Séreign inn á lán framlengt

13. júní 2019

Séreign inn á lán framlengt

Óhætt er að mæla með því að fólk nýti sér að greiða séreign skattfrjálst inn á höfuðstól fasteignalána en stjórnvöld hafa framlengt þetta hagstæða úrræði um tvö ár.

Stjórnvöld hafa nú ákveðið að framlengja um  tvö ár þeim möguleika á að greiða séreignarsparnað skattfrjálst inn á lán. Það er óhætt að mæla með því að fólk nýti sér þennan möguleika en vart er hægt að hugsa sér hagstæðari leið til húsnæðissparnaðar eða lækkunar á höfuðstól húsnæðislána. Ástæðan er sú að ekki er einungis um skattfrjálsan sparnað að ræða heldur fá launþegar einnig greitt mótframlag 2% af launum frá launagreiðanda sem þeir fengju annars ekki. Skilyrði fyrir því að nýta sér þetta úrræði er að vera með viðbótarlífeyrissparnað. Hægt er að sækja um viðbótarlífeyrissparnað með rafrænum skilríkjum með því að smella hér en hér fyrir þá sem vilja fylla út pdf skjal til útprentunar og undirritunar.  

Samkvæmt upplýsingum frá þjónustuveri Ríkisskattstjóra vinnur starfsfsfólk embættisins að því að undirbúa þetta og á næstunni fá þeir sem eru nú þegar að greiða inn á lán sendan tölvupóst þar sem hægt er að velja hvort haldið er áfram að greiða inn á lán eða ekki. Í framhaldinu fá viðkomandi staðfestingu á ákvörðun sinni senda í tölvupósti.  

Þeir sem ekki eru að greiða inn á lán en vilja byrja geta smellt hér eða farið á slóðina https://leidretting.is  

Hér má sjá lögin sem gilda um ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á lán.

Þetta úrræði hefur ekki áhrif á þá sem greiða séreign inn á lán vegna fyrstu fasteignar. Það úrræði gildir eftir sem áður í 10 ár samfellt frá því að það hefst. Hægt er að nýta það til að safna fyrir útborgun fyrir húsnæðiskaup og til að greiða inn á höfuðstól eftir húsnæðiskaup. Forsendan fyrir hvoru tveggja er að vera með viðbótarlífeyrissparnað. 

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.