Fjárfestingarstefna Almenna lífeyrissjóðsins 2016
01. desember 2015
Fjárfestingarstefna Almenna lífeyrissjóðsins fyrir árið 2016 var undirrituð af stjórn sjóðsins þann 25. nóvember 2015.
Fjárfestingarstefnan er að venju ítarleg og er birt í heild sinni á vefsíðu sjóðsins. Helstu breytingar sem gerðar eru í fjárfestingarstefnu fyrir árið 2016 eru þær að vægi einstakra flokka skuldabréfa í fjárfestingarstefnunni hefur verið breytt, m.a. til samræmis við vægi þessara útgefanda á skuldabréfamarkaði. Þannig er hlutfall skuldabréfa fyrirtækja og fjármálastofnana/sértryggðra skuldabréfa aukið og á móti lækkar m.a. hlutfall veðskuldabréfa. Sértryggð skuldabréf fjármálastofnana eru skuldabréf sem tryggð eru með safni undirliggjandi veðskuldabréfa sem uppfylla þurfa ýmis skilyrði. Sértryggð skuldabréf hafa á síðustu misserum orðið eitt helsta form á fjármögnun íbúðarlána og hafa að því leyti tekið við af ríkistryggðum skuldabréfum Íbúðarlánasjóðs og forvera hans.
Þá er útdráttur úr áhættustefnu sjóðsins hluti af fjárfestingarstefnunni. Áhættustefna lífeyrissjóðsins var samþykkt af stjórn sjóðsins í nóvember 2015 og byggir hún m.a. á leiðbeinandi tilmælum um áhættustýringu frá FME.