Getum við aðstoðað?

Yfirlýsing

30. janúar 2014

Á fundi stjórnar Almenna lífeyrissjóðsins miðvikudaginn 29. janúar var eftirfarandi yfirlýsing samþykkt.

Vegna málatilbúnaðar í skýrslu vinnuhóps Læknafélags Íslands sem var skipaður til að yfirfara kafla um Almenna lífeyrissjóðinn í skýrslu Úttektarnefndar lífeyrissjóða ákvað stjórn sjóðsins á fundi þann 9. janúar 2013 að ráða óvilhallan og lögfróðan aðila til að yfirfara skýrsluna. Björn L. Bergsson hrl. var fenginn í verkefnið sem fól í sér eftirfarandi:

  1. Meta réttmæti þeirrar fullyrðingar vinnuhópsins að sjóðurinn hafi farið á svig við lög og góðar viðskiptavenjur í viðskiptum við Glitni og fyrirtæki í eigu eigenda Glitnis.
  2. Meta, hvort líkur séu á því að hægt verði í einkamáli að draga stjórnendur Glitnis til ábyrgðar fyrir dómi fyrir ráðgjöf gegn betri vitund og í eigin þágu.
  3. Meta hvort sjóðurinn eigi réttmætar kröfur í þrotabú Glitnis vegna meintra misgjörða Glitnis gagnvart Almenna lífeyrissjóðnum.

Björn. L. Bergsson, hrl. hefur nú skilað stjórninni áliti dagsettu 11. desember 2013. Um helstu niður­stöður álitsins má lesa í samantekt sem birt er orðrétt hér að neðan.

Á fundi stjórnar Almenna lífeyrissjóðsins í dag var farið yfir álitið og í kjölfarið gefin eftirfarandi yfir­lýsing:

Stjórn Almenna lífeyrissjóðsins fagnar því að álitið liggi fyrir. Í því eru gerðar athugasemdir við bókanir í fundar­gerðum stjórnar um ákvarðanir um viðskipti og viðbrögð við ábendingum innri endurskoð­anda. Sjóður­inn hefur þegar bætt vinnulag við fundargerðir og eru bókanir nú ítarlegri til að tryggja betur rekjanleika ákvarð­ana og að forsendur þeirra séu skýrar og liggi fyrir. Að öðru leyti er megin­niðurstaða álitsins sú að sjóðurinn hafi á hverjum tíma starfað til samræmis við lög og reglur og verið innan fjárfestingarheimilda. Með vísan í álitið er það mat stjórnar Almenna lífeyrissjóðsins að ekki sé tilefni til að aðhafast frekar vegna málatilbúnaðar í skýrslu vinnuhóps lækna.

 Reykjavík 29. janúar 2014,

Stjórn Almenna lífeyrissjóðsins.

Samantekt í áliti Björns L. Bergssonar hrl. fyrir stjórn Almenna lífeyrissjóðsins.

„Verkbeiðni sú sem álit þetta er unnið eftir er nokkuð víðtæk og verkefnið ekki mjög niðurnjörvað efnislega. Við úrlausn verkefnisins var horft í þessum efnum til tilefnisins sem er að minnsta kosti öðrum þræði skýrsla vinnuhóps stjórnar Læknafélags Íslands.

1.  Tekin voru til umfjöllunar þau tilvik sem gagnrýnd hafa verið og því haldið fram að lífeyrissjóðurinn kunni að hafa fari á svig við lög og góðar viðskiptavenjur óháð því hvort það hafi verið í viðskiptum við Glitni og fyrirtæki í eigu eigenda Glitnis.

Ekki verður séð af þeim gögnum sem yfirfarin voru af undirrituðum að sjóðurinn hafi farið út fyrir heimildir 36. gr. laga nr. 129/1997 við kaup á afleiðum. Bókanir stjórnarfundargerða bera hins vegar með sér að umfjöllun um athugasemdir innri endurskoðunar dags. 26. febrúar 2008  hafi verið ábótavant og ekki í samræmi við tilefnið. Tekið skal fram að staðhæft hefur verið að við athugasemdunum hafi verið brugðist á ítarlegri hátt en fundargerð ber með sér.

