekki telja hlunnindi sem greidd eru í fríðu, svo sem fatnað, fæði og húsnæði, eða greiðslur sem ætlaðar eru til endurgreiðslu á útlögðum kostnaði, t.d. ökutækjastyrki, dagpeninga og fæðispeninga.

Í

J

Jafnar afborganir

Skuldabréf með jafnar afborganir hefur þá eiginleika að upphaflegur höfuðstóll greiðist til baka í jöfnum afborgunum. Á fyrri hluta lánstímans eru greiðslur hlutfallslega háar en þar sem höfuðstóllinn lækkar með hverri afborgun lækka greiddir vextir eftir því sem líður á lánstímann og greidd fjárhæð þar af leiðandi einnig.

Jafnar greiðslur

Skuldabréf með jafnar greiðslur (annuitet) hefur þá eiginleika að útgefandi skuldabréfsins greiðir sömu fjárhæð á gjalddögum út lánstímann. Greiðslu höfuðstóls og vaxta er jafnað yfir lánstímann og hlutfall höfuðstólsafborgunar og vaxtaafborgunar í hverri greiðslu breytist á lánstímanum. Í upphafi er vaxtahluti afborgana stærstur hluti greiðslu en undir lokin er hluti höfuðstólsafborgunar stærstur.

K

L

Landssamtök lífeyrissjóða

Landssamtökin eru heildarsamtök lífeyrissjóða og eru flestir lífeyrissjóðir aðilar að þeim. Hlutverk samtakanna er m.a. að gæta í hvívetna hagsmuna sjóðfélaga og að vera málsvari gagnvart stjórnvöldum og öðrum aðilum í öllu sem varðað getur sameiginlega hagsmuni aðildarsjóðanna.

Lágmarksiðgjald

Iðgjald sem nemur a.m.k. 12% af heildarlaunum og greitt er í lífeyrissjóð til að tryggja lágmarkstryggingarvernd.

Lágmarkstryggingarvernd

Sú tryggingarvernd sem lífeyrissjóður veitir samkvæmt lögum eða samþykktum sínum miðað við 40 ára inngreiðslutíma iðgjalds. Lágmarksstryggingarvernd er skilgreind í lögum nr. 129/1997 og verða lífeyrissjóðir að tryggja sjóðfélögum sínum a.m.k. þau réttindi.

Lífeyrissjóðsiðgjald

Greiðsla í lífeyrissjóð eða til vörsluaðila lífeyrissparnaðar. Yfirleitt er iðgjaldi skipt í tvennt og greiðir launþegi annan hlutann og launagreiðandi hinn. Iðgjöld eru greidd af launum fyrir skatta eða m.ö.o. iðgjöldin eru greidd til lífeyrissjóðs eða vörsluaðila áður en tekjuskattur og útsvar eru dregin af launum.

Líftrygging

Trygging sem greiðir nánustu vandamönnum eða öðrum tilnefndum rétthöfum bætur við fráfall hins tryggða. Líftrygging er greidd út hvort sem dánarorsök er slys eða sjúkdómur. Líftryggingabætur eru greiddar út í einu lagi og eru skattfrjálsar.

Líftrygging

Trygging sem greiðir nánustu vandamönnum eða öðrum tilnefndum rétthöfum bætur við fráfall hins tryggða. Líftrygging er greidd út hvort sem dánarorsök er slys eða sjúkdómur. Líftryggingabætur eru greiddar út í einu lagi og eru skattfrjálsar.

Lokalaun

Þau laun sem einstaklingur hefur síðasta mánuðinn eða árið áður en hann lætur af starfi. Lífeyrisgreiðslur eru oft reiknaðar í hlutfalli af lokalaunum til að mæla hvernig tekjur breytast þegar einstaklingar fara á eftirlaun.

M

Makalífeyrir

Lífeyrissjóðir greiða makalífeyri til maka látins sjóðfélaga til að milda fjárhagslegt áfall fjölskyldunnar. Makalífeyrir er aldrei greiddur skemur en í 24 mánuði en hafi makinn barn yngra en 18 ára á framfæri sínu, sem sjóðfélaginn hafði áður á framfæri sínu, eða ef makinn er a.m.k. 50% öryrki og yngri en 67 ára skal fullur makalífeyrir greiddur á meðan það ástand varir. Sumir lífeyrissjóðir greiða makalífeyri til æviloka. Fjárhæð makalífeyris er a.m.k. 50% af áunnum örorkulífeyri viðkomandi sjóðfélaga við andlátið miðað við 100% örorku. Ef sjóðfélaginn var virkur sjóðfélagi við andlátið er auk þess reiknað hvaða réttindi hann hefði áunnið sér miðað við áframhaldandi greiðslur til starfsloka og hækka makalífeyrisréttindin í samræmi við það.

