Fjárfestingarstefna 2024

04. desember 2023

Fjárfestingarstefna 2024
Mynd: Helga Indriðadóttir

Fjárfestingarstefna Almenna lífeyrissjóðsins fyrir árið 2024 var samþykkt af stjórn sjóðsins þann 28. nóvember 2023.

Fjárfestingarstefnan er birt í heild sinni á vefsíðu sjóðsins, sjá hér. Stefnan er ítarleg en í henni má lesa um uppbyggingu sjóðsins og ávöxtunarleiðir, sögulega langtímaávöxtun eignaflokka sem er kjarninn að stefnu um eignasamsetningu, efnahagshorfur og vænta ávöxtun, fjárfestingarstefnu og vikmörk, takmarkanir og viðmið. Stefna um ábyrgar fjárfestingar, eigendastefna, lánareglur og útdráttur úr Eftirlitskerfi með áhættu eru fylgiskjöl með fjárfestingarstefnunni.

Helstu breytingar frá fjárfestingarstefnu 2023 eru eftirfarandi:

  • Óverulegar breytingar eru gerðar á fjárfestingarstefnu ávöxtunarleiða á milli ára. Þó hefur vikmörkum einstakra eignaflokka í stefnu blandaðra safna verið hnikað til.
  • Í kafla IV um fjárfestingarstefnu er fjallað um takmarkanir sem gilda fyrir lágmarkstryggingavernd og viðbótartryggingavernd. Þar kemur fram að hámarksvægi í fjármálagerningum útgefnum af Reykjavíkurborg og Lánasjóði sveitarfélaga sem hlutfall af heildareignum ávöxtunarleiða hefur verið lækkað úr 7,5% í 5%, til samræmis við aðra útgefendur fjármálagerninga. Þetta hlutfall var einnig 5% fyrir skráða útgefendur fasteignatryggðra skuldabréfa en er nú hækkað í 7,5% vegna aðstæðna á markaði.
  • Í kafla V er fjallað um viðmið sem höfð eru til hliðsjónar við val á verðbréfum. Þar kemur nú fram heimild til fjárfestinga í breytanlegum skuldabréfum fyrirtækja og víkjandi skuldabréfum banka, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þá hafa skilyrði um fjárfestingar í skuldabréfum sveitarfélaga jafnframt verið skýrð nánar.
  • Stefna Almenna lífeyrissjóðsins um ábyrgar fjárfestingar og eigendastefna eru staðfestar sérstaklega af stjórn. Óverulegar breytingar eru gerðar á stefnunum á milli ára.

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.