Frísklegur fyrri hálfleikur

07. júlí 2015

Allar ávöxtunarleiðir Almenna lífeyrissjóðisins hækkuðu á fyrri hluta ársins 2015.
Lækkun ávöxtunarkröfu á löngum verðtryggðum skuldabréfum með tilheyrandi gengishagnaði hefur haft þar mest áhrif. Hækkaði til að mynda verðtryggð vísitala Kauphallarinnar með 10 ára meðaltíma um 8,3% á fyrri hluta ársins. Innlendur hlutabréfamarkaður hefur verið á miklu skriði og hækkaði heildarvísitala aðallista um tæplega 21%. Auk þess hefur verið hagstæð þróun á erlendum mörkuðum en jafnframt hefur gengi krónunnar veikst gagnvart dollar. Heimsvísitalan MSCI hækkaði í íslenskum krónum um 6,4% á fyrri hluta ársins en um 2,6% í dollurum

Gengisþróun ávöxtunarleiða Almenna lífeyrissjóðsins 1. janúar til 30. júní 2015

Ævisafn I 6,6% Innlánasafn 2,5%
Ævisafn II 6,4% Ríkissafn-langt 6,2%
Ævisafn III 4,5% Ríkissafn-stutt 1,4%
Samtryggingarsjóður 6,0%

Blandaðar ávöxtunarleiðir hækka mest
Ævisafn I, Ævisafn II, Ævisafn III og samtryggingarsjóður hækkuðu mest á fyrri helmingi ársins eða á bilinu 4,5% til 6,6% vegna hagstæðrar þróunar helstu eignaflokka.

Ríkissafn – langt hækkaði um 6,2% á fyrri hluta ársins. Skýringin á hækkun safnsins er fyrst og fremst lækkun á ávöxtunarkröfu verðtryggðra skuldabréfa með tilheyrandi gengishagnaði. Til að mynda hækkaði lengsta íbúðabréfið í verði um tæp 9% á fyrr hluta ársins.

Innlánasafn hækkaði um 2,5% á tímabilinu. Verðtryggð innlán vega 94% af eignum safnsins.

Ríkissafn – stutt hækkaði um 1,4%. Rúmlega 76% af eignum safnsins eru ríkisskuldabréf, þar af eru óverðtryggð ríkisskuldabréf um 42%. Stutt óverðtryggð ríkisskuldabréf hækkuðu óverulega í verði á fyrri hluta ársins en verðtryggð stutt ríkisskuldabréf skiluðu ágætis ávöxtun.

Horfur framundan
Horfur um ávöxtun til lengri tíma eru ágætar. Margt bendir til að íslenskt efnahagslíf sé að taka við sér og framundan sé tímabil vaxtar. Erlend hagkerfi eru einnig að taka við sér og eru markaðsaðilar jákvæðir á hlutabréfamarkaði til langs tíma þrátt fyrir miklar hækkanir á liðnum árum. Nokkurrar óvissu gætir þó vegna stöðu Grikklands og framtíðar Evrusamstarfsins.

Fyrir sjóðfélaga skiptir mestu máli að velja ávöxtunarleið eftir áhættuþoli og hæfi til að þola sveiflur í ávöxtun. Ráðgjafar Almenna lífeyrissjóðsins eru sem fyrr tilbúnir að veita upplýsingar um ávöxtunarleiðir sjóðsins, um eignasamsetningu, markaðs- og mótaðilaáhættu.

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.