Það er álit undirritaðra að kaup sjóðsins á svokölluðu víkjandi breytanlegu skuldabréfi af Glitni banka þann 27. mars 2008 fyrir kr. 1.620.000.000 hafi verið ákvörðun sem bera þurfti undir stjórn. Bæði vegna umfangs gerningsins og hins sérstaka eðlis hans enda geti hann vart ekki talist skuldabréf í skilningi laga. Fundargerð stjórnarfundar daginn fyrir kaupin, ber hins vegar ekki með sér að kaupin hafi verið rædd á þeim fundi. Að sama skapi og að ofan gat hefur verið fullyrt af starfsmönnum sjóðsins að svo hafi verið, kaupin hafi verið ítarlega rædd á stjórnarfundinum.

Undirritaðir telja að engin reglubrot hafi falist í úthýsingu sjóðsins á rekstri hans til Glitnis banka hf.

Starfsemi sjóðsins, að því marki sem álit þetta tekur til, var að okkar mati í öllum aðalatriðum í samræmi við lög og reglugerðir. Ótvíræðir hnökrar voru þó á bókun fundargerða stjórnar í andstöðu við ákvæði 32. gr. laga nr. 129/1997 ef tekið er mið af staðhæfingum starfsmanna sjóðsins um umfjöllunarefni á stjórnarfundum sem ekki er getið í fundargerðum. Slíkt er sérstaklega óheppilegt þegar umfjöllunarefnið lýtur að málefnum sem skylt er að bera upp við stjórn bæði vegna sérstöðu málefnis sem og fjárhagslegs umfangs þess. Er þar sérstaklega til svonefnds skuldabréfs Glitnis banka hf. að líta.

Þar sem sérstaklega var innt eftir framgöngu lífeyrissjóðsins gagnvart Glitni banka hf. og fyrirtækjum í eigu eigenda Glitnis var hugað að því. Niðurstaðan af skoðun á gögnum lífeyrissjóðsins leiðir til þeirrar ályktunar að ekki verður séð að sjóðurinn hafi farið út fyrir fjárfestingaheimildir sínar í viðskiptum við FL Group hf. og Baug Group hf. Þó lesa megi samhengi í auknar fjárfestingar í fjármálagerningum þessara félaga í kjölfar stjórnarskipta í Glitni banka hf. á árinu 2007 eru ekki forsendur í þeim upplýsingum sem gögn lífeyrissjóðsins hafa að geyma og sem aðgengileg voru við gerð þessa álits, til ályktana um að reglur hafi verið brotnar eða farið gegn góðum viðskiptavenjum. Engin gögn renna stoðum undir að ólögmæt sjónarmið hafi ráðið för í verkum þeirra starfsmanna sem sinntu málefnum Almenna Lífeyrissjóðsins. Hvorki gagnvart ráðandi öflum í hluthafahópi Glitnis banka né öðrum.

2.  Líkurnar á því að hægt verði að draga stjórnendur bankans til ábyrgðar fyrir dómi hafa verið metnar. Ekki verður staðhæft að slíkt sé tækt. Reifuð eru í álitinu helstu sjónarmið sem koma til skoðunar við mat á slíkri kröfu og dómafordæmi rakin. Loks er þess að geta að ekki verður slegið föstu að skilmálar keyptra skuldabréfa sjóðsins hafi verið með þeim hætti að bótaskyldu varði fyrir stjórnendur sjóðsins.

Áréttað skal í þessu samhengi að horft hefur verið til efnisréttar fyrst og fremst. Standi til að framkvæma nánari greiningu á hugsanlegri ábyrgð stjórnenda þyrfti jafnframt að huga að áhrifum hugsanlegrar fyrningar. Of langt kann að vera liðið frá þeim ákvörðunum eða atvikum sem bótaskyld kynnu að teljast. Nánari greining er ekki sett fram í þeim efnum á þessu stigi enda vart forsendur til að leggja í þá vinnu án frekara tilefnis.

3.  Vegna ákvæða gjaldþrotaskiptalaga um tímafrest til að koma kröfum á framfæri við slit fjármálafyrirtækja er næsta útilokað að koma frekari kröfum á framfæri gagnvart slitastjórn Glitnis banka hf. en þegar hefur verið gert.“

Álitið í heild