Lífeyrismál

Get ég valið mér lífeyrissjóð?

Ef aðild að lífeyrissjóði er tilgreind í kjara- eða ráðningarsamningi launamanns skal hann greiða í viðkomandi lífeyrissjóð. Ef hins vegar ekkert er tekið fram um aðild að lífeyrissjóði í kjara- eða ráðningarsamningi þá velur viðkomandi sér lífeyrissjóð eftir því sem reglur einstakra lífeyrissjóða leyfa.

Hvers vegna er mikilvægt að greiða í lífeyrissjóð?

Af því að lífeyrissjóðir veita sjóðfélögum sínum verðmæt réttindi. Með greiðslum í lífeyrissjóð ávinna sjóðfélagar sér rétt á lífeyrisgreiðslum til æviloka auk þess að tryggja sér og fjölskyldum sínum örorkulífeyri við starfsorkumissi og maka- og barnalífeyri við fráfall.

Eru allir skyldugir að greiða í lífeyrissjóð?

Já. Samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða (nr. 129/1997) skulu allir launamenn og þeir sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur greiða í lífeyrissjóð.

Hvað felst í lágmarkstryggingavernd lífeyrissjóða?

Til þess að mega taka við iðgjöldum verða lífeyrissjóðir að tryggja sjóðfélögum sínum tiltekinn lágmarkslífeyri sem samanstendur af lágmarksellilífeyri frá 70 ára aldri til æviloka og lágmarkstryggingavernd vegna örorku eða fráfalls sjóðfélaga.

Lágmarkslífeyrir skal tryggja (miðað við 40 ára inngreiðslutíma í lífeyrissjóð á aldrinum 25-64 ára) að sjóðfélagi fái 56% af þeim launum sem hann hefur greitt af í lífeyrissjóð í mánaðarlegan lífeyri þó eigi síðar en frá 70 ára aldri til æviloka og sambærilegan örorkulífeyri til æviloka ef starfsorka hans skerðist. Jafnframt skal lífeyrissjóður greiða maka- og barnalífeyri til maka og barna látins sjóðfélaga við fráfall hans.

Lífeyrissjóðir skulu í samþykktum sínum tilgreina það iðgjald sem þarf til að tryggja sjóðfélögum sínum lágmarkslífeyri en það er kallað iðgjald til lágmarkstryggingaverndar.

Hvað er lágmarksiðgjald í lífeyrissjóð? Má greiða meira?

Samkvæmt lífeyrissjóðalögunum skal iðgjald í lífeyrissjóð vera a.m.k. 12% af heildarlaunum. Það er kallað lágmarksiðgjald og er lögbundið lágmark sem skal greiða í lífeyrissjóð. Í sumum kjarasamningum er kveðið á um hærra iðgjald í lífeyrissjóð.

Sjóðfélagar geta greitt meira í lífeyrissjóð og er iðgjald umfram lágmarksiðgjald kallað viðbótariðgjald. Sjóðfélagar geta ráðstafað viðbótariðgjaldinu í séreignarsjóð (séreignardeild) eða inn á lífeyrissparnaðarreikning fjármálafyrirtækis.

Hins vegar er rétt að hafa í huga að það borgar sig ekki að greiða viðbótariðgjald í lífeyrissjóð nema að iðgjaldið sé greitt óskattlagt í lífeyrissjóð og er ástæðan sú að útborganir úr lífeyrissjóðum eru skattlagðar eins og hverjar aðrar tekjur. Ef iðgjald í lífeyrissjóð er greitt af skattlögðu fé leiðir það til tvísköttunar sem borgar sig ekki.

Hver er munurinn á lágmarksiðgjaldi og iðgjaldi til lágmarkstryggingaverndar?

Lágmarksiðgjald er 12% af heildarlaunum og er það iðgjald sem allir verða að greiða í lífeyrissjóð. Sá hluti lágmarksiðgjaldsins sem þarf til að tryggja lágmarkslífeyri samkvæmt lögum er kallaður iðgjald til lágmarkstryggingaverndar.