Markaðsáhætta

Er áhættan á miklum sveiflum í ávöxtun vegna breytinga á verðmæti eigna. Eignir geta hækkað og lækkað í verði vegna markaðsaðstæðna, efnhagsástands og flökti á gengi gjaldmiðla. Markaðsáhætta er hættan á að verð eignar sé lágt þegar eigandi þarf á henni að halda og hyggst selja hana. Markaðsáhætta minnkar eftir því sem sparnaðartími er lengri því þá minnka áhrif einstakra sveiflna og jafnast út með tímabilum hárrar og lágrar ávöxtunar.

Markaðsáhætta skuldabréfa

Tengist breytingum á vaxtastigi sem hefur áhrif á markaðsverð skuldabréfa. Breytingar á verði skuldabréfa til langs tíma eru meiri en skuldabréfa til stutts tíma við sömu breytingu á ávöxtunarkröfu. Löng skuldabréf og skuldabréfasjóðir með langan meðallíftíma sveiflast því meira í verði og fela því í sér meiri markaðsáhættu en skuldabréf eða skuldabréfasjóðir með stuttan meðallíftíma. Markaðsáhættu skuldabréfasjóða er hægt að mæla með meðallíftíma þeirra sem er núvirði á vegnu meðaltali gjalddaga í greiðsluflæði allra skuldabréfa sjóðsins.

Meðallaun

Heildarlaun einstaklinga á starfsævi deilt með fjölda tímabila. Lífeyrisgreiðslur eru oft mældar sem hlutfall af meðallaunum eða þeim launum sem einstaklingur var með að meðaltali hvern mánuð eða ár á meðan hann var í starfi.

Meðaltími skuldabréfa

Endurgreiðsluferli skuldabréfa er með misjöfnum hætti eftir því hvernig þau eru uppbyggð. Meðaltími skuldabréfs segir til um hversu lengi höfuðstóll fjárfestingar er bundinn. Skuldabréf sem greiðir aðeins vexti á líftíma en ekki afborganir af höfuðstól fyrr en á lokagjalddaga hefur lengri meðaltíma en skuldabréf sem greiðir hvoru tveggja á líftíma þar sem upphaflegur höfuðstóll greiðist fyrr til baka í síðara tilvikinu. Meðaltími skuldabréfs er einnig mælikvarði á verðnæmni þess ef vextir breytast. Þannig er hægt að áætla verðsbreytingu skuldabréfs með því að margfalda vaxtabreytingu með meðaltíma þess. Sem dæmi má nefna að skuldabréf með 5 ára meðaltíma hækkar um 0,5% ef vextir lækka um 0,1% og öfugt.

Mótframlag

Iðgjald sem launagreiðandi greiðir á móti launþega í lífeyrissjóð eða til lífeyrissparnaðar. Ef um er að ræða lágmarksiðgjald greiðir launagreiðandi yfirleitt 8% mótframlag gegn 4% iðgjaldi launþega. Ef um er ræða viðbótariðgjald til lífeyrissparnaðar greiðir launagreiðandi yfirleitt 2% mótframlag gegn 2% iðgjaldi launþega.

N

Nafnvextir

Nafnávöxtun. Nafnvextir eru vextir sem eru reiknaðir af óverðtryggðum höfuðstól skuldabréfa. Með nafnávöxtun er átt við ávöxtun án tillits til verðþróunar. Nafnávöxtun verðtryggðra skuldabréfa inniheldur bæði nafnvexti og verðbætur.

O

Ó

P

R

Raunvextir

Raunávöxtun. Raunvextir eru vextir umfram verðtryggingu. Ef skuldabréf eru verðtryggð breytist höfuðstóll í takt við breytingar á vísitölu neysluverðs áður en vextir eru reiknaðir. Með raunávöxtun er átt við ávöxtun umfram verðbólgu.

Rekstrarkostnaður

Hjá sjóðum sem reka sig sjálfir er rekstrarkostnaður allur kostnaður sem til fellur við reksturinn. Hjá vörsluaðilum lífeyrissparnaðar er átt við kostnað við að geyma sparnaðinn og annast hann. Dæmi um rekstrarkostnað vörsluaðila eru umsjónarlaun sjóða, þóknun fyrir fjárvörslu, eignastýringarkostnaður og innheimtukostnaður.

Rétthafi

Einstaklingur sem greitt er fyrir, greiðir eða hefur greitt iðgjald til vörsluaðila lífeyrissparnaðar.

Ríkisskuldabréf

Skuldabréf sem gefin eru út af íslenska ríkinu og fela í sér loforð um fastar greiðslur í framtíðinni. Ávöxtun ræðst af markaðsvöxtum þegar ríkisskuldabréf eru keypt og seld. Ríkisskuldabréf hækka (lækka) í verði ef markaðsvextir lækka (hækka).

