Erlend verðbréf lækka vegna styrkingar krónu

10. október 2016

Verðbréfasöfn sem fjárfesta í erlendum verðbréfum (samtryggingarsjóður, Ævisafn I, II og III) hafa átt erfitt uppdráttar á árinu vegna mikillar styrkingar á krónunni. Í ársbyrjun kostaði t.d. einn bandaríkjadalur 129,28 krónur en í lok þriðja ársfjórðungs kostaði hann 114,17 krónur (kaupgengi SÍ) eða 11,7% minna en í ársbyrjun. Styrking krónu veldur því að erlend verðbréf lækka í íslenskum krónum og er það meginástæða þess að ávöxtun samtryggingarsjóðs og Ævisafna I og II er tiltölulega lág á árinu.

Heimsvísitala hlutabréfa tók við sér á þriðja ársfjórðungi, hækkaði um 4,8% í dollurum og hefur hækkað um 5,4% í dollurum frá áramótun. Styrking krónu gagnvart dollara hefur dregið niður ávöxtunina á erlendum hlutabréfum í íslenskum krónum og má sem dæmi nefna að á þriðja ársfjórðungi styrktist krónan um 6,7% gagnvart dollara. Heimsvísitala hlutabréfa lækkaði því um 2,2% í krónum talið á þriðja ársfjórðungi og hefur lækkað um 6,9% í krónum frá áramótum.

Þriðji ársfjórðungur var góður á innlendum skuldbréfamarkaði. Verðtryggð 10 ára skuldabréf hækkuðu um 3,3% og hefur því lækkun á fyrri helmingi ársins gengið til baka og verðtryggð skuldabréf hækkað samtals um 3% frá áramótum.  Þróunin á innlendum hlutabréfamarkaði hefur verið óhagstæð á árinu. Heildarvísitala innlendra hlutabréfa lækkaði um 2,9% á þriðja ársfjórðungi og hefur því lækkað um 6,5% frá áramótum.

Á morgunfundi Almenna lífeyrissjóðsins fimmtudaginn 27. október var fjallað nánar um ávöxtun og horfur.

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.