20 ár í beinni
01. febrúar 2018
Daglegt gengi ávöxtunarleiða birt frá 1998
Um þessar mundir eru liðin tuttugu ár frá því að Almenni lífeyrissjóðurinn hóf að reikna daglegt gengi ávöxtunarleiða og birta á heimasíðu sjóðsins. Daglegt gengi er reiknað til að skipta eignum séreignarsjóðs sanngjarnt á milli sjóðfélaga en með innborgunum í sjóðinn eignast sjóðfélagar einingar og er daglegt gengi mælikvarði á verðmæti einnar einingar reiknað á markaðsverði dagsins. Skráning á daglegu gengi myndar gengissögu yfir lengri tímabil sem er notuð til að reikna ávöxtun frá einum tíma til annars auk þess að gefa vísbendingu um sveiflur í ávöxtun (gengissveiflur) ávöxtunarleiðar.
Til þessa dags er Almenni eini lífeyrissjóðurinn á Íslandi og þó víðar væri leitað, sem birtir daglega gengi ávöxtunarleiða. Þetta er eitt dæmi um þann metnað sem er hjá sjóðnum sem snýr að gegnsæi og upplýsingagjöf til sjóðfélaga. Tímamótin eru ekki síst gleðileg í ljósi þess að í desember síðastliðnum opnaði sjóðurinn nýja heimasíðu þar sem upplýsingagjöf var bætt enn frekar. Á næstu vikum munu birtast fréttir hér á vefnum þar sem vakin er athygli á þessum nýjungum.
Á myndinni má sjá kynningarefni frá því að þessi 20 ára gamla nýjung var kynnt. ALVÍB var einn af fyrirrennurum Almenna lífeyrissjóðsins. Hægt er að fara yfir sögu Almenna á sérstakri síðu.