Ríkisvíxlar

Óverðtryggðir víxlar gefnir út af Ríkissjóði til þriggja, sex eða tólf mánaða. Þeir bera ekki vexti en eru seldir með afföllum og greiddir á nafnverði á gjalddaga.

S

Samningur um lífeyrissparnað

Samningur launþega við vörsluaðila lífeyrissparnaðar um að láta draga allt að 4% af launum og greiða til vörsluaðilans inn á ávöxtunarleið sem tilgreind er í samningnum. Vörsluaðilinn sér um að senda launagreiðanda afrit af samningnum og er hann þá skyldugur til að draga iðgjöldin frá launum og greiða til vörsluaðilans.

Samtryggingarsjóður

Lífeyrissjóður sem greiðir ellilífeyri til æviloka, örorku- og barnalífeyri við starfsorkumissi og maka- og barnalífeyri við fráfall. Sjóðurinn er kallaður samtryggingarsjóður af því sjóðfélagar sameinast um að tryggja hver öðrum ellilífeyri til æviloka og verja sjóðfélagana og fjölskyldur þeirra fyrir tekjumissi vegna örorku eða dauða.

Séreignarhluti iðgjalds til lágmarkstryggingarverndar

Sá hluti lágmarksiðgjalds sem er greiddur í séreignarsjóð ef séreignarsjóður greiðir hluta af lágmarksellilífeyri frá 70 ára aldri til æviloka. Stundum kallað skilyrtur séreignarsjóður.

Séreignarsjóður (frjáls séreign)

Sjóður sem hefur heimild til að taka við viðbótariðgjöldum. Í séreignarsjóði eru iðgjöld færð á reikning sjóðfélaga ásamt vöxtum. Séreignarsjóður er laus til útborgunar frá 60 ára aldri að fullu eða eins miklu leyti og þú kýst. Þetta gerir eftirlaunin sveigjanlegri.

Sjóðfélagi

Einstaklingur sem greitt er fyrir, greiðir eða hefur greitt iðgjald til lífeyrissjóðs og á hjá honum réttindi.

Sjúkdómatrygging

Trygging sem greiðir eingreiðslubætur ef vátryggður greinist með alvarlegan sjúkdóm sem er talinn upp í skilmálum tryggingarinnar. Tryggingin greiðir einnig bætur ef börn hins tryggða innan 18 ára aldurs greinast með alvarlegan sjúkdóm.

Sjúkra- og slysatrygging

Trygging sem greiðir bætur vegna sjúkdóma og slysa. Fyrst um sinn eru bæturnar í formi vikulegra dagpeninga en ef viðkomandi sjúkdómur eða slys leiðir til varanlegrar örorku fær hinn vátryggði eingreiðslubætur. Hægt er að velja mismunandi biðtíma og bótatíma dagpeninga.

Skilyrtur séreignarsjóður (bundin séreign)

Inneign í séreignarsjóði sem ætluð er til að greiða hluta af lágmarkslífeyri. Oftast er miðað við að inneigin sé greidd út á aldursbilinu 70 ára til 79 ára og samtryggingarsjóður greiði síðan lífeyri til æviloka frá 80 ára aldri.

Skuldabréf

Loforð um fastar greiðslur í framtíðinni. Ávöxtun ræðst af markaðsvöxtum þegar skuldabréf er keypt og selt. Skuldabréf hækka (lækka) í verði ef markaðsvextir lækka (hækka).

Skuldaraáhætta

Er sú áhætta að fjárfesting tapist vegna gjaldþrots útgefanda verðbréfs eða þess sem á að inna af hendi greiðslu. Skuldaraáhætta er talin lítil ef skuldabréf er með ríkisábyrgð. Skuldaraáhætta minnkar með auknum fjölda útgefenda í söfnum.

T

Tryggingafræðileg staða

Samkvæmt lögum skulu lífeyrissjóðir árlega láta tryggingafræðing framkvæma tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðsins. Athugunin felst í mati á skuldbindingum sjóðsins og samanburði á eignum og áætluðum skuldbindingum. Niðurstaða athugunarinnar er kölluð tryggingafræðileg staða.

U

Umsjónarlaun

Þóknun eignastýringarfyrirækis fyrir rekstur sjóða, t.d. verðbréfasjóða og séreignarsjóða. Umsjónarlaun er venjulega reiknuð í hlutfalli af eignum sjóðs.

Ú

V

Vaxtavextir

Vextir sem reiknast af vöxtum eru vaxtavextir. Vaxtavextir bætast við höfuðstól.

Veltukostnaður

Kostnaður sem fellur til við hreyfingar eða eignabreytingar, t.d. kostnaðurinn við að kaupa og selja verðbréf eða innleysa bankainnstæður eða inneign í sjóðum.

