Fasteignalán til sjóðfélaga

Lán Almenna lífeyrissjóðsins til sjóðfélaga fara eftir lögum um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016 og tilheyrandi reglugerð.

1. Skilyrði til að sækja um lán

Umsækjendur þurfa að uppfylla eitt af eftirtöldum skilyrðum til að geta sótt um lán hjá sjóðnum:

 • Vera virkir sjóðfélagar þ.e. hafa greitt iðgjöld síðustu 3 mánuði í samtryggingarsjóð en þeir sem eingöngu greiða í séreignarsjóð þurfa að hafa greitt síðustu tólf mánuði
 • Hafa greitt til samtryggingarsjóðs í 5 ár (60 mánuði) og eiga inneign eða réttindi í sjóðnum.
 • Hafa greitt til séreignasjóðs í 5 ár (60 mánuði) og eiga a.m.k. 2,0 m.kr. í séreign.
 • Vera lífeyrisþegar hjá sjóðnum.

2. Tegund láns

A-lán

 • Heildar lánsfjárhæð til umsækjenda sem uppfylla skilyrði þessara reglna getur samanlagt orðið allt að kr. 50.000.000.
 • Lánað er gegn fyrsta veðrétti í íbúðarhúsnæði í eigu lántaka og samfelldri veðröð frá og með fyrsta veðrétti. Þó er heimilt að lána gegn öðrum veðrétti ef lánsfjárhæð á fyrsta veðrétti er innan við 5% af verðmæti húsnæðisins. Hámarksveðsetning er 75% af metnu markaðsverði íbúðar­húsnæðis. Veðsetning má þó aldrei vera hærri en sem nemur brunabótamati íbúðarhúsnæðisins ásamt lóðarmati.

B-lán

 • Heildar lánsfjárhæð til umsækjenda sem uppfylla skilyrði þessara reglna getur samanlagt orðið allt að kr. 30.000.000.
 • Lánað er gegn veðrétti í íbúðarhúsnæði í eigu lántaka.
 • Hámarksveðsetning er 65% af metnu markaðsverði íbúðar­húsnæðis. Veðsetning má þó aldrei vera hærri en sem nemur brunabótamati íbúðarhúsnæðisins ásamt lóðarmati. Ekki er gerð krafa um ákveðna veðröð.

3. Lánskjör

 • Lánstími er allt að 40 ár að vali lántaka. Þó er lágmarkslánstími verðtryggðra lána 5 ár.
 • Ef veðsett eign er sumarhús getur lánstími verið allt að 15 ár en ef sumarhúsið er á leigulóð getur lánstími þó aldrei verið lengri en gildistími lóðarleigu­samnings.
 • Lán geta verið með jöfnum afborgunum eða jöfnum greiðslum að vali lántakanda.
 • Sjóðfélagalán eru með mánaðarlega gjalddaga og geta lántakendur samið við viðskiptabanka sinn um sjálfvirkar skuldfærslur. Lántak­endur greiða kostnað af greiðslu afborgana.
 • Heimilt er að greiða lánin upp hvenær sem er án uppgreiðslugjalds.
 • Hægt er að velja um verðtryggt lán tengt neysluverðsvísitölu og óverðtryggt lán. Lántakendur geta skipt lánsfjárhæð á milli verðtryggðra og óverð­tryggðra kjara.
 • Lántakendur geta breytt lánskjörum lána gegn sérstöku breytigjaldi sem nemur 0,5% af eftirstöðum láns. Þeir sem óska eftir að breyta verðtryggðum lánum í óverðtryggð verða að standast greiðslumat í samræmi við lánareglur sjóðsins.
 • Skuldaraskipti eru heimiluð á lánum gegn því að nýr skuldari uppfylli skilyrði um  greiðslu- og lánshæfismat. Ef nýr skuldari er ekki sjóðfélagi bætist við fast vaxtaálag sem er 1,0 prósentustig.

 Verðtryggð lán

Vextir verðtryggðra lána eru með föstum vöxtum eða breytilegum að vali lántaka.

