Fræðsla og ráðgjöf

Prjónauppskriftir og lífeyrismál, slétt og/eða brugðið? – moli úr Hlaðvarpi Almenna

Það var þörf og góð áminning sem Hlaðvarpi Almenna barst í viðtali við Þóru Margréti Birgisdóttur, 43 ára kennara og fyrirtækjaeiganda í Stykkishólmi. Að mati Þóru er orðanotkun í kynningarefni um lífeyrismál illskiljanleg og á þátt í að gera þau óspennandi í huga fólks.

Rætt var við Þóru Margréti í sérstökum snúningi á dagskrárliðnum Lífeyrisleyndardómurinn í Hlaðvarpi Almenna en ástæða þess að Þóra Margrét tók þátt í hlaðvarpinu er að hún var mjög fljót að setja innlegg með orðunum „minnst spennandi hlaðvarpsefni sem ég hef heyrt um“ þegar fyrsta hlaðvarpið var birt.

Rétt er að geta þess að Þóra Margrét er mágkona þáttastjórnandans og var hún umsvifalaust látin svara fyrir og skýra viðbrögð sín í þessum þætti.

Þó að Þóra Margrét sé ekki barnung þá telur hún að lífeyrismál séu einhvern veginn fjarlæg og óspennandi og fáir sem tengja við þau. Ekki hjálpar heldur að hugtökin og orðin sem verið er að nota virka fráhrindandi að hennar mati.

Þóra Margrét hlustar talsvert á hlaðvörp bæði til skemmtunar og til fræðslu um efni sem tengjast starfinu. Þar sem hún sem kennari leggur áherslu á að útbúa efnið þannig að það höfði til nemenda og að sama skapi vill hún að efni sem hún skilur ekki sé framreitt á sambærilegan hátt. Þó að málefnið sé mjög mikilvægt þá telur hún að stór hópur fólks hugsi lítið um lífeyrismál. Á henni brenna ekki spurningar um lífeyrismál og telur að mörg hlaðvörp séu áhugaverðari og skemmtilegri  og það sé því erfitt að vekja áhuga fólks á hlaðvörpum um lífeyrismál. Orðanotkunin er verulegt vandamál að mati Þóru, það þurfi að passa sig á tala á almennum nótum í stað þess að „spekingar séu að spjalla“ á sérfræðilegum nótum.

„Næst þegar við hittumst þá skal ég tala um prjónauppskriftir við þig, þá veistu hvernig mér líður þegar þú talar um lífeyrismál við mig“ segir Þóra Margrét að lokum.

Smelltu hér til að hlusta á hlaðvarpið.

Hér eru fleiri molar:

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.