Verðbólga

Verðbólga er hugtak sem lýsir hækkandi verðlagi á vörum og þjónustu yfir langt tímabil. Algengast er að nota vísitölu neysluverðs til að mæla verðbólgu á Íslandi.

Verðhjöðnun

Andstæða verðbólgu og þýðir að verðlag lækkar, þ.e. að verð á vörum og þjónustu lækkar á milli tímabila.

Verðbréfasjóður

Sjóður sem fjárfestir í verðbréfum sem einstaklingar og aðrir lögaðilar geta keypt hlutdeild í með kaupum á hlutdeildarskírteinum í viðkomandi sjóði. Verðbréfasjóðir skulu reikna innlausnarvirði hlutdeildarskírteina daglega og geta eigendur selt bréfin á því verði þegar þeim hentar. Ávöxtun verðbréfasjóðs ræðst af ávöxtun verðbréfa í eigu sjóðsins að frádregnum kostnaði við rekstur hans. Verðbréfasjóðir geta verið margskonar og bæði fyrir skammtíma- og langtímasparnað. Verðbréfasjóðir starfa samkvæmt lögum um verðbréfasjóði.

Vextir

Vextir eru leigan sem greidd er fyrir lánsfé. Sá sem fær lán í banka eða hjá lífeyrissjóði greiðir vexti fyrir lánsféð. Sá sem leggur peninga inn á reikning í banka eða sparisjóði fær greidda vexti fyrir að geyma peningana í innlánsstofnuninni.

Viðbótariðgjald

Iðgjald umfram lágmarksiðgjald. Einstaklingar ráða hvert þeir greiða viðbótariðgjaldið og hvort þeir verja hluta af því til að kaupa viðbótartryggingar.

Viðbótarlífeyrissparnaður

Sparnaður sem lagður er fyrir með greiðslu viðbótariðgjalda frá launþegum og mótframlaga frá launagreiðendum til vörsluaðila lífeyrissparnaðar. Iðgjöldin eru greidd áður en skattar eru dregnir frá launum. Inneign er bundin til 60 ára aldurs og greidd út með jöfnum greiðslum á aldrinum 60 til 67 ára. Rétthafi má taka inneignina út á lengri tíma. Við útborgun inneignar er greiddur tekjuskattur og útsvar af útborgunum eins og hverjum öðrum launatekjum. Inneign erfist við fráfall.

Viðmiðunaraldur ellilífeyrisgreiðslna

Sá aldur sem ellilífeyrisréttindi hjá lífeyrissjóði miðast við, oftast 67 ára aldur. Það þýðir að sjóðfélagar ávinna sér rétt á ellífeyrisgreiðslum frá viðmiðunaraldri en síðan geta þeir flýtt eða seinkað töku lífeyris frá viðmiðunaraldri samkvæmt sérstökum heimildarákvæðum í samþykktum lífeyrissjóðs.

Vísitala neysluverðs

Vísitala neysluverðs mælir verðbreytingar á milli tímabila á vörum og þjónustu sem eru hluti af útgjöldum íslenskra heimila (mælir verðbreytingar á völdum vörum og þjónustu í sérstakri körfu til að mæla breytingar á neyslukostnaði). Algengt er að nota vísitöluna til að mæla verðbólgu á Íslandi. Hagstofa Íslands reiknar mánaðarlega út vísitölu neysluverðs skv. lögum nr. 12 frá 1995.

Vörsluaðilar lífeyrissparnaðar

Þeir aðilar sem hafa heimild til að taka við viðbótariðgjaldi með samningi um lífeyrissparnað, þ.e. lífeyrissjóðir, bankar, sparisjóðir, líftryggingafélög og verðbréfafyrirtæki.

X

Y

Ý

Z

Þ

Æ

Ö

Örorkulífeyrir

Lífeyrissjóðir greiða örorkulífeyri ef sjóðfélagi verður öryrki og verður fyrir sannanlegum tekjumissi. Sjóðfélagi á rétt á örorkulífeyri ef hann verður fyrir orkutapi sem metið er 50% eða meira. Ef örorka er metin minni en 100% lækka örorkulífeyrisgreiðslur hlutfallslega. Örokulífeyrisgreiðslur falla niður þegar sjóðfélagi nær viðmiðunaraldri ellilífeyris en þá fær hann greiddan sambærilegan ellilífeyri til æviloka.

Almenni lífeyrissjóðurinn - Borgartúni 25, 105 Reykjavík - kt. 450290-2549 - Sími: 510-2500 - Fax: 510-2550 - Netfang: almenni@almenni.is - Afgreiðslutími: Milli 9:00 og 16:00 virka daga - © Almenni lífeyrissjóðurinn