Sjóðfélagar
Almenni lífeyrissjóðurinn er opinn fyrir þá sem vilja greiða til sjóðsins.
- Almenni er einnig starfsgreinasjóður arkitekta, hljómlistarmanna, leiðsögumanna, lækna og tæknifræðinga.
- Lágmarksiðgjald í lífeyrissjóð er 12% af launum samkvæmt lögum.
- Lágmarksiðgjald sem greiðist til Almenna skiptist þannig að 8% af launum greiðist í samtryggingarsjóð og 4% í séreignarsjóð.
- Hafi verið samið um hærra lágmarksiðgjald í kjara- eða ráðningarsamning greiðist viðbót í séreignarsjóð nema sjóðfélagar óski sérstaklega eftir öðru.
Iðgjald
Hjá Almenna lífeyrissjóðnum greiðist lágmarksiðgjald (12% af launum) bæði í samtryggingarsjóð (8%) og séreignarsjóð (4%).
- Samsetning lífeyrisréttinda í Almenna er öðruvísi en í flestum öðrum lífeyrissjóðum. Þriðjungur af lágmarksiðgjaldi í Almenna lífeyrissjóðinn greiðist í séreignarsjóð en algengast er að lágmarksiðgjald greiðist allt í samtryggingarsjóð.
- Með greiðslum í samtryggingarsjóð ávinna sjóðfélagar sér rétt á ellilífeyri til æviloka og áfallalífeyri (örorku-, maka- og barnalífeyrir) sem ver þá og fjölskyldur þeirra fyrir tekjumissi vegna örorku eða dauða.
- Inneign í séreignarsjóði er laus til úttektar við 60 ára aldur og erfist við fráfall sjóðfélaga.
- Viðbótariðgjald (iðgjald umfram lágmarksiðgjald) er greitt í séreignarsjóð.
- Lágmarksiðgjald í lífeyrissjóð samkvæmt lögum er 12% af launum. Í flestum kjarasamningum hefur verið samið um að launþegi greiði 4% launum og launagreiðandi 8%. Hafi verið samið um hærra iðgjald í lífeyrissjóð en 12% af launum greiðir launagreiðandi mismuninn eða allt að 11,5% af launum.
Séreignarsjóður
Í séreignarsjóði eru iðgjöld sjóðfélaga færð á sérreikning hans auk ávöxtunar. Iðgjöld hvers sjóðfélaga eru algjörlega hans eign en eru ávöxtuð með iðgjöldum annarra sjóðfélaga.
- Sjóðfélagar geta valið á milli 7 mismunandi ávöxtunarleiða sem sveiflast mismunandi mikið og hafa mismunandi vænta langtímaávöxtun.
- Sjóðfélagar geta breytt ráðstöfun iðgjalda og/eða flutt inneign á milli ávöxtunarleiða.
- Inneign í séreignarsjóði er laus til útborgunar við 60 ára aldur og geta sjóðfélagar ráðið hvort þeir taka inneignina út í einu lagi eða dreifa úttektinni á lengri tíma.
- Inneign er laus til útborgunar við örorku og greiðist þá út á sjö árum miðað við 100% örorku. Ef örorkan er minni þá lengist tíminn hlutfallslega.
- Hlutur erfingja í séreignarsjóði er að fullu laus til útgreiðslu við fráfall.
- Inneign er lögvarin en það þýðir að það er ekki hægt að ganga að henni ef eigandinn verður gjaldþrota.
- Óheimilt er að framselja, veðsetja eða á annan hátt ráðstafa inneign í séreignarsjóði. Undantekning frá þessari reglu er ef inneign er skipt á grundvelli samkomulags um gagnkvæm skipti á ellilífeyrisréttindum við maka.
- Inneign í séreignarsjóði erfist við fráfall sjóðfélaga og er greidd út samkvæmt erfðareglum. Inneign skiptist á milli hjúskaparmaka og barna samkvæmt erfðalögum, þ.e. 2/3 til hjúskaparmaka.
Samtryggingarsjóður
Með greiðslum í samtryggingasjóð ávinna sjóðfélagar sér réttindi til elli- og áfallalífeyris.
- Ellilífeyrir er greiddur frá 60-80 ára aldri til æviloka.
- Áfallalífeyrir (örorku-, maka- og barnalífeyrir) er greiddur við örorku eða fráfall sjóðfélaga.
- Eignir samtryggingarsjóðs eru ávaxtaðar í sérgreindu verðbréfasafni.
- Fjárfestingarstefna samtryggingarsjóðsins tekur mið af réttindakerfi, lífeyrisbyrði, aldurssamsetningu sjóðfélaga og áætluðu framtíðargreiðsluflæði vegna lífeyrisskuldbindinga sjóðsins.
- Einu sinni á ári skal lífeyrissjóður meta fjárhagsstöðu sjóðsins og bera eignir saman við skuldbindingar. Ef niðurstaða sýnir meira en 10% mismun á eignum og skuldbindingum í eitt ár eða meiri en 5% mun í 5 ár verður samtryggingarsjóður að breyta réttindum.