Fræðsla og ráðgjöf

Sjálfhelda lífeyriskynningarmála – moli úr Hlaðvarpi Almenna

Er eina leiðin til að vekja verðskuldaða athygli á lífeyrismálum að gera grín að því hve óspennandi þau hljóma? Þetta er ein af þeim spurningum sem velt er upp í Hlaðvarpi Almenna lífeyrissjóðsins.

Það er talsverð áskorun sem er fólgin í kynningarmálum fyrir lífeyrissjóði almennt. Til þess að tíminn vinni með manni er gott að huga að lífeyrismálum snemma á starfsævinni.

Vandamálið er að snemma á starfsævinni er ansi margt annað í gangi og í mörg horn að líta hjá ungu fólki. Þeir sem vinna í kynningarmálum fyrir lífeyrismál þurfa að horfast í augu við að það er margt sem hljómar meira spennandi hjá ungu fólki en lífeyrismál. Að sama skapi er ef til vill fátt sem skiptir meira máli fyrir fjárhaginn á eftirlaunaárunum.

Hlaðvarp um lífeyrismál er ekki að keppa í sömu deild og vinsæl hlaðvörp, í það minnsta ekki þegar litið er til skemmtanagildis. Ef hins vegar væri hægt að meta verðmæti hlaðvarpa, það er hvaða mögulega fjárhagslegan ávinning maður hefur af því að hlusta þá ætti hlaðvarp um lífeyrismál að hafa vinninginn. Það er ljóst að það getur haft verulega jákvæð áhrif á fjárhaginn á efri árum að huga að þeim og því fyrr sem það er gert þeim mun meiri áhrif er hægt að hafa.

Það er því um sjálfheldu að ræða, þeir sem mestan hag hafa af því að kynna sér lífeyrismál eru ólíklegastir til að hafa áhuga á þeim. Til að leysa þessa sjálfheldu er það ef til vill ekki verri leið en hver önnur að vekja athygli á lífeyrismálum með því að gera grín að því hversu óspennandi þau hljóma.

Smelltu hér til að hlusta á hlaðvarpið en þar koma þessar hugleiðingar fram.

Hér eru fleiri molar:

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.