Ársreikningur 2015 birtur
18. mars 2016
Ársreikningur Almenna lífeyrissjóðsins fyrir árið 2015 hefur verið birtur. Reikningurinn verður lagður fyrir ársfund sjóðsins sem verður haldinn í Þingsal 2 á Icelandair Hótel Reykjavík Natura 7. apríl 2016 kl. 17:15.
Ársskýrsluna í heild má sjá með því að smella hér.
Helstu atriði í reikningnum eru eftirfarandi:
- Heildareignir 174,2 milljarðar
- Greidd iðgjöld 10,0 milljarðar
- Greiddur lífeyrir 4,2 milljarðar
- Raunávöxtun samtryggingarsjóðs 6,5%. Síðustu 5 ár var raunávöxtunin 6,1% að jafnaði
- Raunávöxtun séreignarsjóðs var á bilinu 2,0% til 6,5%
- Tryggingafræðileg staða batnaði á árinu og er nú í jafnvægi
- Ný lán til sjóðfélaga jukust þriðja árið í röð, nú um 146%
Nánar:
- Almenni lífeyrissjóðurinn stækkaði um 17,7 milljarða eða 11,3% árinu og námu heildareignir hans 174,2 milljörðum króna í árslok 2015. Sjóðfélagar í árslok voru 41.229 og fjölgaði um 1.276 á árinu. Eignir séreignarsjóðs voru 91,3 milljarðar en samtryggingarsjóðs 82,9 milljarðar.
- Greidd iðgjöld hækkuðu um 1.596 milljónir á milli ára og námu 10,0 milljörðum á árinu.
- Ávöxtunarleiðir Almenna lífeyrissjóðsins hækkuðu um 4,0% til 8,6% á árinu 2015. Hæst var raunávöxtunin á Samtryggingarsjóði eða 6,5%. Raunávöxtun hefur verið góð undanfarin ár og síðastliðin fimm ár hefur Ævisafn I skilað að jafnaði 7,0% raunávöxtun á ári og samtryggingarsjóður 6,1%.
- Árið 2015 greiddi Almenni lífeyrissjóðurinn samtals 4,2 milljarða í lífeyri. Lífeyrisgreiðslur samtryggingarsjóðs voru alls 1,4 milljarðar sem er um 14% hækkun frá árinu áður. Heildarfjöldi lífeyrisþega var 1.328. Greiðslur úr séreignarsjóði námu alls 2,8 milljarðar sem er 20% lækkun frá árinu áður.
- Tryggingafræðileg staða samtryggingarsjóðs batnaði á árinu og eru bæði áunnin staða og heildarstaða sjóðsins í jafnvægi. Í lok ársins voru eignir 1,1% umfram áfallnar skuldbindingar og heildareignir 0,3% umfram heildarskuldbindingar (núverandi eignir að viðbættu núvirði framtíðariðgjalda).
- Sjóðurinn lánaði sjóðfélögum 2.554 milljónir með veði í fasteignum og jukust lánveitingar um 146% frá árinu 2014 en lánveitingar jukust þriðja árið í röð.
- Á árinu opnaði Almenni lífeyrissjóðurinn nýjan sjóðfélagavef þar sem stigið er stórt skref fram á við í lífeyrisþjónustu á netinu. Útlit nýja vefsins tekur mið af notkun snjalltækja, framsetning upplýsinga er myndrænni en áður auk þess sem hægt er að framkvæma fjölda aðgerða með notkun rafrænna skilríkja.
Ársfundur 2016
Nánari upplýsingar um rekstur og afkomu Almenna lífeyrissjóðsins verða veittar á ársfundi hans fimmtudaginn 7. apríl kl. 17:15 á Icelandair Hótel Reykjavík Natura (Þingsal 2). Fundurinn verður nánar auglýstur síðar.
Á ársfundinum skal kjósa tvo aðalmenn og einn varamann í stjórn til þriggja ára. Vakin er athygli á því að framboðum til stjórnar (aðalmenn) skal skila viku fyrir ársfund sjóðsins. Framboðsfrestur til stjórnar rennur út fimmtudaginn 31. mars 2015 kl. 24:00. Vakin er athygli á því að samkvæmt samþykktum skal stjórn sjóðsins skipuð þremur konum og þremur körlum. Í stjórn eru þegar þrjár konur þannig að eingöngu karlar geta gefið kost á sér að þessu sinni.
Hægt er að senda inn framboð á netfangið almenni@almenni.is.