Hvernig var ávöxtun á mörkuðum á árinu 2013? 
Hverjar eru horfur um ávöxtun 2014? Á ég að breyta um ávöxtunarleið?

Árið 2013 var ágætt ár á fjármagnsmarkaði en almennt má segja að aukinn stöðugleiki hafi náðst í helstu hagkerfum heimsins og eru horfur fyrir árið 2014 taldar jákvæðar. Megin áherslan hjá vestrænum ríkjum var að vinna áfram að lækkun skuldsetningar. Stjórnmálamenn og hagfræðinga greinir á um leiðir að þeirri lækkun, hvort skera eigi niður ríkisútgjöld til að auka greiðslugetu eða auka útgjöld til að fjárfesta í vexti. Nokkuð dró úr áhættufælni eins og sjá má á minni mun á áhættuálagi milli fjárhagslega sterkja ríkja og þeirra sem lentu í erfiðleikum árin á undan.

Erlendir markaðir
Á árinu 2013 var unnið á mörgum vígstöðvum að því að auka jafnvægi á helstu fjármálamörkuðum heimsins. Stjórnmálamönnum tókst að koma í veg fyrir sundrungu á Evrusvæðinu, í bili að minnsta kosti.
Ár aukins stöðugleika mynd 1Bandaríska þingið náði tímabundið ekki saman um hækkun skuldaþaksins sem varð til þess að fjölda opinberra stofnana var lokað og hundruð þúsunda opinberra starfsmanna voru sendir heim í launalaus leyfi. Helstu seðlabankar heimsins héldu stýrivöxtum lágum og dældu lausafé inn á markaðina í því augnamiði að stuðla að vexti, lægra atvinnuleysi og koma í veg fyrir verðhjöðnun.
Erlendir hlutabréfamarkaðir skiluðu mjög góðri ávöxtun á árinu en MSCI World vísitalan hækkaði um 24,1% mælt í USD. Þrátt fyrir aðgerðir seðlabanka Bandaríkjanna og Evrópu þá hækkaði ávöxtunarkrafa á skuldabréf fjárhagslega sterkra ríkja. Þetta skýrist helst af spá um hækkandi verðbólgu, vegna aukinnar peningaprentunar og því að nafnvaxtakrafan var orðin mjög lág. Verð á gulli lækkaði mikið á árinu, hráefni til matvælavinnslu lækkaði hressilega en olía stóð lítið breytt eftir sveiflukennt ár. Stöðugleikinn er enn brothættur en fjárfestar virðast almennt nokkuð bjartsýnir á hagvaxtarhorfur fyrir árið 2014.

Efnahagsumhverfið á Íslandi
Á Íslandi má í stuttu máli segja að hagkerfið hafi loks náð ákveðnu jafnvægi eftir efnahagshrunið. Seðlabankinn hefur náð að koma böndum á íslensku krónuna, kjaraviðræður hafa stuðlað að stöðugleika og verðbólgan hélst innan vikmarka Seðlabankans. Ný ríkisstjórn tók við völdum og var aðgerðum í skuldamálum heimilanna almennt vel tekið. Ríkisstjórnin stefnir að hallalausum fjárlögum fyrir árið 2014.

Ár aukins stöðugleika mynd 2

Gjaldeyrishöftin hafa fest sig kyrfilega í sessi en lítið þokaðist í átt að afléttingu þeirra á árinu. Erlend fjárfesting á Íslandi var áfram í lágmarki en nokkur efnileg íslensk fyrirtæki voru seld úr landi. Erlendum ferðamönnum fjölgaði mikið og skilar það mikilli búbót fyrir þjóðfélagið. Álverð lækkaði mikið á heimsmarkaði og verðvísitala sjávarafurða lækkaði um 6%.
Stöðugleikinn í hagkerfinu byggir á fjölþættum grunni en þrátt fyrir að margt hafi áunnist þá bíða mörg stór mál úrlausnar, en auk gjaldeyrishaftanna er helst að nefna uppsafnaðan vanda heilbrigðiskerfisins.
Skuldalækkun var áfram megin áherslan í fjármálum heimila og fyrirtækja og fjárfestingarstig hélst áfram lágt. Rekstrarárangur fyrirtækja var almennt ágætur en vísbendingar eru uppi, bæði á hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði, um að fjárfestar gerir ráð fyrir betri rekstrarafkomu á næstu misserum og árum.

Skuldabréfamarkaður:
Ávöxtunarkrafa skuldabréfa hafði fram til ársbyrjunar 2013 lækkað talsvert eftir því sem eftirskjálftum efnahagshrunsins fækkaði. Hækkun á kröfu íbúðabréfa (HFF) hafði mest áhrif á ávöxtun skuldabréfasafna. Skuldavandi Íbúðalánasjóðs jókst á árinu og hefur skuldaraálag myndast á ávöxtunarkröfu íbúðabréfa umfram ríkisbréfaflokka sem gefnir eru beint út af ríkissjóði. Vandi Íbúðalánasjóðs leiddi til söluþrýstings á íbúðabréfum og stuðlaði að aukinni spurn eftir verðtryggðum og óverðtryggðum ríkisbréfaflokkum framan af ári.

