Góð ávöxtun, öflugt kerfi
11. júlí 2013
Þetta kemur fram í árlegri skýrslu Fjármálaeftirlitsins sem kom út í vikunni.
Ávöxtun lífeyrissjóða á liðnu ári var góð og eru heildareignir lífeyriskerfisins að nálgast að verða helmingi stærri en landsframleiðsla (149%). Þetta kemur fram í árlegri skýrslu Fjármálaeftirlitsins sem kom út í vikunni.
Í skýrslunni kemur fram að lífeyriskerfið sé öflugt þó að kerfið standi frammi fyrir verðugum viðfangsefnum. Halli er enn á tryggingafræðilegri stöðu lífeyrissjóðanna en til að draga úr honum þyrfti ávöxtun að vera góð í nokkur ár eða sjóðirnir að hækka iðgjöld, skerða réttindi eða hækka lífeyrisaldur. Tekjutenging lífeyrisréttinda hefur dregið úr vilja fólks til lífeyrissparnaðar og gjaldeyrishöft takmarka fjárfestingamöguleika og áhættudreifingu lífeyrissjóðanna.
- Eignir lífeyrissjóðanna sem hlutfall af þjóðarframleiðslu hafa aldrei verið meiri, en í árslok 2012 voru þær 149%.
- Eignir lífeyrissjóðanna uxu á árinu um 13,9% eða úr 2.230 milljörðum í árslok 2011 í 2.540 í árslok 2012.
- Samtryggingadeildir lífeyrissjóðanna stóðu í árslok í 2.159 milljörðum og eru sem fyrr með stærstan hlut eða 85%. Það hlutfall hefur haldist óbreytt frá árinu 2009.
- Eignir lífeyrissjóða með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga hafa aukist úr 24% um mitt ár 2008 í 49% í árslok 2012.
- Hrein raunávöxtun samtryggingadeilda lífeyrissjóðanna var 7,4% á síðasta ári og hefur ekki verið hærri frá árinu 2006. Fimm ára meðalávöxtun var 2,4% sem er rúmu prósentustigi undir 3,5% ávöxtunarviðmiði lífeyrissjóðanna. Hrein raunávöxtun séreignadeilda var 6,4% á árinu 2012.
- Tryggingafræðileg staða lífeyrissjóðanna hefur lítið batnað þrátt fyrir góða ávöxtun á liðnu ári vegna hækkandi lífaldurs og lægra endurmats verðbréfa í tryggingafræðilegu mati.
- Tryggingafræðileg staða sjóða með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga er mjög slæm en hallinn nam 574 milljörðum í árslok 2012.
- Tryggingafræðileg staða sjóða sem ekki njóta ábyrgðar launagreiðenda hefur batnað smám saman frá árinu 2008 og var halli þeirra nærri 100 milljarðar kr. í árslok 2012.
Smelltu hér til að skoða frétt á vef FME, en þaðan er hægt að skoða nánar yfirlit, heildarniðurstöður og talnaefni úr skýrslunum.