Lágmarksiðgjald hækkar í 15,5% þann 1. janúar

22. desember 2022

Lágmarksiðgjald hækkar í 15,5% þann 1. janúar

Um áramótin taka gildi breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Ein helsta breytingin er að lágmarksiðgjald (skylduiðgjald) í lífeyrissjóð hækkar úr 12% af launum í 15,5%. Flestir launþegar fá nú þegar greitt 15,5% iðgjald í lífeyrissjóð samkvæmt kjarasamningi en með þessari breytingu verða allir, þar með talið sjálfstæðir atvinnurekendur, að greiða 15,5% í lífeyrissjóð.

Lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs skal reiknað af heildarfjárhæð greiddra launa og endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf og þjónustu. Samkvæmt lögum skal iðgjaldið greitt reglulega í hverjum mánuði.  Iðgjaldagreiðslutímabil skal eigi vera lengra en mánuður og skal gjalddagi vera tíunda næsta mánaðar. Eindagi skal vera síðasti dagur sama mánaðar og iðgjald fellur í gjalddaga.

Launagreiðendur geta skilað iðgjöldum á nokkra vegu til Almenna lífeyrissjóðsins. Við mælum með að launagreiðendur nýti sér rafræn skil, annað hvort með því að senda skilagreinar beint úr launakerfinu eða með því að skrá skilagreinar í gegnum launagreiðendavef sjóðsins. Einnig er hægt að fylla út rafræna skilagrein á opnum vef sjóðsins með því að smella hér.

7% af launum í séreignarsjóð
Lágmarksiðgjald greitt í Almenna lífeyrissjóðinn skiptist þannig að 8,5% af launum í greiðast samtryggingarsjóð en 7% í séreignarsjóð. Með iðgjaldi í samtryggingarsjóð ávinna sjóðfélagar sér rétt á ellilífeyri til æviloka og áfallalífeyri (örorku-, maka- og barnalífeyrir). Iðgjald greitt í séreignarsjóð myndar inneign sem er laus til úttektar við 60 ára aldur og erfist við fráfall sjóðfélaga. Sjóðfélagar geta valið á milli sex mismunandi ávöxtunarleiða sem sveiflast mismunandi mikið og hafa mismunandi vænta langtímaávöxtun. Sjá upplýsingar um ávöxtunarleiðir hér.

 

Tilkynning á sjóðfélagavef:
Þann 1. janúar 2023 hækkar lágmarksiðgjald (skylduiðgjald) í lífeyrissjóð úr 12% af launum í 15,5%. Sjá frétt á heimasíðu sjóðsins.

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.