Almenni fær alþjóðlega viðurkenningu

16. desember 2015

Almenni lífeyrissjóðurinn er besti lífeyrisjóðurinn í Evrópu árið 2015 í löndum með færri íbúa en eina milljón að mati fagtímaritsins Investment Pension Europe. Sjóðurinn var auk þess einn fjögurra sjóða sem tilnefndur var fyrir bestu samsetningu lífeyrisréttinda í Evrópu og einn af sex sjóðum í Evrópu sem best þjónustar marga launagreiðendur og starfsgreinar, að mati tímaritsins.

Í umsögn dómnefndar segir m.a. að sjóðurinn skari langt fram úr flestum öðrum í ráðgjöf og upplýsingamiðlun auk þess sem notkun upplýsingatækni í þágu sjóðfélaga sé til fyrirmyndar. Í því sambandi var nýi sjóðfélagavefur Almenna sérstaklega nefndur til sögunnar. Fyrirkomulag sjóðsins, þ.e. að þriðjungur af skylduiðgjaldi sé lagt í erfanlegan séreignarsjóð, vakti einnig athygli dómnefndar auk þess sem Ævileið Almenna lífeyrissjóðsins þótti heppileg og kostnaðarhlutfall lágt.

Þetta var fimmtánda árið sem IPE-verðlaunin eru veitt af fagtímaritinu Investment Pension Europe en verðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 2001. Umfang verðlaunanna hefur vaxið ár frá ári sem og fjöldi þátttakenda en þeir voru á fimmta hundrað í ár frá 25 löndum. Veitt voru verðlaun í 16 flokkum eftir landsvæðum og í 13 þemabundnum flokkum auk heildarverðlauna, en til marks um umfang verðlaunanna sinntu 84 einstaklingar  dómnefndarstörfum vegna þeirra.

Þetta er ekki fyrsta viðurkenningin sem Almenni lífeyrissjóðurinn hlýtur í ár en fyrr á árinu var sjóðurinn valinn besti lífeyrissjóður á Íslandi, annað árið í röð, af fjármálatímaritinu World Finance auk þess sem fagtímaritið European Pensions hefur tilnefnt sjóðinn þrjú ár í röð fyrir að vera meðal fremstu lífeyrissjóða í Evrópu í  miðlun upplýsinga til sjóðfélaga.

 

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.