Frísklegur fundur

16. febrúar 2016

Þrátt fyrir frekar slæmt veður lagði fjöldi sjóðfélaga leið sína á Hótel Natura á þriðjudagskvöld 16. febrúar á upplýsingafund Almenna um lán og endurfjármögnun. Framsögu höfðu þau Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræðideild, Brynja M. Kjærnested og Þórhildur Stefánsdóttir ráðgjafar Almenna. Gylfi fjallaði um eigið fé í íbúðarhúsnæði og þróun í þeim efnum á undanförnum árum og áratugum. Brynja og Þórhildur fjölluðu um það helsta sem þarf að hafa í huga við lántöku en þær bera hitann og þungann af miklum önnum hjá sjóðnum vegna lána og endurfjármögnunar.

Eftir framsöguerindi sátu þau þrjú fyrir svörum auk Dans V.S. Wiium hdl. og löggilds faseignasala. Dan var spurður  hvort hann teldi að framhald yrði á 8,5% hækkun á meðal fasteignaverði árið 2014 en í máli hans kom fram að hann teldi ólíklegt að fasteignaverð gæti annað en hækkað á næstu misserum og árum, að hækkunin verði að líkindum enn meiri árið 2015 og að frá áramótum hafi hann nú þegar merkt hækkun á verði. Gylfi sagði að það væru margir áhrifaþættir að verki, að lítið framboð, kaup fasteignafélaga og útleiga til ferðamanna hjálpist m.a. að því að hækka fasteignaverð. Í svari Brynju og Þórhildar við fyrirspurn kom fram að vinsælasta lánaformið væri verðtryggt jafngreiðslulán til 40 ára að það virðist skipta fólki mestu máli að greiðslubyrðin sé sem léttust.

Jákvæð stemning var meðal fundarmanna, gagnlegar umræður spunnust og fjöldi spurninga var borinn fram. Fundinum var slitið um kl. 21:45 en þá voru enn fjörugar umræður í gangi. Mætingin og undirtektirnar á fundinum eru sjóðnum hvatning til að halda áfram á sömu braut.

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.