 • Fastir vextir eru ákvarðaðir af stjórn sjóðsins. Gildandi vextir eru birtir á heimasíðu sjóðsins.
 • Breytilegir vextir  eru ákvarðaðir af stjórn sjóðsins. Heimilt er að miða vaxtaákvörðun við viðmiðunargengi, tiltekna viðmiðunarvexti eða vísitölu að viðbættu ákveðnu álagi.  Ef miðað er við slíkt viðmið skal upplýsa skuldara um breytingar á útlánsvöxtum eigi sjaldnar en á tólf mánaða fresti.  Vaxtabreytingar, þ.m.t. um breytt vaxtaviðmið, eru birtar á heimasíðu Almenna lífeyrissjóðsins (www.almenni.is). Vextir taka mið af meðalávöxtun á skuldabréfaflokki Íbúðarlánasjóðs HFF150434 í viðskipta­kerfi Kauphallar Íslands í þar síðasta mánuði að viðbættu 0,75% álagi.  Breytilegir vextir breytast 15. hvers mánaðar. Verði skuldaraskipti á láninu og nýr skuldari er ekki sjóðfélagi bætist við fast vaxtaálag sem er 1,0 prósentustig.

 

Óverðtryggð lán

 • Vextir á óverðtryggðum lánum eru festir til eins árs í senn frá kaupdegi skuldabréfs og eru endurskoðaðir árlega til samræmis við gildandi vexti.
 • Óverðtryggðir vextir og breytingar á þeim eru ákvarðaðir af stjórn sjóðsins.
 • Við ákvörðun vaxta og vaxtabreytinga er einkum horft til stýrivaxta Seðlabanka Íslands, ávöxtunarkröfu á óverðtryggðum ríkisskuldabréfum á markaði, ávöxtunarkröfu á verðtryggðum ríkisskuldabréfum á markaði, sögulegrar verðbólgu og verðbólguspár, verðtryggðra fastra vaxta á sjóðfélagalánum og almennra vaxtakjara á markaði á sambærileg­um lánum.
 • Gildandi vextir á hverjum tíma eru birtir á heimasíðu sjóðsins.

4. Veðskilmálar

 • Hámarkslán á eina eign eru samkvæmt A-láni 75 milljónir og samkvæmt B-láni 50 milljónir og gildir  ef tveir sjóðfélagar sækja um lán með veðtryggingu í sömu eign. Framangreindar hámarksfjárhæðir eru háðar veðskilmálum samkvæmt lánareglum þessum.
 • Íbúðarhúsnæði þarf að vera í eigu lántaka eða liggja fyrir þinglýstur kaup­samningur þar sem lántakandi er aðili að og mun eignast viðkomandi eign. Aðeins er heimilað veð sem er í fullri eign lántaka, í sameign með öðrum  eða 100% eign hjúskaparmaka þar sem ekki liggur fyrir kaupmáli þar sem veðið er skráð séreign maka. Ef fasteignaveð er í heild eða hluta í eigu maka eða að hluta í eigu annarra aðila skulu þeir jafnframt gerast samskuldarar að láninu
 • Húseign í smíðum telst veðhæf sé hún komin á byggingarstig 4 þ.e. fokheld samkvæmt íslenskum staðli um byggingarstig húsa og brunatryggð samkvæmt brunatryggingavottorði.
 • Ef veðsett eign er sumarhús er hámarkslán kr. 12.000.000 og verður lánið að hvíla á fyrsta veðrétti. Veðsetning með umbeðnu láni má vera mest 35% af metnu markaðsverði eða bruna­bóta­mati og gildir það mat sem lægra er. Þar sem sumarhús eru oft yfirgefin í langan tíma er farið fram á að sumarhús séu á lánstímanum tryggð fyrir öðrum tjónum en brunatjóni, t.d. gegn vatns­tjóni, innbroti o.s.frv. Sjóðnum er heimilt hvenær sem er á lánstímanum að óska eftir að fá afrit af tryggingarskírteini. Með lánsumsókn með veði í sumarhúsi skulu fylgja eftirfarandi viðbótarupplýsingar:
  • Verðmat frá fasteignasala sem sjóðurinn viðurkennir þarf alltaf að fylgja umsóknum auk staðfestingar fasteignasalans um að hann hafi farið á staðinn og skoðað aðstæður.
  • Afrit af lóðarleigusamningi.
  • Staðfesting á að sumarhús sé tryggt gegn tjóni, öðru en brunatjóni.
  • Að öðru leyti eru veðskilmálar með sama hætti og skilmálar íbúðarhúsnæðis.
 • Mat á markaðsverði íbúðarhúsnæðis eða sumarhúss getur verið söluverð samkvæmt kaupsamningi, fasteignamat frá fasteignamati ríkisins eða verðmat frá löggiltum fasteignasala sem sjóðurinn viðurkennir. Almenni lífeyrissjóðurinn áskilur sér rétt að óska eftir öðru verðmati frá löggiltum fasteignasala sem sjóðurinn tilnefnir. Ef verðmat með umsókn er meira en 20% hærra en fasteignamat fer sjóðurinn alltaf fram á annað sölumat frá fasteignasala sem sjóðurinn tilnefnir. Sjóðurinn áskilur sér rétt til að leggja mat á forsendur verðmats og lækka það í varúðarskyni.

