Lækkun á virði skuldabréfa útgefnum af ÍL-sjóði

26. október 2022

Lækkun á virði skuldabréfa útgefnum af ÍL-sjóði

Fimmtudaginn 20. október sl. hélt fjármála- og efnahagsráðuneytið kynningu á stöðu ÍL-sjóðs í ljósi þess að ríkisábyrgð er á efndum gagnvart eigendum tiltekinna skuldabréfa útgefnum af sjóðnum. Í kynningu ráðherra kom fram að einn af þeim valkostum sem kæmu til greina væri að Alþingi beitti löggjafarvaldi sínu þannig að tiltekin skuldabréf útgefin af ÍL-sjóði verði greidd upp fyrir lokagjalddaga. Vegna þessara áforma hefur markaðsverð bréfanna lækkað og eru skuldabréfin nú metin á markaði m.v. uppgreiðsluvirði þeirra. Skuldabréfin lækka mismunandi í verði eftir því hve langt er í lokagjalddaga þeirra. Lengsti flokkurinn, HFF150644 féll í verði um 16%, HFF150434 féll um 8,5% og HFF150224 féll um rúmlega 1%.

Áhrif breytinga eru mismunandi á söfn Almenna lífeyrissjóðsins, en mest eru þau í Ríkissafni. Mikilvægt er að þeir sjóðfélagar sem taka ákvörðun um breytingar á söfnum sínum séu meðvitaðir um ofangreint.

Almenni lífeyrissjóðurinn telur að skilmálar skuldabréfa ÍL-sjóðs um ríkisábyrgð séu skýrir en þar kemur fram að ábyrgðin er óafturkallanleg og að ríkissjóður ber ábyrgð á núverandi og framtíðarskuldbindingum ÍL-sjóðs, þ.á.m. greiðslu höfuðstóls og vaxta samkvæmt skilmálum skuldabréfanna. Þessi forsenda hefur verið til grundvallar verðlagningu á markaði og við kaup á skuldabréfunum. Almenni lífeyrissjóðurinn væntir þess að skilmálar skuldabréfanna standi en vegna óvissu um uppgjör bréfanna hefur markaðverð þeirra lækkað.

Nálgast má kynningu ráðherra, skýrslu til Alþingis og frekari upplýsingar á heimasíðu ráðuneytisins.

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.