Ársskýrsla 2019

23. mars 2020

Ársskýrsla 2019

Ársskýrsla Almenna lífeyrissjóðsins fyrir árið 2019 hefur verið birt. Ársskýrslan er samtals 104 blaðsíður en í henni er að finna ítarlegar upplýsingar um starfsemi sjóðsins, ársreikning 2019, útdrátt úr fjárfestingarstefnu og áhættustefnu. Skýrsluna má sjá með því að smella hér. Helstu atriði í ársreikningi 2019 eru eftirfarandi:

  • Heildareignir 269 milljarðar
  • Greidd iðgjöld 15,7 milljarðar
  • Greiddur lífeyrir 5,7 milljarðar
  • Nafnávöxtun samtryggingarsjóðs 13,3%. Frá árinu 1990 hefur raunávöxtunin verið 4,7% að jafnaði
  • Raunávöxtun séreignarsjóðs var á bilinu 1,6% til 14,5%
  • Tryggingafræðileg staða batnaði á milli ára og eru heildarskuldbindingar 4,3% umfram heildareignir. 
  • Nýjar sérhæfðar lífslíkur vega þungt í breytingunni á milli ára en heildarstaðan miðað við eldri lífslíkur hefði verið 1,6%
  • Sjóðurinn lánaði sjóðfélögum 14,7 milljarða með veði í fasteignum en uppgreidd lán námu 6,1 milljarði. 

Nánar:

Almenni lífeyrissjóðurinn stækkaði um 40 milljarða eða um 17% árinu og námu heildareignir hans 269 milljörðum króna í árslok 2019. Sjóðfélagar í árslok voru 48.500 og fjölgaði um 5,0% á milli ára. Eignir séreignarsjóðs voru 141 milljarður en samtryggingarsjóðs 128 milljarðar.

Greidd iðgjöld til sjóðsins árið 2019 voru samtals 15,7 milljarðar sem er 9% hækkun frá árinu áður. Lífeyrisgreiðslur samtryggingarsjóðs voru alls 2,4 milljarðar árið 2019 sem er 15,3% hækkun frá árinu áður. Heildarfjöldi lífeyrisþega var 2.051. Lífeyrisgreiðslur séreignarsjóðs námu alls 3,3 milljörðum sem er 1,4% lækkun frá árinu áður.

Árið 2019 fer í sögubækurnar sem eitt besta ár fyrir fjárfesta frá upphafi. Góð ávöxtun var bæði á innlendum og erlendum mörkuðum á árinu. Ávöxtunarleiðir Almenna lífeyrissjóðsins nutu góðs af hagstæðri þróun á mörkuðum og skiluðu ágætri ávöxtun. Ævisafn I hækkaði mest eða um 17,6% sem jafngildir um 14,5% raunávöxtun. Sjá nánar hér.

Á árinu 2019 athugaði Talnakönnun dánartíðni sjóðfélaga á árunum 2014 til 2018 en tryggingafræðilegar úttektir á íslenskum lífeyrissjóðnum eru reiknaðar með líftöflum frá þessum árum. Niðurstöður athugunarinnar eru að dánarlíkur sjóðfélaga Almenna eru marktækt lægri en staðalforsendurnar en munurinn mælist áþekkur á meðal karla og kvenna. Við mat á tryggingafræðilegri stöðu Almenna lífeyrissjóðsins eru því notaðar sértækar dánarlíkur fyrir sjóðfélaga sem eru um 80% af dánarlíkum sjóðfélaga í öllum lífeyrissjóðum. Í stuttu máli þýðir þetta að við mat á skuldbindingum er reiknað með að 70 ára karlar í Almenna lifi að meðaltali 1,4 ári lengur en meðaltal sjóðfélaga í öðrum sjóðum og að 70 ára konur lifi að meðaltali 1,7 ári lengur.

Í árslok 2019 var áunnin staða neikvæð um 4,3% af skuldbindingum, framtíðarstaða neikvæð um 0,9% og heildarstaða neikvæð um 2,9%. Heildarstaða sjóðsins fór úr  -1,1% af skuldbindingum frá síðasta ári í -2,9%. Nýjar sérhæfðar lífslíkur vega þungt í breytingunni á milli ára. Heildarstaðan í árslok 2019 miðað við eldri lífslíkur hefði verið 1,6% og því versnaði staðan um 4% með nýjum lífslíkum. Samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt eru heildareignir samtryggingarsjóðs 200,3 milljarðar og heildarskuldbindingar 206,3 milljarðar.

Meðalævi Íslendinga hefur verið að lengjast jafnt og þétt á liðnum árum og áratugum. Í upphafi 21. aldarinnar var reiknað með að 70 ára karl myndi að meðaltali lifa í 13,8 ár og kona á sama aldri 16 ár. Samkvæmt sérhæfðum dánarlíkum Almenna er nú reiknað með að 70 ára karlar lifi að meðaltali í 16,7 ár og konur í 18,7 ár og hefur meðalævi sjóðfélaga eftir að 70 ára aldri er náð því lengst um 17% til 21% á 20 árum. Þar sem sjóðurinn greiðir ellilífeyri ævilangt hefur ellilífeyrisskuldbinding vaxið samsvarandi.

Ársfundi Almenna lífeyrissjóðsins hefur verið frestað um óákveðinn tíma en hann verður auglýstur síðar með lögboðnum tveggja vikna fyrivara.

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.