Fjórða tilnefning Almenna

19. apríl 2016

Fjórða árið í röð er Almenni lífeyrissjóðurinn tilnefndur til verðlauna af fagtímaritinu European Pensions. Í ár þykir tímaritinu Almenni vera í fremstu röð í Evrópu í nýjungum í lífeyrisþjónustu vegna sjóðfélagavefsins sem var opnaður á síðasta ári. Vefurinn hefur fallið í góðan jarðveg hjá sjóðfélögum, auk þess að vekja athygli út fyrir landssteinana.

Í nóvember 2015 var sjóðurinn valinn besti lífeyrissjóður í Evrópu meðal þjóða með færri en milljón íbúa af fagtímaritinu IPE (Investment Pension Europe). Meðal ummæla dómnefndar í þeim verðlaunum kemur fram að Almenni sé „brautryðjandi í notkun upplýsingatækni í lífeyrisþjónustu“. Tilnefning European Pensions er í takt við þessa umsögn en í henni felst viðurkenning á því hvernig sjóðurinn notar upplýsingatækni til að miðla upplýsingum til sjóðfélaga og gera þeim kleift að stýra sínum málum heima í stofu eða hvar sem er, hvenær sem er. Það kemur svo í ljós fimmtudaginn 23. júní nk. hver þeirra 6 sem tilnefndir eru vinnur verðlaunin. Auk Almenna eru sjóðirnir Deutsche Asset & Wealth Management, Ensign Pensions, MangustaRisk, Mercer og Spence & Partners tilnefndir. Hægt er að sjá tilnefningarsíðuna hér.

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.