Hæsta ávöxtun frá upphafi
10. janúar 2013
Ávöxtunarleiðir Almenna lífeyrissjóðsins hækkuðu um allt að 16,6% umfram verðbólgu á árinu 2012 sem er hæsta raunávöxtun sjóðsins frá upphafi. Allar ávöxtunarleiðir skiluðu jákvæðri nafnávöxtun á árinu eða á bilinu 4,2% til 21,8%.
Allt að 16,6% raunávöxtun
Allar ávöxtunarleiðir Almenna lífeyrissjóðsins skiluðu jákvæðri nafnávöxtun á árinu 2012. Hæsta nafnávöxtunin, 21,8% var á Ævisafni I sem er að stórum hluta ávaxtað í erlendum sjóðum. Hækkun safnsins má helst rekja til hagstæðrar þróunar á erlendum mörkuðum auk þess sem varúðarafskriftir gengu að hluta til baka.
Blönduð söfn hækkuðu mest | Blandaðar ávöxtunarleiðir þ.e. Ævisafn I, II, III og samtryggingarsjóður nutu allar góðs af hækkun erlendra eigna vegna hagstæðrar þróunar á mörkuðum og veikingar krónunnar. Einnig gengu varúðarafskriftir að hluta til baka og höfðu í för með sér hækkun á eignum sjóðsins. Ævisafn I hækkaði mest á árinu 2012 eða um 21,8%, Ævisafn II um 16,7%, Ævisafn III um 10,6% og Samtryggingarsjóður hækkaði um 14,8%. |
Ríkissafn-langt hækkaði | Ríkissafn langt hækkaði um 6,4% á árinu. Ávöxtunarkrafa langra ríkisskuldabréfa var svipuð í upphafi og lok ársins en nokkrar sveiflur urðu innan ársins. Hækkun umfram verðbólgu var 1,8%. |
Ríkissafn-stutt hækkaði | Ríkissafn stutt hækkaði um 4,2% en vegna 4,5% verðbólgu lækkaði safnið um tæp 0,4% að raunvirði. |
Verðtryggð innlán með góða ávöxtun | Ævisafn IV sameinaðist Innlánasafni í september 2012. Á árinu varð 6,5% nafnávöxtun á Innlánasafninu. Fengnar verðbætur skýra stóran hluta ávöxtunarinnar þar sem verðbólga ársins var 4,5%. Verðtryggð innlán vega um 91% af Innlánasafninu. |