Hærri ávöxtunarkrafa og sterkari króna

10. maí 2013

Helstu áhrifavaldar á ávöxtun það sem af er ári er sterkari króna og hærri ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa. Talsverðar hækkanir urðu á gengi ævisafna lífeyrissjóðsins í janúar og febrúar en þá drógu hækkanir á erlendum verðbréfum vagninn. Þó svo að þær hækkanir hafi haldið áfram og verið stöðugar hefur styrking krónunnar haft áhrif til lækkunar á móti. Auk þess hefur ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisskuldabréfa hækkað frá áramótum, sem dregur niður ávöxtun safna sem fjárfesta í ríkisskuldabréfum.

Hækkun á innlendum hlutabréfum hefur hinsvegar verið veruleg það sem af er ári. Að sögn Helgu Indriðadóttur, sjóðstjóra Almenna, hefur sú hækkun ekki mikil áhrif á gengi ævisafna sjóðsins þar sem þau eru tiltölulega lítill hluti af fjárfestingum sjóðsins.

Hækkun á erlendum mörkuðum Frá áramótum hefur hækkun erlendra hlutabréfa verið jöfn og stöðug. Sú hækkun hefur mildað áhrifin af lækkun vegna styrkingar krónunnar og hærri ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa.
Innlánasafn hækkaði mest Innlánasafn hækkaði mest fyrstu fjóra mánuði ársins eða um 2,7% sem er um 0,5% raunhækkun þar sem hækkun á vísitölu neysluverðs var 2,2% á tímabilinu.
Ævisafn III á pari við verðbólgu Ævisafn III hækkaði um 2,1% fyrstu fjóra mánuði ársins og var þar afleiðandi nánast á pari við verðbólgu á sama tima. Ævisöfn I og II, sem skiluðu mjög góðri ávöxtun á árinu 2012, hækkuðu hins vegar um 0,2 og 1,2% á tímabilinu janúar – apríl 2013 og er raunávöxtun þeirra því neikvæð á þeim tíma.
Ríkissöfn hækka á nafnverði Ríkissafn stutt hækkaði um 1,2% og Ríkissafn langt um 1,3% á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Þetta samsvarar um 0,9%-1% lækkun að raunvirði.
Gjaldeyrishöft valda vandræðum Núgildandi gjaldeyrishöft valda margvíslegum vandræðum. Sjóðurinn getur ekki framfylgt stefnu sinni um áhættudreifingu með fjárfestingu í erlendum eignum á meðan þau eru í gildi. Einnig er hætta á bólumyndun í lokuðu hagkerfi þar sem framboð fjárfestingakosta er takmarkað.
Horfur á næstu misserum Líklegt verður að teljast að verðtryggðir vextir verði áfram tiltölulega lágir þar sem eftirspurn eftir fjárfestingakostum er mikil og hagkerfi landsins er lokað (gjaldeyrishöft). Þó hafa verið merki um að fjárfestar séu að færa sig af skuldabréfamarkaði og yfir á innlendan hlutabréfamarkað í auknum mæli, eins og glöggt má sjá á eftirspurn eftir félögum í útboðum undangenginna vikna og verðþróun á hlutabréfamarkaði. Ef horft er út fyrir landsteinana þá má segja að óvissa ríki í stærstu hagkerfum heims. Skuldavandinn er enn mikill í Evrópu og Bandaríkjunum og efnahagsbatinn hefur verið hægari en vonast var eftir. Aðgerðir seðlabanka til örvunar auka þó bjartsýni fjárfesta.

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.