Getum við aðstoðað?

Makalífeyrir og barnalífeyrir

Makalífeyrir

Makalífeyrir er greiddur úr samtryggingarsjóði við fráfall sjóðfélaga. Makalífeyrir er greiddur eftirlifandi maka sjóðfélaga í a.m.k. 30 mánuði og lengur ef yngsta barn sjóðfélaga er yngra en 20 ára eða ef maki er 50% öryrki og yngri en 67 ára. Samkvæmt lögum telst maki vera sá eða sú sem við andlátið var í hjúskap með sjóðfélaga, staðfestri samvist eða óvígðri sambúð.

Barnalífeyrir

Barnalífeyrir er greiddur til barna látinna sjóðfélaga ef sjóðfélaginn hafði greitt iðgjöld í að minnsta kosti 24 mánuði af síðustu 36 mánuðum, eða sex mánuði af síðustu 12 mánuðum, notið elli- eða örorkulífeyris við andlátið eða öðlast rétt til svokallaðs framreiknings. Barnalífeyrir er greiddur til 20 ára aldurs barns sjóðfélaga og er föst fjárhæð á mánuði sem er verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs. Eigi barn látins sjóðfélaga hvorki foreldri né kjörforeldri á lífi er greiddur tvöfaldur barnalífeyrir.

Hvað á að gera?

Smelltu á hnappinn til hægri og skráðu þig inn með rafrænum skilríkjum til að fylla út umsókn um maka- og barnalífeyri.

Séreign

Skipting séreignar á milli erfingja

Samkvæmt lögum um starfsemi lífeyrissjóða fellur séreignarsparnaður til erfingja og skiptist á milli þeirra eftir reglum erfðalaga. Í erfðalögum er maki skilgreindur sem hjúskaparmaki og því erfir sambúðarmaki ekki inneign í séreignarsjóði. Ef hjúskaparmaki og/eða börn eru til staðar við fráfall sjóðfélaga rennur séreignarsparnaður ekki í dánarbú heldur skiptist inneign á milli eftirlifandi maka og barna óháð dánarbússkiptum. Ef hinn látni átti ekki maka og börn eða aðra niðja rennur inneignin í dánarbúið og er skipt á milli lögerfingja. Lífeyrissparnaður er hjúskapareign og samkvæmt því rennur helmingur séreignar til eftirlifandi maka sem hjúskapareign en því sem eftir stendur er skipt samkvæmt þeim erfðareglum.

Breyting frá lögboðinni skiptingu

Í sumum tilvikum vilja fjárráða börn að eftirlifandi foreldri fái alla inneignina og samkvæmt íslenskum lögum er erfingja almennt heimilt að afsala sér arfi að hluta eða öllu leyti.

Val á ávöxtunarleið fyrir erfingja

Við skipti á séreign er inneign flutt í ávöxtunarleið samkvæmt Ævileið Almenna lífeyrissjóðsins sem byggir á því að inneign sjóðfélaga er ávöxtuð í verðbréfasöfnum sem taka mið af aldri sjóðfélaga. Aldur erfingja stýrir því í hvaða ávöxtunarleið erfðaséreign er flutt við skiptingu. Séreignin flyst síðan á milli safna í samræmi við ákvæði um Ævileiðina. Smelltu á hnappinn til hliðar að skoða hvaða ávöxtunarleiðir eru í boði.