Að hverju þarf ég að huga þegar ég byrja á vinnumarkaði?
Þarf ég að greiða í lífeyrissjóð og leggja fyrir til eftirlaunaáranna?
Þarf ég að tryggja mig og hvenær get ég keypt mér íbúð?

Sækja PDF skjal

Það er erilsamt að hefja framtíðarstarf á vinnumarkaði. Að baki er langt nám en nú þarf að læra nýtt starf, kynnast nýju fólki og auðvitað fara yfir fjármálin. Framundan er starfsævin þegar fólk lifir af launum, byggir upp eignir og safnar sjóði til að lifa af þegar vinnu lýkur. Það er að mörgu að hyggja og e.t.v. ekki efst í huga að hugsa um starfslok, hvað þá um örorku eða dauða. Það borgar sig þó að gefa þessum málum tíma því þannig eykur þú líkurnar á betra lífi og fjárráðum. Í þessari grein finnur þú fjórar ábendingar og góð ráð fyrir þá sem eru að byrja á vinnumarkaði.

Kynntu þér hvaða réttindi þú ávinnur þér með greiðslum í lífeyrissjóð

  • Allir á aldrinum 16 til 70 ára eru skyldugir að greiða a.m.k. 12% af launum í lífeyrissjóð samkvæmt lögum.
  • Tilgangur lífeyrissjóðanna er að tryggja sjóðfélögum ellilífeyri til æviloka og verja þá og fjölskyldur þeirra fyrir tekjumissi vegna örorku og andláts með því að greiða áfallalífeyri (örorku-, maka- og barnalífeyri).
  • Ef enginn lífeyrissjóður kemur fram í kjarasamningi eða ráðningarsamningi getur þú valið hvaða lífeyrissjóð þú greiðir í.
  • Kynntu þér hvaða réttindi lífeyrissjóðir veita og fáðu upplýsingar um rekstur og eignir. Taktu upplýsta ákvörðun og veldu lífeyrissjóð sem þú treystir. Skoðaðu fleiri en einn sjóð.

Tryggðu þig fyrir tekjumissi vegna örorku

  • Lífeyrissjóðir greiða lágmarksbætur ef sjóðfélagar missa starfsgetu eða ef þeir falla frá. Yfirleitt borgar sig að bæta við sig tryggingum vegna þessara áfalla en það fer þó eftir aðstæðum hjá hverjum og einum.
  • Það tekur oftast 3 ár að öðlast full lífeyrisréttindi og því er ungt fólk í raun án örorkutryggingar fyrstu árin á vinnumarkaði. Þeir sem eru að hefja störf ættu því alltaf að gera sérstakar ráðstafanir vegna þessa og verða sér úti um tryggingar sem bæta þeim tekjumissi vegna veikinda eða slysa. Hafðu samband við fleiri en eitt tryggingarfélag og kynntu þér hvaða kostir bjóðast.
  • Þeir sem eru með börn á framfæri og/eða hafa stofnað til skulda ættu einnig að yfirfara hvort ekki sé skynsamlegt að kaupa líftryggingu.

Byrjaðu strax með viðbótarlífeyrissparnað

  • Vegna mótframlags launagreiðanda og hagstæðra skattareglna er viðbótarlífeyrissparnaður hagkvæmasti sparnaður sem völ er á.
  • Þeir sem eru komnir í fasta vinnu eða með framtíðarstarf ættu að vera með viðbótarlífeyrissparnað til að fá mótframlag launagreiðanda sem nemur 2% af launum. Ef þú sleppir því færðu í raun 2% lægri laun en ella.
  • Sparnaðurinn er bundinn til 60 ára og getur því ekki verið varasjóður eða sjóður til að grípa til ef einstaklingar verða fyrir fjárhagslegum áföllum.
  • Veldu vörsluaðila lífeyrissparnaðar af kostgæfni. Kynntu þér ávöxtunarleiðir og umsjónarkostnað hjá fleiri en einum vörsluaðila. Veldu ávöxtunarleið eftir sparnaðartíma og áhættuþoli.

Vandaðu ákvörðun um langtímalán

  • Á sama tíma og ungt fólk er að hefja störf á vinnumarkaði eru margir einnig að stofna fjölskyldu og heimili. Vegna þess þarf oft að taka lán svo hægt sé að eignast hluti sem eru nauðsynlegir fyrir heimili og rekstur, t.d. húsnæði.
  • Að taka lán er eðlilegur hlutur af fjármálum einstaklinga. Að taka lán er mikil ákvörðun því í henni felst skuldbinding. Gefðu þér góðan tíma.
  • Lán kosta og draga úr ráðstöfunartekjum. Kannaðu kostnað við lántöku og vaxtakjör. Kannaðu hvort þú getir greitt lánið upp fyrir gjalddaga, og hvort megi greiða inn á það án kostnaðar á lánstímanum.
  • Stefndu að því að vera skuldlaus þegar þú ferð á eftirlaun. Stilltu lánstímann þannig að lán verði í síðasta lagi uppgreitt þegar þú áætlar að hætta að vinna.
  • Reiknaðu áætlaða greiðslubyrði miðað við mismunandi forsendur. Ágæt viðmiðun er að greiðslubyrði verði aldrei meiri en 15%-20% af heildartekjum og að að lán til 25 ára verði ekki hærra en 1,5 til 2,5 árslaun og 40 ára lán ekki hærra en 2 til 3 árslaun.
  • Vertu viðbúin/n breyttum forsendum um laun og greiðslubyrði. Þú verður að geta staðið við skuldbindingar þínar hvernig sem árar.

Lífið er framundan. Spennandi verkefni bíða m.a. að standa sig vel í nýrri vinnu og hjá flestum að eignast eða leigja í búð fyrir fjölskylduna. Fáir hugsa um starfslokin sem eru langt inn í framtíðinni. Við viljum öll lifa góðu lífi en til þess þarf m.a. að skipuleggja fjármálin vel. Ákvörðun á einu æviskeiði hefur áhrif á öðru. Þegar vinnu lýkur taka eftirlaunaárin við. Í stað þess að fá tekjur þarf að lifa af lífeyri og ganga á eignir. Afkoman á þessum árum ræðst fyrst og fremst af því hvað þú leggur fyrir á starfsævinni. Því fyrr sem þú byrjar því auðveldara er að byggja upp sjóð til að tryggja sér ásættanleg eftirlaun. Þeir sem skipuleggja fjármálin frá byrjun geta líka eignast eða eytt meira á starfsævinni. Pældu í því og byrjaðu strax.

 

Hvernig getur Almenni aðstoðað þig?

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.