Fræðsla og ráðgjöf

Nýttu þér heimildir til viðbótarlífeyrissparnaðar

Borgar sig að vera með viðbótarlífeyrissparnað?
Borgar sig að binda sparnað til 60 ára aldurs og greiða síðan tekjuskatt af höfuðstól og ávöxtun?

Viðbótarlífeyrissparnaður er sparnaðartækifæri sem enginn ætti að missa af. Helstu kostir viðbótarlífeyrissparnaðar eru:

  • Mótframlag launagreiðanda, allt að 2% af launum, bætist við þitt framlag samkvæmt kjarasamningi eða ráðningarsamningi. Vegna mótframlags launagreiðanda er viðbótarlífeyrissparnaður hagstæðasti sparnaður sem völ er á.
  • Þægilegur sparnaður, launagreiðandi sér um að greiða iðgjöldin.
  • Enginn fjármagnstekjuskattur er greiddur af vaxtatekjum.
  • Sparnaðurinn er séreign þín og erfist við fráfall.
  • Viðbótarlífeyrissparnaður er laus til úttektar við 60 ára aldur og er hægt að taka inneignina út í einu lagi eða á lengri tíma að eigin vali.

Við ráðleggjum öllum sem hafa tök á að nýta sér heimildir til viðbótarlífeyrissparnaðar.

  • Tryggðu þér mótframlag launagreiðanda með því að gera samning um að greiða 2% af launum í viðbótarlífeyrissparnað.
  • Ef þú treystir þér til skaltu hækka eigið framlag í það hámark sem launþegar mega greiða óskattlagt til lífeyrissparnaðar, 4% af launum í janúar 2011.
  • Veldu vörsluaðila af kostgæfni. Kynntu þér ávöxtunarleiðir og umsjónarkostnað.
  • Veldu ávöxtunarleið eftir sparnaðartíma og áhættuþoli.

Viðbótarlífeyrissparnaður er greiddur óskattlagður í séreignarsjóð en útborganir eru hins vegar skattlagðar eins og hverjar aðrar tekjur. Í raun er tekjuskattinum frestað þar til inneignin er tekin út en í sumum tilvikum lækkar tekjuskattur einnig. Það gerist ef einstaklingur á ónýttan persónuafslátt þegar inneignin er tekin út eða ef einstaklingur er í lægra skattþrepi við útborgun en þegar skattinum var frestað. Margir halda að það sé óhagstætt að greiða tekjuskatt þegar viðbótarlífeyrissparnaður er leystur út þar sem hluti af útborgun eru vextir. Þetta er misskilningur vegna þess að hluti af sparnaðinum eru ógreiddir skattar. Við útborgun fær ríkið sinn hluta til baka með vöxtum og sjóðfélaginn sömuleiðis.

Með viðbótarlífeyrissparnaði geta einstaklingar aukið við tekjur sínar í starfslok með því að greiða allt að 4% af launum inn á bundna vörslureikninga. Á móti því að peningarnir verða bundnir til 60 ára aldurs kemur umbun með mótframlagi launagreiðanda og hagstæðum skattalegum reglum.

 

Hvernig getur Almenni aðstoðað þig?

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.