Yfirlýsing vegna gagnsæistilkynningar

15. júlí 2020

Yfirlýsing vegna gagnsæistilkynningar

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) birti í dag gagnsæistilkynningu þess efnis að fjárfesting Almenna lífeyrissjóðsins í erlendum verðbréfasjóði hafi farið yfir lögbundið hámark mótaðilaáhættu sbr. 6. mgr. 36. c. laga nr. 129/1997.  Af þessu tilefni vill Almenni lífeyrissjóðurinn taka eftirfarandi fram.

Gagnsæistilkynningin byggir á túlkun FME á umræddu lagaákvæði. Að mati sjóðsins er lagaákvæðið ekki skýrt og túlkunin í andstöðu við áralangan skilning og framkvæmd. Ólíkur skilningur lýtur að því hvort hver og ein deild í deildaskiptum lífeyrissjóði megi eiga lögbundið hámark í verðbréfasjóði eða hvort lífeyrissjóði beri að leggja saman eignarhluta allra deilda. Fjárfesting lífeyrissjóðsins í umræddum verðbréfasjóði var í samræmi við fjárfestingarstefnu sjóðsins. Almenni lífeyrissjóðurinn gerði strax viðeigandi ráðstafanir þegar í ljós kom að eignir voru ekki i samræmi við ofangreinda túlkun.

Að mati Almenna lífeyrissjóðsins er óheppilegt að lög um fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða séu með þeim hætti að hægt sé að túlka lagaákvæði á ólíkan hátt. Sjóðurinn mun koma ábendingum um það á framfæri.

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.