Framlenging og sparnaður inn á lán

19. desember 2013

Alþingi samþykkti fyrir jólin tillögu að breytingu á fjárlögum sem felur í sér framlengingu á tímabundinni úttekt viðbótarlífeyrissparnaðar. Úttektin verður framlengd um eitt ár eða til 1. janúar 2015 en jafnframt er heildarúttektin hækkuð úr kr. 6.250.000 í 9 milljónir króna. Úttektin er miðuð við stöðu viðbótarsparnaðar 1. janúar 2014.

Stjórnvöld kynntu einnig fyrir skemmstu aðgerðir í skuldamálum heimila. Aðgerðirnar eiga að koma til framkvæmda 1. júlí 2014. Samkvæmt þeim verður rétthöfum viðbótarlífeyrissparnaðar gert heimilt að ráðstafa allt að 4% iðgjaldi sínu og 2% mótframlagi launagreiðanda inn á húsnæðislán. Greiðslurnar verða skattlausar en að hámarki 500 þúsund kr. á ári í þrjú ár eða samtals 1,5 m. kr. Aðgerðin mun taka til þeirra sem skulduðu húsnæðislán fyrir 1. desember 2013 en öðrum verður gert heimilt að leggja fyrir í húsnæðissparnað. Stjórnvöld áætla að aðgerðin hefjist þann 1. júlí 2014 og samhliða verði frádráttarbært iðgjald launþega til viðbótarlífeyrissparnaðar hækkað að nýju úr 2% í 4%.

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.