Ársreikningur 2022

15. mars 2023

Ársreikningur 2022

Ársreikningur Almenna lífeyrissjóðsins fyrir árið 2022 hefur verið birtur. Reikningurinn verður lagður fyrir ársfund sjóðsins sem verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík 30. mars 2023 kl. 17:15. Streymt verður frá fundinum. 

Ársreikninginn í heild má sjá með því að smella hér

Helstu atriði í reikningnum eru eftirfarandi:

  • Heildareignir 366 milljarðar.
  • Greidd iðgjöld 20,2 milljarðar sem er 7,9% hækkun á milli ára.
  • Greiddur lífeyrir samtryggingarsjóðs var 3,7 milljarðar.
  • Lífeyrisgreiðslur séreignarsjóðs námu 5,8 milljörðum.
  • Raunávöxtun samtryggingarsjóðs -12,7%.
  • Raunávöxtun séreignarsjóðs var á bilinu –14,5% til 0,03%.
  • Á árinu voru veitt ný lán til sjóðfélaga fyrir 14,3 milljarða. Uppgreidd lán á sama tíma námu 5,9 milljörðum.
  • Tryggingafræðileg staða er innan marka í lögum og því eru ekki lagðar til neinar breytingar á réttindum á ársfundi.

Nánar:

Í árslok 2022 nam hrein eign til greiðslu lífeyris 366 milljörðum króna og minnkaði sjóðurinn um 1 milljarð eða um 0,4% á árinu. Sjóðfélagar í árslok voru 56.902 og fjölgaði þeim um 3,7% milli ára. Hrein eign til greiðslu lífeyris í séreignarsjóði var 194 milljarðar og í samtryggingarsjóði 172 milljarðar.

Eftir miklar hækkanir á verðbréfamörkuðum undanfarin ár varð viðsnúningur á árinu 2022 og var þróun á verðbréfamörkuðum óhagstæð fjárfestum. Lækkun var á öllum helstu mörkuðum og endurspeglast það í ávöxtun safna sjóðsins á árinu. Nafnávöxtun sjóðsins á árinu var -6,5% til 9,4% og raunávöxtun -14,5% til 0,03%.

Lífeyrisgreiðslur samtryggingarsjóðs voru alls 3,7 milljarðar árið 2022 sem er 19,6% hækkun frá árinu áður. Heildarfjöldi lífeyrisþega var 2.507. Lífeyrisgreiðslur séreignarsjóðs námu alls 5,8 milljörðum sem er 8,9% hækkun frá árinu áður. Á árinu voru greiddar 315,1 milljónir í aukagreiðslu vegna tímabundinnar opnunar séreignarsparnaðar vegna heimsfaraldurs til 162 sjóðfélaga, 1,1 milljarður inn á húsnæðislán til 2.751 sjóðfélaga og 55,8 milljónir vegna kaupa á fyrstu íbúð fyrir 47 sjóðfélaga.

Sjóðurinn lánaði sjóðfélögum 14,3 milljarða með veði í fasteignum árið 2022, en árið á undan voru veitt ný lán fyrir 11,6 milljarða. Á árinu voru greidd upp eldri lán fyrir 5,9 milljarða þannig að nettó lánveitingar námu 8,4 milljörðum.

Á árinu 2022 voru innleiddar nýjar líftöflur við mat á skuldbindingum samtryggingardeilda. Með þeim er reiknað með hækkandi lífaldri komandi kynslóða og að sjóðfélagar lifi lengur en áður var reiknað með. Vænt viðbótarár eru breytileg eftir aldri þar sem reiknað er með að sérhver árgangur lifi lengur en sá sem kom á undan.

Tryggingafræðileg úttekt í lok árs sýnir að heildareignir samtryggingarsjóðs eru 302,6 milljarðar sem samanstendur af núvirtum eignum og framtíðariðgjöldum. Heildarskuldbinding samtryggingarsjóðsins er 317,4 milljarðar og eru því skuldbindingar umfram eignir 14,8 milljarðar. Heildarstaða sjóðsins batnaði á árinu úr -6,6% í -4,7% af skuldbindingum. Áfallin staða versnaði á árinu vegna óhagstæðrar ávöxtunar en framtíðarstaða batnaði við innleiðingu á nýrri réttindatöflu sem tekur mið af nýjum líftöflum.

Ársfundur 2023 og rafrænt stjórnarkjör

Nánari upplýsingar um rekstur og afkomu Almenna lífeyrissjóðsins verða veittar á ársfundi hans fimmtudaginn 30. mars kl. 17:15 á Grand Hótel Reykjavík.

Stjórnarkjör í Almenna lífeyrissjóðinn fer fram með rafrænum hætti í aðdraganda ársfundar. Tólf sjóðfélagar hafa boðið sig fram í tvö laus sæti í stjórn sjóðsins en einnig verður kosið um eitt laust sæti konu í varastjórn. Eingöngu sjóðfélagar geta boðið sig fram og eingöngu sjóðfélagar geta kosið á milli þeirra.

Kosning fer fram dagana 22. til 29. mars. Upplýsingar um frambjóðendur og rafrænt stjórnarkjör árið 2023 má lesa hér.

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.