Hvaða lífeyri greiða lífeyrissjóðir ef starfsorka skerðist eða ef sjóðfélagi fellur frá?
Er ráðlegt að bæta við sig tryggingum?

Allir verða fyrir áföllum um ævina. Áföllin eru misjafnlega mikil og áhrif þeirra eru ólík. Stundum hafa þau áhrif á fjármálin og því er ráðlegt að gera ráðstafanir til þess að draga úr afleiðingum þeirra.

Með aðild að lífeyrissjóðum eru sjóðfélögum og fjölskyldum þeirra tryggðar lágmarksbætur ef þeir missa starfsgetu eða ef sjóðfélagar falla frá.

  • Örorkulífeyrir er greiddur ef starfsorka sjóðfélaga skerðist um 40% eða meira og sjóðfélagi verður sannarlega fyrir tekjumissi. Örorkulífeyrir lífeyrissjóða er í flestum tilvikum nálægt 50% af meðallaunum.
  • Makalífeyrir er greiddur til eftirlifandi maka við fráfall sjóðfélaga. Makalífeyrir er yfirleitt greiddur í 2 til 3 ár og stundum lengur, t.d. á meðan yngsta barn sjóðfélaga er undir 18 ára aldri (hjá Almenna lífeyrissjóðnum er makalífeyrir greiddur þar til yngsta barn er 20 ára). Fjárhæð makalífeyris er oftast nálægt 20%-30% af meðallaunum sjóðfélaga.
  • Barnalífeyrir er greiddur með börnum við fráfall eða við starfsorkumissi. Barnalífeyrir er yfirleitt föst fjárhæð (mismunandi milli lífeyrissjóða) og er greiddur þar til barn nær 18 ára aldri (hjá sumum sjóðum er miðað við 20 ára aldur, t.d. hjá Almenna lífeyrissjóðnum).

Áfallalífeyrir lífeyrissjóða (örorku-, maka- og barnalífeyrir) dugar sjaldnast til að halda óbreyttu lífsmynstri og þess vegna er skynsamlegt að bæta við tryggingum. Hér koma nokkur ráð um viðbótartryggingar.

  • Kynntu þér reglur um áfallalífeyri í samþykktum lífeyrissjóðsins þíns og fáðu upplýsingar um áunnin réttindi til örorku-, maka- og barnalífeyris.
  • Reiknaðu með að þú eða maki geti orðið fyrir tekjumissi vegna slyss eða sjúkdóms og kauptu viðbótarörorkutryggingu. Ef það gerist þarf að tryggja að þið fáið bætur sem duga til þess að framfleyta fjölskyldunni og halda áfram að safna upp lífeyrisréttindum og sparnaði. Yfirleitt mæla tryggingaráðgjafar með því að örorkubætur séu á bilinu 60% til 70% af núverandi launum.
  • Reiknaðu með því versta. Við mælum með að sjóðfélagar líftryggi sig til að tryggja fjárhagslegt öryggi fjölskyldunnar. Ekkert kemur í staðinn fyrir látinn ástvin en það hjálpar eftirlifandi að byrja nýtt líf ef fjármálin eru í lagi. Miða ætti við að líftryggingar-bæturnar dugi til að greiða upp langtímaskuldir (að hluta eða öllu leyti) og sem svarar launum í a.m.k. eitt ár eða lengri tíma ef þú ert með mörg börn á framfæri.

Vel skipulögð fjármál ganga út á að gera fjárhagsáætlun og vinna samkvæmt henni. Það er skynsamlegt að gera árlega greiðsluáætlun um tekjur og útgjöld heimilisins til að fá yfirsýn um hverju má eyða og hve mikið er hægt að leggja fyrir. Við mælum einnig með því að allir setji sér markmið um eftirlaun og reikni út frá þeim hvað þarf að leggja fyrir til að tryggja sér ásættanleg eftirlaun. Engin áætlun er fullkomin en það eru góð vinnubrögð að gera ráð fyrir því óvænta.

 

Hvernig getur Almenni aðstoðað þig?

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.