Almenni tilnefndur til verðlauna

21. júní 2013

Almenni lífeyrissjóðurinn hefur verið tilnefndur til European Pensions lífeyrisverðlaunanna árið 2013 fyrir upplýsingamiðlun til sjóðfélaga.
European Pensions er tímarit um lífeyrismál í Evrópu sem kemur út sex sinnum á ári en stendur jafnframt árlega fyrir European Pensions Awards þar sem þeim sem taldir eru skara fram úr á sviði lífeyrisþjónustu eru veitt verðlaun.

Alls eru veitt verðlaun í 25 flokkum fjárfestinga, lífeyrissöfnunar, ávöxtunar og ráðgjafar. Almenni er tilnefndur ásamt 8 öðrum fyrir bestu upplýsingagjöfina en sjóðurinn hefur frá upphafi lagt áherslu á þann hluta þjónustunnar. Það er mikill heiður að upplýsingamiðlun Almenna lífeyrissjóðsins standist samanburð við það besta sem gerist í Evrópu en á meðal tilnefndra í þessum flokki eru fjölþjóðleg og margverðlaunuð fyrirtæki svo sem Aon Hewitt, Close Brothers og AHC svo einhverjir séu nefndir

Almenni lífeyrissjóðurinn hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á upplýsingamiðlun til sjóðfélaga.

  • Árið 1998 hóf sjóðurinn að birta daglega gengi ávöxtunarleiða og opnaði sjóðfélagavef þar sem sjóðfélagar geta fylgst daglega með stöðu eigin lífeyrissöfnunar og ávöxtunar.
  • Á sjóðfélagavefnum geta sjóðfélagar:
    • Gert áætlun og fylgst með hvernig gengur að byggja upp eftirlaunasjóð til að greiða eftirlaun.
    • Breytt um eignasamsetningu og ávöxtunarleið hvenær sem þeir vilja.
    • Séð upplýsingar um áfallalífeyri sem sjóðurinn greiðir þeim ef sjóðfélagar verða óvinnufærir vegna veikinda eða slysa.
  • Á heimasíðu sjóðsins eru upplýsingablöð fyrir hverja ávöxtunarleið uppfærð mánaðarlega en þar er að finna nákvæmar upplýsingar um stöðu, gengi og horfur hjá hverri ávöxtunarleið.
  • Á www.almenni.is er einnig fræðsluvefur þar sem er að finna fjölda fræðslugreina um hina margvíslegu fleti lífeyrismála.
  • Flaggskipið í þjónustu Almenna lífeyrissjóðsins eru svokallaðir stöðufundir en það eru einstaklingsfundir sjóðfélaga með ráðgjafa þar sem farið er yfir lífeyrisréttindi , stöðu og horfur í lífeyrismálum viðkomandi. Fundirnir eru að kostnaðarlausu og án skuldbindinga og hafa hlotið mikið lof hjá þeim sem reynt hafa.

Það kemur svo í ljós þann 26. júní nk. hver hlýtur verðlaunin en verðlaunaathöfnin verður haldin í London þar sem útgáfufyrirtæki European Pensions er með höfuðstöðvar.

Sjá nánar á heimasíðu verðlaunanna:

http://www.europeanpensions.net/awards/index.php

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.