Skýrsla um lífeyrissjóðina
17. júlí 2015
Almenni lífeyrissjóðurinn er 5. stærsti lífeyrissjóðurinn á landinu. Þetta kemur fram í yfirliti sem Fjármálaeftiritið birti í gær og sýnir heildarniðurstöður ársreikninga íslenskra lífeyrissjóða fyrir árið 2014.
Á árinu 2014 voru starfandi 27 lífeyrissjóðir í 80 deildum samtryggingar og séreignar. Aðrir vörsluaðilar séreignasparnaðar voru sjö talsins. Eignir alls lífeyriskerfisins voru í árslok 2014 um 3.086 milljarðar kr. eða 155% af vergri landsframleiðslu. Eignir samtryggingadeilda lífeyrissjóða voru 2.644 milljarðar kr. sem eru um 86% af lífeyrismarkaðnum og að auki nam séreignasparnaður í vörslu þeirra um 281 milljarði kr. Séreignasparnaður í vörslu annarra en lífeyrissjóða nam 161 milljarði kr.
Fimm stærstu lífeyrissjóðirnir eru LSR, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Gildi lífeyrissjóður, Stapi lífeyrissjóður og Almenni lífeyrissjóðurinn. Hrein eign þeirra nam 1.729 milljörðum kr. í árslok 2014 sem eru um 56% af lífeyrismarkaðnum.
Tryggingafræðileg staða lífeyrissjóðanna hefur batnað á milli ára. Samkvæmt frétt FME er samanlögð tryggingafræðileg staða sjóða sem ekki njóta ábyrgðar launagreiðenda í jafnvægi, þó að margir sjóðir séu ennþá með halla.
Smelltu hér til skoða yfirlit Fjármálaeftirlitsins betur.