Óhagstæð ávöxtun árið 2022

18. janúar 2023

Óhagstæð ávöxtun árið 2022

Snörp vaxtahækkun og verðleiðrétting skilaði neikvæðri ávöxtun blandaðra verðbréfasafna

Eftir miklar hækkanir á verðbréfamörkuðum undanfarin ár varð viðsnúningur á síðasta ári og var þróun á verðbréfamörkuðum óhagstæð fjárfestum árið 2022. Lækkun var á öllum helstu mörkuðum sem Almenni fjárfestir á og endurspeglast það í ávöxtun safna sjóðsins á árinu. Óvissa vegna stríðsins í Úkraínu, þróunar orkumála í Evrópu, áhyggjur af hárri verðbólgu og hækkun stýrivaxta leiddu til hækkunar á ávöxtunarkröfu á skuldabréfamörkuðum og lækkunar á eignamörkuðum, bæði á hlutabréfum og skuldabréfum.

Þrjár ávöxtunarleiðir Almenna lífeyrissjóðsins skiluðu jákvæðri nafnávöxtun á árinu 2022, mest hækkaði Innlánasafnið eða um 9,4% sem samsvarar um 0,03% raunávöxtun. Það var jafnframt eina safnið sem skilaði jákvæðri raunávöxtun á árinu en vísitala neysluverðs hækkaði um 9,3% yfir árið 2022.

Heimsvísitala erlendra hlutabréfa MSCI lækkaði um 18,1% í USD sem jafngildir 10,8% lækkun í íslenskum krónum þar sem krónan veiktist gagnvart USD á árinu. Undanfarin ár hafa verið gjöful á erlendum hlutabréfamörkuðum og hefur heimsvísitala erlendra hlutabréfa MSCI hækkað að jafnaði um 12,9% í íslenskum krónum síðastliðin fimm ár sem samsvarar um 7,8% árlegri raunávöxtun.  Innlendur hlutabréfamarkaður átti einnig undir högg að sækja á árinu eftir miklar hækkanir undanfarin ár og lækkaði heildarvísitala aðallista um 12% yfir árið 2022. Þrátt fyrir þessa lækkun hefur heildarvísitala aðallista hækkað um 14,4% að jafnaði undanfarin fimm ár sem samsvarar 9,2% árlegri raunávöxtun.

Stýrivextir Seðlabanka Íslands voru 2% í upphafi síðasta árs en eftir tíðar og miklar vaxtahækkanir á árinu voru þeir orðnir 6% í lok árs. Þessar hækkanir höfðu áhrif á innlendan skuldabréfamarkað og var snarpur viðsnúningur á seinni hluta ársins. Ávöxtunarkrafa verðtryggðra skuldabréfa hækkaði verulega sem þýðir gengistap fyrir verðtryggð skuldabréf og lækkaði vísitala Nasdaq Iceland fyrir 10 ára löng verðtryggð skuldabréf um 1,6%. Sambærileg vísitala fyrir 10 ára óverðtryggð skuldabréf lækkaði um 11,6%, sem skýrist af mikilli hækkun á ávöxtunarkröfu óverðtryggðra skuldabréfa á árinu, m.a. vegna verðbólgu.

Þrátt fyrir neikvæða raunávöxtun á síðasta ári er langtímaávöxtun blandaðra verðbréfasafna hagstæð. Þau hafa öll skilað jákvæðri raunávöxtun sl. 5 og 10 ár, mest Ævisafn I sem skilaði 5,1% raunávöxtun að jafnaði sl. 5 ár og 4,8% sl. 10 ár.

Enn ríkir óvissa á helstu eignamörkuðum heims vegna stríðsátakanna í Úkraínu sem og verðbólgu sem gæti skilað sér í enn frekari stýrivaxtahækkunum erlendis og hækkun á

ávöxtunarkröfu skuldabréfa. Margt bendir því til þess að markaðir geti áfram verið sveiflukenndir sem hefði þá áhrif á ávöxtun á næstu misserum. Horfur til lengri tíma eru hins vegar ágætar eftir vaxtahækkanir og lækkanir á eignamörkuðum. Fjárfestum býðst nú að kaupa skuldabréf á mun hærri ávöxtunarkröfu en stóð til boða í lágvaxtaumhverfi síðustu ára og verðkennitölur hlutabréfa eru sömuleiðis hagstæðari í sögulegu samhengi.

 

Upplýsingar um afkomu ávöxtunarleiða Almenna lífeyrissjóðsins:

Ávöxtunarleiðir Skýringar
Blönduð söfn

Ávöxtun blandaðra ávöxtunarleiða, þ.e. Ævisafna I, II, III og samtryggingarsjóðs var frá

-6,5% til 0,7%. Lækkanir á innlendum og erlendum hlutabréfamörkuðum höfðu mest áhrif til lækkunar á gengi safnanna en jafnframt hækkaði ávöxtunarkrafa innlendra skuldabréfa sem þýðir gengistap fyrir söfnin.

Ríkissafn Ríkissafnið lækkaði um 3,8%. Það sem skýrir ávöxtun safnsins er mikil hækkun á ávöxtunarkröfu verðtryggðra skuldabréfa sem þýðir gengistap fyrir skuldabréf. Á móti því vann hækkun á vísitölu neysluverðs sem skilar sér í hækkun verðtryggðra ríkisskuldabréfa. Skuldabréf með ríkisábyrgð sem eru útgefin af ÍL-sjóði vega hátt í 40% af eignum safnsins. Í framhaldi af tilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytis í október 2022 um mögulegar aðgerðir vegna stöðu ÍL- sjóðs  lækkaði verðmat þessara skuldabréfa á markaði vegna óvissu um uppgjör bréfanna.
Innlánasafn Innlánasafnið hækkaði um 9,4%. Safnið ávaxtar eignir sínar að stærstum hluta á bundnum innlánsreikningum og vega verðtryggð innlán um 96% af eignum safnsins.
Húsnæðissafn Húsnæðissafnið hækkaði um 7,4%. Safnið ávaxtar eignir sínar að mestu í veðskuldabréfum, innlánum og í stuttum óverðtryggðum ríkisskuldabréfum.

 

Góð eignadreifing

Ávöxtun verðbréfasafna ræðst af eignasamsetningu og ávöxtun einstakra verðbréfaflokka. Almenni lífeyrissjóðurinn leggur mikla áherslu á góða eignadreifingu til að draga úr heildaráhættu safnanna. Sjóðurinn birtir mánaðarlega upplýsingar um ávöxtunarleiðir þar sem meðal annars má lesa um eignasamsetningu. Smellið hér til að skoða upplýsingablöðin. Sjóðurinn birtir einnig ítarlegar upplýsingar um ávöxtun og sveiflur á heimasíðu, sjá nánar hér.

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.