5. Mat á greiðslugetu og lánshæfi

Greiðslumat

 • Almenni lífeyrissjóðurinn greiðslumetur lánsumsækjanda og metur lánshæfi hans í samræmi við lög um fasteignalán til neytenda nr. 118/2016 og tilheyrandi reglugerð.
 • Umsækjandi skal afhenda sjóðnum öll fylgigögn vegna greiðslumats og heimilar sjóðnum að leita eftir fjárhagsupplýsingum hjá Creditinfo.
 • Sjóðnum er ávallt heimilt að hafna umsókn um lán eða takmarka lánsfjárhæð þegar ekki er sýnt fram á fullnægjandi greiðslugetu að mati sjóðsins.

Upplýsingar um fylgigögn með umsókn um greiðslumat koma fram í lánsumsókn. Sjóðurinn áskilur sér rétt til að óska eftir öllum þeim upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að meta greiðslugetu umsækjanda.

Lánshæfismat

 • Allir umsækjendur um lán eru lánshæfismetnir, sbr. lög nr. 118/2016, um fasteignalán til neytenda og tilheyrandi reglugerð. Við gerð lánshæfismats eru notaðar uppýsingar frá Creditinfo um fjárhagsupplýsingar, sem umsækjandi heimilar sjóðnum að nálgast.Fái umsækjandi um lán ekki lánshæfismat eða lendir í flokki E í lánshæfismati synjar sjóðurinn lánveitingu. Fái umsækjandi ekki lánshæfismat vegna búsetu erlendis er hægt að leggja fram lánshæfismat frá viðurkenndri stofnun í búsetulandi.

6. Kostnaður

 • Lántökugjald skv. verðskrá sjóðsins.
 • Veðbókarvottorð.
 • Kostnaður við lánshæfismat.
 • Kostnaður við greiðslumat.
 • Önnur gjöld, svo sem vegna innheimtu og sérstakrar skjalagerðar, greiðast samkvæmt verðskrá sjóðsins.

 

7. Umsókn

 • Í lánsumsókn kemur fram hvaða gögn þurfa að fylgja með umsókn um lán og greiðslumat.
 • Sjóðurinn áskilur sér rétt til að óska eftir frekari gögnum sem nauðsynleg kunna að vera til að meta greiðslugetu umsækjanda.
 • Með undirskrift sinni veitir umsækjandi sjóðnum heimild til þess að leita upplýsinga sem varða greiðslugetu og lánshæfi, sbr. 10. gr. laga um neytendalán.

 

8. Annað

 • Þrátt fyrir ofangreindar lánareglur áskilur Almenni lífeyrissjóðurinn sér rétt til að hafna láns­beiðnum.
 • Lífeyrissjóðurinn veitir ekki lánaráðgjöf í skilningi laga nr. 118/2016.

Lánareglur þessar taka gildi 27. apríl 2017 og koma í stað reglna frá 6. apríl 2016.

Almenni lífeyrissjóðurinn - Borgartúni 25, 105 Reykjavík - kt. 450290-2549 - Sími: 510-2500 - Fax: 510-2550 - Netfang: almenni@almenni.is - Afgreiðslutími: Milli 9:00 og 16:00 virka daga - © Almenni lífeyrissjóðurinn