Ársreikningur 2013

28. febrúar 2014

Ársreikningur Almenna lífeyrissjóðsins fyrir árið 2013 hefur verið birtur. Reikningurinn verður lagður fyrir ársfund sjóðsins sem verður haldinn 18. mars 2013 á Icelandair Hótel Reykjavík Natura kl. 17:15.

Ársreikninginn í heild má sjá með því að smella hér.

Helstu atriði í reikningnum eru eftirfarandi:

  • Heildareignir 142,5 milljarðar
  • Greidd iðgjöld 7,9 milljarðar
  • Greiddur lífeyrir 3,6 milljarðar
  • Aukagreiðslur úr séreignarsjóði 2009-2013 samtals 9,8 milljarðar til 8.839 sjóðfélaga
  • Raunávöxtun samtryggingarsjóðs 3,8%, síðustu 3 ár 5,9% á ári að jafnaði
  • Raunvöxtun séreignarsjóðs á bilinu -1,5% til 4,4%
  • Tryggingafræðileg staða innan skilgreindra jafnvægismarka
  • Breyttar lánareglur, verðtryggð og óverðtryggð lán í boði fyrir sjóðfélaga

Nánar:

  • Í árslok 2013 námu heildareignir Almenna lífeyrissjóðsins 142,5 milljörðum króna og stækkaði sjóður­inn um 13,5 milljarða eða um 10,5% á árinu. Sjóðfélagar í árslok voru 37.498 og fjölgaði þeim um 2.640 félaga. Eignir séreignar­sjóðs voru 76,1 milljarðar og samtryggingarsjóðs 66,3 milljarðar.
  • Greidd iðgjöld til sjóðsins árið 2013 voru samtals 7,9 milljarðar sem er svipuð fjárhæð og árið áður. Iðgjöldin skiptust þannig að lágmarksiðgjöld voru 5,6 milljarður og viðbótariðgjöld 2,3 milljarðar.
  • Ávöxtunarleiðir Almenna lífeyrissjóðsins hækkuðu um 2,1% til 8,2% að nafnvirði á árinu 2013. Raunávöxtun var jákvæð í öllum söfnum fyrir utan Ríkissafn langt sem lækkaði um 1,5% að raunvirði vegna hækkunar á ávöxtunar­kröfu langra ríkisskuldabréfa. Hæst var raunávöxtunin á Ævisafni I eða 4,4%. Árið 2013 er þriðja árið í röð sem blandaðar ávöxtunarleiðir skila góðri ávöxtun og hefur Ævisafn I skilað 7,2% raunávöxtun á ári sl. þrjú ár og samtryggingarsjóður 5,9%.
    • Árið 2013 greiddi Almenni lífeyrissjóðurinn samtals 3,6 milljarða í lífeyri og skiptust greiðslurnar þannig að 2,4 milljarðar voru greiddir úr séreignarsjóði en 1,1 milljarður úr samtryggingarsjóði.
    • Lífeyrisgreiðslur samtryggingarsjóðs voru alls 1.128 milljónir sem er 17% hækkun frá árinu áður. Heildar­fjöldi líf­eyrisþega var 918. Lífeyrisgreiðslur séreignarsjóðs námu alls 2,4 milljörðum sem er 20% lækkun frá árinu áður.
  • Samtals fengu 2.473 lífeyrisgreiðslur úr séreignarsjóði árið 2013, þ.a. fengu 1.650 aukagreiðslur samkvæmt tímabundinni opnun séreignarsparnaðar. Framlenging á opnun séreignarsparnaðar var samþykkt á Alþingi á árinu 2013 en öllum sjóðfélögum er heimilt að taka út allt að 9 milljónir af séreignarsparnaði sínum. Í lok ársins 2013 hafði Almenni lífeyrissjóðurinn greitt 9,7 milljarða til 8.791 sjóð­félaga vegna tímabundinnar opnunar séreignarsparnaðar.
  • Tryggingafræðileg staða samtryggingarsjóðs batnaði á árinu og eru bæði áunnin staða og heildarstaða innan skilgreindra jafnvægismarka. Í lok ársins voru áfallnar skuld­bindingar 4,9% umfram eignir og heildarskuld­bind­ingar 2,4% umfram heildareignir (nú­verandi eignir að við­bættu núvirði fram­tíðariðgjalda).
  • Árið 2013 jukust lánveitningar til sjóðfélaga. Á árinu voru veitt 82 lán fyrir samtals 927 milljónir en árið 2012 voru afgreidd 48 lán fyrir 596 milljónir. Stjórn Almenna lífeyrissjóðsins gerði á árinu 2013 talsverðar breytingar á útlánafyrir­komulagi sjóðsins með það að markmiði að fjölga lánamöguleikum fyrir sjóðfélaga og bjóða samkeppnishæf kjör. M.a. hóf sjóðurinn að bjóða sjóðfélögum óverðtryggð lán frá og með 15. september 2013 auk þess sem kjör á verðtryggðum lánum með breytilega vexti voru endurskoðuð. Hámarkslán var hækkað úr 35 í 50 milljónir en skilyrði fyrir þeirri fjárhæð er að lánið sé á fyrsta veð­rétti og veðhlutfall ekki hærra en 75% af markaðsverði. Ef ekki er um fyrsta veðrétti að ræða er hámarkslán 35 millj­ónir og hámarksveðhlutfall 65%.

Almenni lífeyris­sjóðurinn býður sjóðfélögum sem vilja ítarlegar upplýsingar og ráðgjöf að koma á sérstaka stöðufundi. Á fundunum er farið yfir áunnin lífeyrisréttindi og bent á leiðir til að bæta við eftirlaunin og verjast fjárhagslegum áföllum vegna örorku eða fráfalls. Sjóðfélagar geta bókað stöðufundi á heimasíðu sjóðsins.

Ársfundur 2014

Nánari upplýsingar um rekstur og afkomu Almenna lífeyrissjóðsins verða veittar á ársfundi hans þriðjudaginn 18. mars kl. 17:15 á Icelandair Hótel Reykjavík Natura. Fundurinn verður nánar auglýstur síðar.

Á ársfundinum skal kjósa tvo aðalmenn og einn varamann í stjórn til þriggja ára. Vakin er athygli á því að framboðum til stjórnar (aðalmenn) skal skila viku fyrir ársfund sjóðsins. Framboðsfrestur til stjórnar rennur út þann 11. mars 2014 kl. 24:00. Hægt er að senda inn framboð á netfangið almenni@almenni.is.

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.