Áfallalífeyrir

Markmið Almenna er að veita sjóðfélögum tryggingavernd vegna tekjumissis í kjölfar örorku og stuðla að fjárhagslegu öryggi aðstandenda við andlát.

  • Örorkulífeyrir er greiddur til 70 ára aldurs ef sjóðfélagar missa starfsorku og verða fyrir sannanlegu tekjutapi.
  • Makalífeyrir er greiddur til eftirlifandi maka að lágmarki 2,5 ár og lengur við viss skilyrði.
  • Barnalífeyrir er greiddur vegna barna yngri en 20 ára við fráfall eða við starfsorkumissi sjóðfélaga.
  • Inneign í séreignarsjóði er laus til útborgunar á sjö árum ef sjóðfélagi verður 100% óvinnufær vegna örorku.

Örorkulífeyrir

Örorkulífeyrir er greiddur úr samtryggingarsjóði ef orkutap er metið 50% eða meira og sjóðfélagi hefur orðið vanhæfur til að gegna starfi sínu.

  • Örorkulífeyrir er eingöngu greiddur ef sjóðfélagi hefur orðið fyrir sannanlegri tekjuskerðingu af völdum orkutapsins.
  • Örorkulífeyrir greiðist til 70 ára aldurs og þá hefjast greiðslur ellilífeyris.
  • Fjárhæð örorkulífeyris miðast við áunnin lífeyrisréttindi og framreiknuð réttindi ef sjóðfélagi uppfyllir ákveðin skilyrði (réttindi sem myndu ávinnast með greiðslum til 65 ára aldurs).
  • Örorkulífeyrir greiðist ekki fyrstu þrjá mánuði eftir orkutap og greiðist ekki ef orkutapið hefur varað skemur en sex mánuði.
  • Örorkulífeyrir er framreiknaður ef sjóðfélagi uppfyllir eftirfarandi skilyrði.
    • Sjóðfélagi hefur greitt til samtryggingarsjóðs Almenna lífeyrissjóðsins í a.m.k. þrjú ár á undanfarandi fjórum árum og greitt eigi minna en fjárhæð sem er verðtryggð og miðar við vísitölu neysluverðs í janúar ár hvert. Sjá samþykktir.
    • Sjóðfélagi hefur greitt til samtryggingarsjóðs Almenna lífeyrissjóðsins í a.m.k. sex mánuði á síðasta tólf mánaða tímabili.
    • Sjóðfélagi hefur ekki orðið fyrir orkutapi sem rekja má til ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna.

Makalífeyrir

Makalífeyrir er greiddur úr samtryggingarsjóði við fráfall sjóðfélaga.

  • Makalífeyrir er helmingur af fjárhæð örorkulífeyris.
  • Makalífeyrir er greiddur lengur ef yngsta barn sjóðfélaga er yngra en 20 ára eða ef maki er 50% öryrki og yngri en 67 ára.
  • Makalífeyrir er greiddur eftirlifandi maka sjóðfélaga í a.m.k. 30 mánuði.
  • Ef sjóðfélagi var hættur að greiða iðgjöld í lífeyrissjóð miðast fjárhæðin eingöngu við áunnin réttindi.
  • Hafi sjóðfélagi átt rétt á framreikningi við andlát bætist framreikningur við áunnin réttindi, sjá skilyrði fyrir  framreikning í umfjöllun um örorkulífeyri.
  • Makalífeyrir er einnig greiddur ef sjóðfélaginn naut elli- eða örorkulífeyris við andlátið.

Skilgreining á maka

Samkvæmt lögum um lífeyrissjóði er maki skil­greindur sem aðili sem var í hjúskap eða óvígðri sambúð með sjóðfélaga, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlát sjóðfélaga. Með óvígðri sambúð er átt við sambúð tveggja einstaklinga sem eiga sameiginlegt lögheimili, eru í samvistum, eiga barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. tvö ár. Við fráfall fær maki sem uppfyllir þessi skilyrði greiddan makalífeyri úr samtryggingarsjóði.

Barnalífeyrir

Barnalífeyrir er greiddur úr samtryggingarsjóði með börnum sem óvinnufær eða látinn sjóðfélagi hefur haft á framfæri.

  • Barnalífeyrir er greiddur til 20 ára aldurs barns sjóðfélaga.
  • Sjóðfélagi þarf að hafa greitt iðgjald í að minnsta kosti 24 mánuði síðustu 36 mánuðina fyrir andlát, notið elli- eða örorkulífeyris við andlátið eða öðlast rétt til framreiknings.
  • Litið er á stjúpbörn og fósturbörn sem börn sjóðfélagans hafi hann haft þau á framfæri.
  • Barnalífeyrir er föst fjárhæð á mánuði sem er verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs.
  • Fjárhæð með hverju barni var kr. 37.801 í janúar 2021.
  • Eigi barn látins sjóðfélaga hvorki foreldri né kjörforeldri á lífi er greiddur tvöfaldur barnalífeyrir.
  • Veiti fráfall eða örorka sjóðfélagans börnunum jafnframt rétt til lífeyris úr öðrum lífeyrissjóði er barnalífeyrir úr Almenna lífeyrissjóðnum þá bundinn því skilyrði að sjóðfélaginn hafi síðast greitt iðgjöld til hans.

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.