Getum við aðstoðað?

Iðgjöld og eftirlit þegar fyrirtæki lendir í rekstrarvanda

30. september 2025

Iðgjöld og eftirlit þegar fyrirtæki lendir í rekstrarvanda

Að gefnu tilefni vill lífeyrissjóðurinn árétta mikilvægi þess að sjóðfélagar fylgist vel með því að vinnuveitandi þeirra skili lífeyrisiðgjöldum til lífeyrissjóðsins í samræmi við launaseðla. Sérstakrar varkárni er þörf þegar félag glímir við rekstrarvanda, hættir starfsemi eða þegar launþega er sagt upp störfum.

Ábyrgðin hvílir á sjóðfélaganum sjálfum að upplýsa lífeyrissjóð um vangoldin iðgjöld. Því er afar mikilvægt að hver og einn gæti réttinda sinna og fylgist reglulega með stöðu mála.

Ábyrgðasjóður launa ábyrgist vangoldin lífeyrisiðgjöld sem hafa fallið í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir frestdag eða úrskurðardag gjaldþrots. Til þess að ábyrgðin komi til framkvæmda þarf lífeyrissjóðurinn að hafa upplýsingar um vangoldin iðgjöld eins fljótt og kostur er.

Sjóðfélögar eru því hvattir til að  yfirfara launaseðla sína og bera saman við upplýsingar á sjóðfélagavefnum um greidd iðgjöld. Ef misræmi kemur í ljós skulu sjóðfélagar tafarlaust hafa samband við þann lífeyrissjóð sem þeir greiða til og upplýsa um vangoldin iðgjöld.