Ársreikningur 2023
20. mars 2024
Ársreikningur Almenna lífeyrissjóðsins fyrir árið 2023 hefur verið birtur. Reikningurinn verður lagður fyrir ársfund sjóðsins sem verður haldinn á Hilton Nordica Reykjavík þann 4. apríl 2024 kl. 17:15. Streymt verður frá fundinum.
Ársreikninginn í heild má sjá með því að smella hér.
Helstu atriði í reikningnum eru eftirfarandi:
- Heildareignir 415 milljarðar.
- Greidd iðgjöld 23,2 milljarðar sem er 14,8% hækkun á milli ára.
- Greiddur lífeyrir samtryggingarsjóðs var 4,6 milljarðar.
- Lífeyrisgreiðslur séreignarsjóðs námu 7 milljörðum.
- Raunávöxtun samtryggingarsjóðs 2,2%.
- Raunávöxtun séreignarsjóðs var á bilinu –0,5% til 3,2%.
- Á árinu voru veitt ný lán til sjóðfélaga fyrir 9,7 milljarða. Uppgreidd lán á sama tíma námu 2,2 milljörðum.
- Tryggingafræðileg staða sýnir að heildarskuldbindingar eru 4,5% umfram eignir. Staðan er innan marka í lögum.
Nánar:
Í árslok 2023 nam hrein eign til greiðslu lífeyris 415 milljörðum króna og stækkaði sjóðurinn um 50 milljarða eða um 13,6% á árinu. Sjóðfélagar í árslok voru 60.141 og fjölgaði þeim um 5,7% milli ára. Hrein eign til greiðslu lífeyris í séreignarsjóði var 220 milljarðar og í samtryggingarsjóði 195 milljarðar.
Þrátt fyrir miklar sveiflur á verðbréfamörkuðum innanlands og erlendis skiluðu blönduð verðbréfasöfn Almenna lífeyrissjóðsins jákvæðri raunávöxtun á árinu 2023. Allar sjö ávöxtunarleiðir sjóðsins voru með jákvæða nafnávöxtun á bilinu 7,4% til 11,4%. Fimm ávöxtunarleiðir skiluðu jákvæðri raunávöxtun sem verður að teljast varnarsigur í hárri verðbólgu sem var 8% á árinu 2023. Ævisafn I hækkaði mest eða um 11,4% sem jafngildir 3,2% raunávöxtun.
Lífeyrisgreiðslur samtryggingarsjóðs voru alls 4,6 milljarðar árið 2023 sem er 26% hækkun frá árinu áður. Heildarfjöldi lífeyrisþega var 3.132. Lífeyrisgreiðslur séreignarsjóðs námu alls 7 milljörðum sem er 21% hækkun frá árinu áður. Á árinu voru greiddar 10,8 milljónir í aukagreiðslu vegna tímabundinnar opnunar séreignarsparnaðar vegna heimsfaraldurs til 7 sjóðfélaga, 1,3 milljarður inn á húsnæðislán til 3.106 sjóðfélaga og 61,2 milljónir vegna kaupa á fyrstu íbúð fyrir 69 sjóðfélaga samkvæmt úrræði ríkisstjórnarinnar sem heimilar sjóðfélögum að greiða tímabundið inn á höfuðstól húsnæðislána og verja uppsöfnuðu iðgjaldi til kaupa á fyrstu íbúð á tíu ára tímabili.
Sjóðurinn lánaði sjóðfélögum 9,7 milljarða með veði í fasteignum árið 2023, en árið á undan voru veitt ný lán fyrir 14,3 milljarða. Á árinu voru greidd upp eldri lán fyrir 2,2 milljarða þannig að nettó lánveitingar námu 7,5 milljörðum en árið á undan nam uppgreiðsla eldri lána 5,9 milljörðum og nettó lánveitingar voru 8,4 milljarðar.
Tryggingafræðileg úttekt í lok árs sýnir að heildareignir samtryggingarsjóðs eru 347 milljarðar sem samanstendur af núvirtum eignum og framtíðariðgjöldum. Heildarskuldbinding samtryggingarsjóðsins er 363,2 milljarðar og eru því skuldbindingar umfram eignir 16,2 milljarðar. Niðurstaða úttektarinnar er að áfallnar skuldbindingar eru 7,7% umfram eignir og núvirði framtíðariðgjalda umfram núvirði framtíðarskuldbindinga er 0,2% af skuldbindingum. Þegar áfallin staða og framtíðarstaða eru lagðar saman eru heildarskuldbindingar 4,5% umfram eignir. Staða sjóðsins er innan marka í lögum.
Í lok nóvember 2023 féll dómur í héraði í máli sjóðfélaga gegn Lífeyrissjóði verslunarmanna, LV, þar sem aldursháð aðlögun réttinda var dæmd ólögleg. LV fór svipaða leið við innleiðingu nýrra líftaflna og Almenni lífeyrissjóðurinn og því er hugsanlegt að dómurinn geti haft áhrif á sjóðinn. Stjórn LV hefur áfrýjað dómnum og hefur Hæstiréttur fallist á málskotsbeiðni LV. Vonast er til að málinu ljúki á árinu 2024. Tryggingafræðileg staða Almenna lífeyrissjóðsins mun versna ef Hæstiréttur dæmir aldursháðu aðlögunina ólöglega. Áfallin staða yrði þá neikvæð um 14,9% og heildarstaðan neikvæð um 8,9% (skuldbindingar umfram eignir).
Ársfundur 2024 og rafrænt stjórnarkjör
Nánari upplýsingar um rekstur og afkomu Almenna lífeyrissjóðsins verða veittar á ársfundi hans fimmtudaginn 4. apríl kl. 17:15 á Hilton Nordica Reykjavík.
Stjórnarkjör í Almenna lífeyrissjóðinn fer fram með rafrænum hætti í aðdraganda ársfundar. Sjö manns hafa boðið sig fram um þrjú laus sæti í aðalstjórn og varastjórn. Þrjár konur eru í framboði um tvö laus sæti kvenna í aðalstjórn en fjórir karlar og tvær konur um laust sæti í varastjórn. Eingöngu sjóðfélagar geta boðið sig fram og eingöngu sjóðfélagar geta kosið á milli þeirra.
Kosning fer fram dagana 25. mars til 3. apríl. Upplýsingar um frambjóðendur og rafrænt stjórnarkjör árið 2023 má lesa hér.