Fjárfestingarstefna Almenna lífeyrissjóðsins 2026
28. nóvember 2025
Fjárfestingarstefna Almenna lífeyrissjóðsins fyrir árið 2026 var samþykkt af stjórn sjóðsins þann 26. nóvember 2025.
Fjárfestingarstefnan er birt í heild sinni á vefsíðu sjóðsins, sjá hér. Stefnan er ítarleg en í henni má lesa um uppbyggingu sjóðsins og ávöxtunarleiðir, sögulega langtímaávöxtun eignaflokka sem er kjarninn að stefnu um eignasamsetningu, efnahagshorfur og vænta ávöxtun, fjárfestingarstefnu og vikmörk, takmarkanir og viðmið. Stefna um ábyrgar fjárfestingar, eigendastefna og lánareglur eru fylgiskjöl með fjárfestingarstefnunni.
Helstu breytingar frá fjárfestingarstefnu 2025 eru eftirfarandi:
- Ekki eru gerðar breytingar á fjárfestingarstefnu blandaðra ávöxtunarleiða, Ævisafns I, II, III og samtryggingarsjóðs á milli ára, en hlutföllum einstakra eignaflokka í vikmörkum hefur verið hnikað til. Þá hefur vikmörkum jafnframt verið hnikað til þegar kemur að eignastýringaraðferðum erlendra hlutabréfa. Að lágmarki er stefnt að því að 60% af erlendri hlutabréfaeign verði í hlutlausri stýringu, áður var lágmarkið 50%.
- Ekki eru gerðar breytingar á fjárfestingarstefnu Innlánasafns og Ríkissafns á milli ára.
- Hlutföllum einstakra eignaflokka í vikmörkum fjárfestingarstefnu Erlends verðbréfasafn, hefur verið hnikað til. Ávöxtunarleiðin, sem fjárfestir í erlendum verðbréfum, var stofnuð í ársbyrjun 2025. Hlutföllum einstakra eignaflokka í vikmörkum stefnu Skuldabréfasafns hefur jafnframt verið hnikað til.
- Breytingar eru gerðar á hámarksvægi á einstaka útgefendur og hækkar það úr 5% í 7,5%.
- Helstu ástæður þess að breytingar eru gerðar á vikmörkum ávöxtunarleiða er sameining Almenna lífeyrissjóðsins og Lífsverks lífeyrissjóðs sem samþykkt var í nóvember 2025. Gert er ráð fyrir að sameinaður sjóður taki til starfa þann 1. janúar 2026.
- Stefna Almenna lífeyrissjóðsins um ábyrgar fjárfestingar og eigendastefna eru staðfestar sérstaklega af stjórn og eru fylgiskjöl með fjárfestingarstefnu. Óverulegar breytingar eru gerðar á stefnunum á milli ára.