Getum við aðstoðað?

Breyting á Ævisafni III

10. desember 2020

Breyting á Ævisafni III
Dyrhólaey. Mynd: Anna Guðmundsdóttir

Fjárfestingarstefna 2021

Fjárfestingarstefna Almenna lífeyrissjóðsins er yfirfarin árlega og ákveðið hefur verið að breyta fjárfestingarstefnu Ævisafns III. Breytingin felur í sér lækkun á hlutfalli skuldabréfa og innlána í safninu, en það fer úr 80% í 70%. Að sama skapi hækkar  hlutfall hlutabréfa í safninu úr 20% í 30%.

Með þessari breytingu er stefnt að hærri langtímaávöxtun Ævisafns III. Sjóðfélagar í safninu mega á móti reikna með því að sveiflur í ávöxtun aukist með hærra hlutfalli hlutabréfa. Bent er á að hlutabréf eru almennt áhættu­samari eignir en skuldabréf og innlán, en sögulega séð hafa þau skilað hærri langtímaávöxtun.

Vextir hafa lækkað verulega á undan­förnum árum og fjárfestingarumhverfið breyst mikið frá því núverandi fjárfestingarstefna var mótuð. Sem dæmi má nefna að raunávöxtun langra ríkisskuldabréfa var í kringum 5% þegar safnið var stofnað árið 1998 en fór niður fyrir 0% raunávöxtun fyrr á þessu ári. Þessi mikla vaxtalækkun undanfarin ár hefur skilað safninu töluverðum gengishagnaði en ef horft er fram í tímann munu skuldabréf að öllum líkindum skila lægri ávöxtun en þau hafa gert.


Flutningur án kostnaðar

Til að koma til móts við þá sjóðfélaga sem kjósa aðra samsetningu eigna þar sem reikna má með minni sveiflum í ávöxtun og eftir atvikum minni áhættu verður heimilt að flytja inneign án kostnaðar til 1. apríl 2021 úr Ævisafni III yfir í þrjár ávöxtunarleiðir; Innlánasafn, Húsnæðissafn og Ríkissafn stutt. Ef óskað er eftir breytingu er sjóðfélögum bent á að hafa samband við ráðgjafa í síma 510 2500, með tölvupósti á almenni@almenni.is eða netspjalli á www.almenni.is til að fá frekari aðstoð eða ráðgjöf. Þeir sjóðfélagar sem eru sáttir við þessa breytingu á fjárfestingarstefnu Ævisafns III þurfa hins vegar ekki að gera neitt.

Smelltu hér til að skoða fjárfestingarstefnuna.