Nýjar breytingar á lögum um lífeyrissjóði

24. mars 2023

Nýjar breytingar á lögum um lífeyrissjóði

Rafræn yfirlit og auknar fjárfestingaheimildir erlendis

Alþingi samþykkti þann 24. mars 2023 nokkrar breytingar á lögum um lífeyrissjóði. Helstu breytingarnar eru þessar.

  • Lífeyrissjóði ber að veita nýjum sjóðfélaga upplýsingar um helstu réttindi sem ávinnast við greiðslu iðgjalda ásamt upplýsingum um skipulag og stefnu lífeyrissjóðsins.
  • Lífeyrissjóðum er heimilt að birta yfirlit til sjóðfélaga á læstu vefsvæði þar sem rafrænnar auðkenningar sjóðfélaga er krafist.
  • Breytingar eru gerðar á ákvæði um lágmarksvægi innlendra eigna en gert er ráð fyrir að hlutfallið lækki úr 50% í 35% af eignum í áföngum til ársins 2036. Hinn 1. janúar 2024 lækkar lágmarkið í 48,5% og um 1,5 prósentustig 1. janúar ár hvert til 1. janúar 2027. Eftir það lækkar lágmarkið um eitt prósentustig 1. janúar ár hvert þar til það nær 35% 1. janúar 2036.
  • Þá er gerð sú breyting að lífeyrissjóðum er ekki skylt að selja erlendar eignir ef þær fara yfir hámark samkvæmt lögum við breytingu á gengi íslensku krónunnar eða verðhækkanir á erlendum eignamörkuðum. Í þeim tilvikum verður lífeyrissjóðum óheimilt að auka við erlendar eignir eða gjaldmiðlaáhættu.
  • Heimildir lífeyrissjóða til notkunar afleiða til að draga úr áhættu eru gerðar skýrari en núverandi texti þykir óljós.

Lífeyrissjóðirnir fagna þessum breytingum og alveg sérstaklega heimild til birta yfirlit á rafrænan hátt og auknar heimildir til erlendra fjárfestinga.

Lífeyrissjóðirnir hafa til þessa verið skyldugir til að senda yfirlit til sjóðfélaga tvisvar á ári á pappírsformi. Í dag bjóða flestir sjóðir aðgang að upplýsingum um inneign, réttindi og hreyfingar á læstum sjóðfélagavefum (mínum síðum) sem auðvelt er að tengjast. Þá eru vísbendingar um að pappírsyfirlit séu lesin af fáum og jafnvel að umslög séu ekki opnuð í mörgum tilvikum. Rétt er árétta að þeir sjóðfélagar sem vilja áfram fá pappírsyfirlit send heim geta óskað eftir því og fengið þau send sér að kostnaðarlausu.

Lífeyrissjóðirnir fagna því að heimildir til erlendra fjárfestinga munu aukast í framtíðinni. Með erlendum fjárfestingum geta sjóðirnir aukið áhættudreifingu með því að fjárfesta í mörgum löndum með ólíka efnahagslega áhættu. Alþjóðleg eignadreifing er ein forsenda þess að hægt sé að draga úr sveiflum í ávöxtun eigna og forðast neikvæð efnahagsleg áhrif á samdráttartímum eða þegar þjóðin tekur að eldast.

Lögin taka gildi þann 1. apríl 2023.

 

 

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.