Ár aukins stöðugleika mynd 3Þegar leið á árið hækkaði krafa ríkisbréfaflokkanna að nýju, m.a. vegna væntinga um hækkun stýrivaxta á árinu 2014, og endaði ávöxtunarkrafa helstu flokka ríkisbréfa lítið breytt frá því í upphafi árs. Aukinn þjóðhagslegur stöðugleiki og árangursríkar aðgerðir til að bæta skuldastöðu hafa leitt til þess að skuldaraálag hefur farið lækkandi hjá mikilvægum útgefendum skuldabréfa, líkt og hjá Reykjavíkurborg og Lánasjóði sveitarfélaga. Framboð ríkisbréfa, skuldabréfa sveitarfélaga og Íbúðalánasjóðs var ekki mikið á árinu en talsvert framboð var af skuldabréfum fasteignafélaga sem fjárfesta í atvinnuhúsnæði og sértryggðum skuldabréfum bankanna. Útlit er fyrir að fyrirtæki, sérstaklega fasteignafélög, sértryggð skuldabréf bankanna og eignasafn Seðlabanka Íslands dragi vagninn í nettó-útgáfu skuldabréfa á árinu 2014. Útlit er fyrir að dragi úr nettó-útgáfu opinberra aðila frá fyrra ári.

Hlutabréfamarkaður:

Árið 2013 var gjöfult á hlutabréfamarkaði en vísitala heildarávöxtunar félaga á aðallista hækkaði um 29,1%. Hlutskipti hluthafa var þó æði misjafnt en mest hækkaði verð Icelandair um 121,4% á meðan hlutabréfaverð Vodafone lækkaði um 16,3%.Ár aukins stöðugleika mynd 4Þrjú ný félög voru skráð á markaðinn á árinu en þau voru VÍS, TM og N1. Framboð hlutafjár í óskráðum hlutafélögum var talsvert en það fann sér að mestu farveg meðal þeirra fjölmörgu fagfjárfestasjóða sem litu dagsins ljós. Áberandi þykir að lítið var um viðskipti með eignarhluti í sjávarútvegsfyrirtækjum en almenn þátttaka í þeirri undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar er eftir sem áður takmörkuð. Fjárfestingar í atvinnulífinu voru áfram litlar og hefur umræðan um þörf á aukinni fjárfestingu og fjölbreytni í atvinnulífi landsmanna ágerst. Nokkur félög hafa verið nefnd sem líklegir nýliðar á Aðallistann á árinu 2014 en þau eru HB Grandi, Sjóvá, Reitir, Skipti, Eik fasteignafélag og Promens.

Hvernig á ég ávaxta lífeyrissparnaðinn 2014?

Erfitt er að spá og gildir það sérstaklega um framtíðina. Þrátt fyrir að horfur séu almennt taldar jákvæðar fyrir árið 2014 þá ríkir óvissa um þær væntingar enda hagkerfi heimsins að rétta úr kútnum eftir hressilega ágjöf síðustu ára.

  • Hugaðu að eignasamsetningu lífeyrissparnaðar þíns með tilliti til aðstæðna og þess hversu langur tími er til fyrirhugaðrar úttektar sparnaðarins.
  • Eldri sjóðsfélögum er ráðlagt að draga úr áhættu eignasafna sinna og við væntum að mestar sveiflur verði á hlutabréfaverði og í löngum skuldabréfum. Sama gildir um þá sem vilja sjá litlar sveiflur í sínu eignasafni.
  • Með því að skrá sig í Ævileiðina þá flyst sparnaður sjóðsfélaga sjálfkrafa milli ávöxtunarleiða eftir aldri og er dregið úr áhættu eftir aldri.

Hvernig getur Almenni aðstoðað þig?

  • Almenni lífeyrissjóðurinn býður sjóðfélögum að hitta ráðgjafa á stöðufundi um eignir og lífeyrisréttindi. Smelltu hér til að bóka stöðufund.
  • Í Almenna lífeyrissjóðnum geta sjóðfélagar valið á milli sex ávöxtunarleiða fyrir viðbótarlífeyrissparnað með
  • mismunandi ávöxtun og áhættu.
  • Almenni lífeyrissjóðurinn birtir mánaðarlega ítarleg upplýsingablöð um ávöxtunarleiðir sjóðsins og eignasamsetningu þeirra.

 

Fræðslugreinar Almenna lífeyrissjóðsins eru skrifaðar með hliðsjón af upplýsingum sem liggja fyrir á hverjum tíma. Sjóðurinn og starfsmenn hans bera ekki ábyrgð á ákvörðunum sem teknar eru á grundvelli efnis og upplýsinga sem birtist í greinunum. Lesendum er ráðlagt að kynna sér málin vel og fá ráðgjöf og upplýsingar frá fleiri en einum aðila áður en ákvarðanir eru teknar.

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.