Hvað er svona merkilegt við yfirlitið frá lífeyrissjóðnum mínum?
Hvaða mikilvægu upplýsingar eru á yfirlitinu?

 

Kaffi-og-kleinur-fyrir-sendiboðann

Yfirlitum frá lífeyrissjóðum má líkja við sendiboða sem flytja upplýsingar um lífeyrisréttindi til sjóðfélaga. Í gegnum söguna er þekkt að sendiboðar hafa fengið misjafnar móttökur og dæmi eru um að sendiboðar, sem fluttu slæmar fréttir í stríðum þjóða, voru skotnir. Á Íslandi til sveita var það hins vegar siður að taka á vel á móti öllum sendiboðum óháð því hvaða fréttir þeir fluttu og bjóða þeim veitingar, oft kaffi og kleinur. Yfirlit frá lífeyrissjóðum berast oftast á tímabilinu frá janúar til mars og svo aftur eftir mitt ár eða frá ágúst til september. Yfirlitin innihalda gagnlegar upplýsingar sem einstaklingar ættu að gefa sér tíma til að skoða. Seinna meir, og jafnvel fljótlega, geta lífeyrisréttindi skipt sköpum um afkomu og lífsgæði. Hvernig væri að fá sér kaffi og kleinur með sendiboðanum?

Lífeyrisréttindi eru verðmæt og einstaklingum ber að hugsa um þau í því samhengi.

  • Ellilífeyrissgreiðslur frá lífeyrissjóðum eru yfirleitt uppistaðan í eftirlaunum einstaklinga.
  • Hjá þeim sem missa starfsorku og verða óvinnufærir er örorkulífeyrir lífeyrissjóða oft einu tekjurnar sem einstaklingar fá umfram örorkubætur almannatrygginga.
  • Við fráfall sjóðfélaga erfist inneign í séreignarsjóði og lífeyrissjóðir greiða maka- og barnalífeyri sem hjálpa eftirlifendum að venjast nýjum aðstæðum.

Fyrir einstaklinga er nauðsynlegt að þekkja lífeyrisréttindi sín til þess að þeir geti metið hvort þeir þurfi að spara meira til að tryggja góð eftirlaun eða að bæta við persónutryggingum til að verja sig og sína fyrir tekjumissi vegna örorku eða andláts. Upplýsingar um réttindin koma fram á yfirlitum.

Flestir lífeyrissjóðir bjóða sjóðfélögum aðgang að læstum sjóðfélagavef með upplýsingum um lífeyrisréttindi. Á þeim eru yfirleitt sambærilegar upplýsingar og á yfirlitum en einnig aðgangur að reiknivél til að framreikna réttindi miðað við mismunandi forsendur. Hjá Almenna lífeyrissjóðnum er fyrirkomulagið þannig að yfirlit til sjóðfélaga eru með lágmarksupplýsingum en á þeim er aðgangsorð að sjóðfélagavef. Á honum geta sjóðfélagar sótt ítarlegri yfirlit, valið greiðslutímabil og viðmiðunardagsetningu, séð upplýsingar um áfallalífeyri og reiknað dæmi um inneign og lífeyrisgreiðslur í starfslok. Hér er mælt með því að sjóðfélagar tileinki sér að fara a.m.k. inn á sjóðfélagavefinn þegar yfirlit berast.

 Taktu vel á móti sendiboðanum. Gefðu þér góðan tíma, t.d. yfir kaffibolla með kleinu, og farðu vel yfir yfirlitið þitt og/eða þínar upplýsingar á sjóðfélagavef.

  • Berðu saman launaseðla og upplýsingar um iðgjaldagreiðslur á yfirlitum og kannaðu hvort launagreiðandi hefur greitt lögbundin iðgjöld til lífeyrissjóðsins. Vanti iðgjöld skaltu hafa samband við lífeyrissjóðinn þinn eða launagreiðanda.
  • Skoðaðu upplýsingar um inneign í séreignarsjóði. Hvernig hefur inneignin þróast og hver var ávöxtunin á tímabilinu? Skoðaðu eignasamsetningu þeirrar ávöxtunarleiðar sem þú hefur valið og athugaðu hvort ávöxtunin er í takt við þróun sambærilegra eigna og vísitalna. Leitaðu skýringa ef svo er ekki. Ef þú ert ekki viss um hvort þú ert í réttri ávöxtunarleið er ráðlegt að hafa samband við lífeyrissjóðinn og fá meiri upplýsingar og ráðgjöf.
  • Kannaðu hvaða lífeyri þú átt von á þegar þú hættir að vinna. Á yfirlitum eða sjóðfélagavef eru upplýsingar um áunnin réttindi og hver réttindin verða ef sjóðfélagi heldur áfram að greiða af sambærilegum launum til starfsloka. Skoðaðu þessar upplýsingar og spyrðu þig hvort þú teljir að áætluð eftirlaun dugi. Ef ekki þarftu að fara yfir þín mál og gera ráðstafanir til að spara meira til að tryggja ásættanleg eftirlaun.
  • Athugaðu hvaða áfallalífeyrir verður greiddur ef þú missir starfsgetu eða ef þú fellur frá. Ef þessar upplýsingar koma ekki fram á yfirlitum eða sjóðfélagavef skaltu hafa samband við lífeyrissjóðinn þinn og biðja um þessar upplýsingar.
  • Taktu tillit til allra lífeyrissjóða sem þú hefur greitt í. Margir lífeyrissjóðir senda eingöngu yfirlit til virkra sjóðfélaga og þess vegna getur verið að þú fáir ekki sendar upplýsingar um öll áunnin réttindi. Upplýsingar um lífeyrissjóði sem greitt hefur verið til koma fram á flest öllum sjóðfélagavefum.
  • Geymdu yfirlitið/in eða lykilorðið þitt að sjóðfélagavefnum. Það er mikilvægt til þess að hægt sé að nálgast upplýsingarnar ef á þarf að halda og eins til að sjá hvernig réttindi þróast frá einum tímapunkti til annars.

Skoðun yfirlita og stöðumat lífeyrisréttinda má að vissu leyti líkja við birgðatalningu verslunareiganda. Um hver áramót eða í tengslum við ársuppgjör lokar eigandi versluninni til að telja eignir og meta stöðuna. Einstaklingur sem fær yfirlit frá lífeyrissjóði/um ætti á sama hátt að gefa sér tíma til að meta stöðu sína í byrjun árs eða í tengslum við gerð árlegrar skattaskýrslu. Sá sem tileinkar sér þetta þarf þá ekki að eyða jafnmiklum tíma í að skoða yfirlit sem berst um mitt ár að öðru leyti en því að það er alltaf mikilvægt að fara yfir hvort iðgjöld hafi borist.

Með yfirlitum fylgja oftast upplýsingar um rekstur og afkomu lífeyrissjóða og nánari upplýsingar eru á heimasíðum sjóðanna. Sjóðfélögum er ráðlagt að fylgjast einnig með þessum upplýsingum og mæta á ársfundi og aðra sjóðfélagafundi til að fá nánari upplýsingar og veita stjórnendum sjóðanna nauðsynlegt aðhald. Hver veit nema þú fáir kaffi og kleinur, ef forráðamenn sjóðanna viðhalda góðum siðum og taka vel á móti gestum og gangandi.

Hvernig getur Almenni aðstoðað þig?

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.