Af hverju á ég að skoða kostnað við val á vörsluaðila fyrir lífeyrissparnaðinn minn?
Á ég ekki að bara að velja þann aðila sem sýnir hæstu ávöxtunina?

Kostnaður dregst frá ávöxtun og hefur því áhrif á uppsöfnun sparnaðar. Á löngum tíma getur munað mjög miklu. Rannsóknir sýna að kostnaður hefur afgerandi áhrif þegar árangur við ávöxtun fjármuna er borinn saman. Þess vegna er nauðynlegt að bera saman kostnað og þóknanir hjá vörsluaðilum.

Kostnaði við sparnað má skipta í tvo flokka: rekstrarkostnað og veltukostnað.

  • Rekstrarkostnaður er sú þóknun sem vörsluaðilar taka fyrir að geyma sparnað og annast hann. Dæmi um rekstrarkostnað eru umsýslulaun sjóða, þóknun fyrir fjárvörslu, eignastýringarkostnaður og innheimtukostnaður.
  • Veltukostnaður er kostnaður sem fellur til við hreyfingar eða eignabreytingar, t.d. kostnaðurinn við að kaupa og selja verðbréf eða innleysa bankainnstæður eða inneign í sjóðum.

Myndin fyrir neðan sýnir dæmi um áhrif rekstrarkostnaðar á 10.000 kr. inngreiðslu. Í dæminu er reiknað verðmæti inngreiðslu án ávöxtunar á sparnaðartíma að frádegnum rekstrarkostnaði miðað við mismunandi kostnaðarhlutfall . Þannig lækkar inngreiðsla um 18% á 20 árum ef kostnaðarhlutfallið er 1%, um 12% ef kostnaður er 0,65% og um 7% ef kostnaður er 0,35%.

 

(Smelltu á mynd til að stækka)

Áður en vörsluaðili fyrir lífeyrissparnað eða annan sparnað er valinn er nauðsynlegt að afla sér upplýsinga um þær þóknanir sem hann tekur.

  • Óskaðu eftir sundurliðuðum upplýsingum um kostnað hjá vörsluaðila. Hvaða þóknun tekur vörsluaðili fyrir að geyma sparnaðinn þinn?
  • Spyrðu um kostnað í undirliggjandi sjóðum. Ef vörsluaðili fjárfestir í sjóðum borgar sig að vita hver umsjónarlaun í viðkomandi sjóðum eru. Mundu að þau dragast frá ávöxtun.
  • Spyrðu um veltukostnað. Er tekið upphafsgjald þegar sparnaður er lagður fyrir? Hvað kostar að gera eignabreytingar hjá vörsluaðila? Hvað kostar að færa sparnaðinn til annars vörsluaðila? Og kostar eitthvað að leysa sparnaðinn út í starfslok?
  • Ef ráðgjafi eða sölumaður geta ekki veitt fullnægjandi svör um rekstrarkostnað og annan kostnað er best að sleppa því að skipta við viðkomandi aðila. Það á að vera grundvallar-sjónarmið við að gæta fjármuna annarra aðila að fara vel með fé og geta veitt nákvæmar upplýsingar um kostnaðinn.

Kostnaður við ávöxtun og eignastýringu er óhjákvæmilegur. Við greiðum fyrir þjónustu fjármálafyrirtækja og sjóða en kostnaðurinn er misjafn milli vörsluaðila. Þess vegna er bráðnauðsynlegt að bera saman kostnað og þóknanir hjá vörsluaðilum. Það eykur samkeppni milli þeirra sem kemur neytendum til góða. Kostnaðaraðhaldið knýr vörsluaðilana til að leita leiða til að hagræða og gera þjónustuna meira virði fyrir neytendur.

 

Hvernig getur Almenni aðstoðað þig?

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.