Hvaða ávöxtunarleið á ég að velja fyrir lífeyrissparnaðinn minn?
Hvaða leið get ég valið sem skilar góðri ávöxtun án þess að taka of mikla áhættu?

Val á ávöxtunarleið er ein mikilvægasta ákvörðunin sem þarf að taka varðandi eftirlauna-sparnað. Ákvörðunin getur haft afgerandi áhrif á afkomu okkar á stórum hluta ævinnar. Þess vegna borgar sig að vanda hana vel og gefa sér tíma til að velja ávöxtunarleið og vörsluaðila. Það er ekki hægt að komast hjá því að taka einhverja áhættu með sparnaðinn sinn. Hins vegar er hægt stýra áhættunni með því að velja fjárfestingarstefnu sem tekur mið af eigin áhættuþoli á hverjum tíma. Einnig er hægt að draga úr áhættu með því að velja öruggari sparnaðarform sem að öðru jöfnu gefa þá minni ávöxtun. Áhætta getur verið tvenns konar.

  • Markaðsáhætta er hættan á sveiflum í ávöxtun vegna breytinga á verðmæti eigna. Eignir geta hækkað og lækkað í verði vegna markaðsaðstæðna, efnahagsástands og flökti á gengi gjaldmiðla. Markaðsáhætta minnkar eftir því sem sparnaðartími er lengri því þá minnka áhrif einstakra sveiflna og jafnast út með tímabilum hárrar og lágrar ávöxtunar.
  • Skuldaraáhætta er hættan á að eignir tapist vegna greiðsluerfiðleika eða gjaldþrots útgefanda. Skuldabréf með litla skuldaraáhættu er t.d. skuldabréf með ríkissábyrgð eða aðra sambærilega tryggingu. Skuldaraáhætta minnkar með fjölda útgefenda og dreifingu á margar atvinnugreinar eða lönd.

Sagan segir að verðbréf eru besti kosturinn fyrir langtímasparnað.

  • Eðli verðbréfa er að verð þeirra sveiflast eftir markaðsaðstæðum hverju sinni en til lengri tíma litið hækka verðbréf að jafnaði í verði. Verðbreytingar eru mismunandi miklar eftir tegundum verðbréfa en almennt má segja að því meiri sem sveiflurnar eru því hærri verður ávöxtunin.
  • Hlutabréf sveiflast mest í verði en hafa sögulega gefið hæstu ávöxtunina.
  • Skuldabréf sveiflast minna í verði en hafa sögulega gefið tiltölulega stöðuga og jafna ávöxtun.
  • Innlánsreikningar banka og sparisjóða sveiflast ekki í verði. Höfuðstóllinn breytist ekkert þótt breytingar verði á markaðsvöxtum. Höfuðstóll verðtryggðra innlánsreikninga getur þó bæði hækkað og lækkað eftir því hvort verðbólga eða verðhjöðnun á sér stað.

Ráðgjöf Almenna lífeyrissjóðsins er að blönduð og vel dreifð verðbréfasöfn séu góður kostur fyrir lífeyrissparnað og skili bestu ávöxtuninni til lengri tíma og áhættudreifingu. Hér koma nokkur góð ráð til að hafa í huga við val á ávöxtunarleið.

  • Veldu ávöxtunarleið eftir aldri eða áætluðum sparnaðartíma. Almennt má segja að því lengri tími sem er til stefnu þeim mun meiri markaðsáhættu sé hægt að taka og öfugt. Sá sem sparar til lengri tíma getur haft hátt vægi hlutabréfa og langra skuldabréfa.
  • Veldu ávöxtunarleið sem hentar þér. Ef þú þolir illa sveiflur veldu þá ávöxtunarleið sem sveiflast lítið, t.d. stutt skuldabréf og innlán. En þá þarf að hafa í huga að gera ekki of miklar væntingar um ávöxtun.
  • Gættu að áhættudreifingu til að draga úr skuldaraáhættu. Best er að fjárfesta í blönduðum verðbréfasöfnum (með hlutabréfum, skuldabréfum og innlánum) og dreifa áhættunni innan hvers verðbréfaflokks með því að fjárfesta í mörgum löndum, atvinnugreinum og hjá mörgum útgefendum.
  • Veldu ávöxtunarleiðir með lágan kostnað. Kostnaður dregst frá ávöxtun og hefur því áhrif á uppsöfnun sparnaðar til langs tíma.

Þegar peningar eru ávaxtaðir til eftirlaunaáranna eru margir möguleikar í boði. Það borgar sig að vanda sig við val á ávöxtunarleiðum og fylgjast síðan með og yfirfara eignirnar með reglulegu millibili.

 

Hvernig getur Almenni aðstoðað þig?

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.