Getum við aðstoðað?

Sameining Almenna og Lífsverks samþykkt

13. nóvember 2025

Sameining Almenna og Lífsverks samþykkt

Sjóðfélagafundir Almenna lífeyrissjóðsins og Lífsverks hafa samþykkt tillögu stjórna sjóðanna um sameiningu þeirra. Kosið var um sameininguna í rafrænum kosningum og var metþátttaka hjá báðum sjóðum. Hjá Almenna lífeyrissjóðnum greiddu 1.605 sjóðfélagar atkvæði og samþykktu 87% tillöguna. Hjá Lífsverki greiddu 929 sjóðfélagar atkvæði og samþykktu 81% sameininguna.

Stjórnir sjóðanna voru einhuga um að mæla með sameiningu þeirra. Mikil ánægja er með niðurstöðu kosninga og að þessir tveir öflugu lífeyrissjóðir geti nú sameinað krafta sína. „Við erum þakklát fyrir góða þátttöku í kosningunum og traust sjóðfélaga,“ segir Eva Hlín Dereksdóttir, stjórnarformaður Lífsverks. „Niðurstaðan staðfestir að sjóðfélagar sjá tækifærin í sameiningunni og vilja að við nýtum stærðarhagkvæmni til að skapa þeim traust lífeyrisréttindi til framtíðar.“ „Við erum mjög glöð með þessa niðurstöðu og þakklát fyrir stuðning sjóðfélaga. Með sameiningunni er stigið mikilvægt skref í átt að sterkari, skilvirkari og samkeppnishæfari lífeyrissjóði,“ segir Sigríður Magnúsdóttir, stjórnarformaður Almenna.

Sameinaður lífeyrissjóður tekur til starfa 1. janúar 2026 undir nafninu Almenni – Lífsverk, lífeyrissjóður, að því gefnu að samþykki Samkeppniseftirlitsins liggi fyrir og staðfesting Fjármála- og efnahagsráðuneytisins á samþykktum sameinaðs sjóðs. Hann verður fimmti stærsti lífeyrissjóður landsins með heildareignir um 700 milljarða króna. Stjórnarformaður sjóðsins verður Eva Hlín Dereksdóttir og varaformaður Sigríður Magnúsdóttir. Framkvæmdastjóri hins sameinaða sjóðs verður Gunnar Baldvinsson, og skrifstofa sjóðsins verður til húsa að Dalvegi 30 í Kópavogi.

Almenni – Lífsverk, lífeyrissjóður, á langa sögu og er samsettur úr átta lífeyrissjóðum sem hafa sameinast á liðnum árum. Elstur þeirra var Lífeyrissjóður verkfræðinga (síðar Lífsverk), sem fékk starfsleyfi 29. apríl 1955. Elstur forvera Almenna lífeyrissjóðsins var Lífeyrissjóður Tæknifræðingafélags Íslands sem var stofnaður 4. maí 1965. Aðrir lífeyrissjóðir sem hafa sameinast í Almenna – Lífsverk eru: ALVÍB, Lífeyrissjóður arkitekta, Lífeyrissjóður Félags leiðsögumanna, Lífeyrissjóður FÍH, Lífeyrissjóður Lækna, og Lífeyrissjóður starfsmanna SÍF.