Fjárfestingarstefna 2022 birt

30. nóvember 2021

Fjárfestingarstefna 2022 birt

Fjárfestingarstefna Almenna lífeyrissjóðsins fyrir árið 2022 var samþykkt af stjórn sjóðsins þann 24. nóvember 2021.

Fjárfestingarstefnan er birt í heild sinni á vefsíðu sjóðsins, sjá hér.  Helstu breytingar frá fjárfestingarstefnu 2021 eru eftirfarandi:

  • Breytingar eru gerðar á fjárfestingarstefnu Ævisafns II og Samtryggingarsjóðs á milli ára. Vægi hlutabréfa í stefnu safnanna er aukið úr 50% í 55% og á móti er vægi skuldabréfa í stefnu lækkað úr 50% í 45%. Vægi erlendra hlutabréfa safnanna er hækkað úr 40% í 43% og vægi innlendra hlutabréfa er hækkað úr 10% í 12%. Með þessari breytingu er stefnt að hærri langtímaávöxtun safnanna í því lágvaxtaumhverfi sem nú ríkir, bæði innanlands og erlendis.
  • Breytingar eru gerðar á nafni og markmiði um meðaltíma skuldabréfa í Ríkissafni löngu. Safnið heitir nú Ríkissafn og er áætlaður meðaltími skuldabréfa í safninu nú 3 – 8 ár, en var 4 – 13 ár í Ríkissafni löngu.  Þá er jafnframt vakin athygli á því að fyrirhugað er að loka Ríkissafni stuttu á fyrri hluta árs 2022.
  • Tiltölulega litlar breytingar eru gerðar á fjárfestingarstefnu annarra ávöxtunarleiða á milli ára. Þó hefur vikmörkum einstakra eignaflokka í stefnu blandaðra safna verið hnikað til.
  • Stefna Almenna lífeyrissjóðsins um ábyrgar fjárfestingar er staðfest sérstaklega af stjórn og er fylgiskjal með fjárfestingarstefnu. Áherslubreytingar eru gerðar á stefnunni á milli ára, m.a. til að skýra betur með hvað hætti stefnunni er framfylgt. Stefna um ábyrgar fjárfestingar og eigendastefna marka siðferðisleg viðmið Almenna lífeyrissjóðsins í fjárfestingum.

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.