Ársreikningur 2020 birtur

10. mars 2021

Ársreikningur 2020 birtur

Ársreikningur Almenna lífeyrissjóðsins fyrir árið 2020 hefur verið birtur. Reikningurinn verður lagður fyrir ársfund sjóðsins sem verður haldinn á Icelandair Hótel Reykjavík Natura 25. mars 2021 kl. 17:15.

Ársskýrsluna í heild má sjá með því að smella hér.

Helstu atriði í reikningnum eru eftirfarandi:

  • Heildareignir 310 milljarðar
  • Greidd iðgjöld 16,9 milljarðar sem er 7,5% hækkun á milli ára
  • Greiddur lífeyrir samtryggingarsjóðs var 2,8 milljarðar
  • Lífeyrisgreiðslur séreignarsjóðs námu 5,3 milljörðum
  • Raunávöxtun samtryggingarsjóðs 8,2%.
  • Raunávöxtun séreignarsjóðs var á bilinu 0,5% til 12,1%
  • Tryggingafræðileg staða batnaði á árinu og er nú í jafnvægi
  • Uppgreidd lán voru 1,1 milljarði hærri en ný lán

Nánar:

  • Almenni lífeyrissjóðurinn stækkaði um 40 milljarða eða 15% á árinu og námu heildareignir hans 310 milljörðum króna í árslok 2020. Sjóðfélagar í árslok voru 52.612 og fjölgaði um á 8,5% á milli ára. Hrein eign til greiðslu lífeyris í séreignarsjóði var 162 milljarðar króna og í samtryggingarsjóði 147 milljarðar króna.
  • Ávöxtunarleiðir Almenna lífeyrissjóðsins hækkuðu um 4,0% til 16% á árinu 2020. Hæst var raunávöxtunin í Ævisafni I eða 12,1%.
  • Árið 2020 greiddi Almenni lífeyrissjóðurinn samtals 8,1 milljarð í lífeyri. Lífeyrisgreiðslur samtryggingarsjóðs voru alls 2,8 milljarðar sem er um 15% hækkun frá árinu áður. Heildar­fjöldi líf­eyrisþega var 2.271. Greiðslur úr séreignarsjóði námu alls 5,3 milljörðum sem er 64% hækkun frá fyrra ári.
  • Tryggingafræðileg staða batnaði um 4,1 prósentustig á árinu 2020 vegna góðrar ávöxtunar. Tryggingafræðileg úttekt samtryggingarsjóðs miðað við 31. desember 2020 sýnir að áfallnar skuldbindingar eru 0,2% hærri en núvirtar eignir og heildar skuldbindingar (áfallnar skuldbindingar að viðbættum skuldbindingum vegna framtíðariðgjalda virkra sjóðfélaga) eru 0,6% umfram heildareignir sem samanstanda af núvirtum eignum og framtíðariðgjöldum.
  • Sjóðurinn lánaði sjóðfélögum 14,3 milljarða með veði í fasteignum en árið 2019 voru veitt ný lán fyrir 14,7 milljarða. Á árinu voru greidd upp eldri lán fyrir 15,4 milljarða þannig að nettó voru uppgreidd lán 1,1 milljarður.

Ársfundur 2021
Nánari upplýsingar um rekstur og afkomu Almenna lífeyrissjóðsins verða veittar á ársfundi hans fimmtudaginn 25. mars kl. 17:15 á Icelandair Hótel Reykjavík Natura. Fundurinn verður nánar auglýstur síðar.

Á ársfundinum skal kjósa tvo aðalmenn og einn varamann í stjórn til þriggja ára. Vakin er athygli á því að framboðum til stjórnar (aðalmenn) skal skila viku fyrir ársfund sjóðsins. Framboðsfrestur til stjórnar rennur út fimmtudaginn 18. mars 2021 kl. 24:00. Vakin er athygli á því að samkvæmt samþykktum skal stjórn sjóðsins skipuð þremur konum og þremur körlum. Að þessu sinni skal kjósa tvær konur í stjórn sjóðsins.

Hægt er að senda inn framboð á netfangið almenni@almenni.is.

Vegna sóttvarna er farið fram á að þeir sjóðfélagar sem ætla að mæta á staðinn eða þeir sem mæta í umboði sjóðfélaga skrái sig fyrir kl. 13:00 þann 24. mars 2021. Smelltu hér til að skrá mætingu.

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.