Ef iðgjald til lágmarkstryggingaverndar er lægra en lágmarksiðgjald  er mismunurinn viðbótariðgjald sem sjóðfélagar geta ráðstafað í séreignarsjóð eða viðbótartryggingar að eigin vild.

Sem dæmi má nefna að í Almenna lífeyrissjóðnum er lágmarksiðgjald 12% af launum en iðgjald til lágmarkstryggingaverndar er 8%. Mismunurinn er 4% af launum og er viðbótargjald.

Þarf sjóðfélagi að tryggja sér lágmarkstryggingavernd ef hann á þegar góð lífeyrisréttindi?

Já. Í hvert skipti sem lágmarksiðgjald er greitt í lífeyrissjóð skal verja hluta iðgjaldsins til að tryggja sér lágmarkslífeyri alveg óháð því hvaða réttindi sjóðfélaginn á fyrir.

Það skiptir engu máli þó að hann sé búinn að tryggja sér lífeyrisgreiðslur til æviloka sem nema 56% af meðalævitekjum, hann verður engu að síður að verja hluta iðgjaldsins (iðgjald til lágmarkstryggingaverndar) til að tryggja sér lágmarkslífeyri.

Verða allir að tryggja sér rétt á lífeyrisgreiðslum sem nema 56% af þeim launum sem greitt er af í lífeyrissjóð?

Reglan um 56% lágmarksellilífeyri þýðir ekki að allir verði héðan í frá að ávinna sér svona mikinn rétt, sama hvað þeir eiga eftir af starfsævinni. Hún miðast við að fólk greiði í lífeyrissjóð í a.m.k. 40 ár og er notuð til viðmiðunar við útreikning fyrir aðra.

Þeir sem t.d. eiga bara eftir að greiða í lífeyrissjóð í 10 ár þyrftu e.t.v. að greiða mjög stóran hluta af launum sínum í lífeyrissjóð til að ná 56% markinu. Því eru þeir aðeins skyldugir til að vinna sér inn hlutfallslega minni réttindi eða u.þ.b. 14% af þeim launum sem þeir greiða af (10/40*56).

Sjóðfélagi á lífeyrisréttindi í mörgum lífeyrissjóðum – má flytja þau og sameina í einn sjóð?

Nei, samkvæmt lífeyrissjóðalögunum er bannað að flytja réttindi milli lífeyrissjóða á meðan einstaklingar eru á vinnumarkaði og greiða í lífeyrissjóð. Þegar kemur að töku lífeyris þá sér sá sjóður sem síðast var greitt til um  að senda umsóknina á hina lífeyrissjóðina sem sjá svo sjálfir um að greiða.

Viltu tryggja þér lágmarkslífeyri?

Ef aðild að lífeyrissjóði er ekki tilgreind í kjara- eða ráðningarsamningi þínum getur þú valið að greiða lágmarksiðgjald í Almenna lífeyrissjóðinn.

Almenni lífeyrissjóðurinn veitir góð réttindi til örorku-, maka- og barnalífeyris og mikið svigrúm í samsetningu og úttekt eftirlauna. Af 12% lágmarksiðgjaldi fara 8% til að tryggja ævilangan ellilífeyri, örorku-, maka- og barnalífeyri en 4% fara í séreignarsjóð sem er laus frá 60 ára.

Iðgjaldið sem greiðist í séreignarsjóð má nota til að auka við örorkutryggingu eða byggja upp séreignarsjóð sem veitir meira svigrúm við töku eftirlauna og erfist við fráfall og eykur þannig hag eftirlifandi maka og barna.

Tryggingafræðileg staða sjóðsins er þar að auki góð og er Almenni lífeyrissjóðurinn afar góður kostur til að tryggja sér lágmarkslífeyri.