Góð ávöxtun það sem af er ári

04. nóvember 2019

Góð ávöxtun það sem af er ári
Hvítskerkur. Mynd: Anna Guðmundsdóttir

Góð ávöxtun var á innlendum og erlendum mörkuðum fyrstu níu mánuði ársins.  Heimsvísitala erlendra hlutabréfa MSCI hækkaði um 17,6% í USD og um 25,1% í íslenskum krónum þar sem íslenska krónan veiktist um 6,3% gagnvart USD á tímabilinu. Hækkun á innlendum hlutabréfamarkaði hefur eitthvað gengið til baka frá því um mitt ár, innlend hlutabréf hafa engu að síður skilað góðri ávöxtun og hækkaði heildarvísitala aðallista um 17,2% janúar til september.

Ávöxtun á innlendum skuldabréfamarkaði var einnig góð, einkum vegna lækkunar á ávöxtunarkröfu langra skuldabréfa. Innlendur skuldabréfamarkaður hefur því skilað góðum gengishagnaði sem bættist við ávöxtun skuldabréfanna. Vísitala Kauphallarinnar fyrir 10 ára löng verðtryggð skuldabréf hækkaði um 10,6% og vísitala Kauphallarinnar fyrir 10 ára löng óverðtryggð skuldabréf um 23,1%.

  • Ævisafn I skilaði hæstri ávöxtun fyrstu níu mánuði ársins og hækkaði um 13,9%, önnur blönduð söfn – söfn sem fjárfesta í skuldabréfum, hlutabréfum og innlánum – hækkuðu um 7,2% til 12%
  • Ríkissafn langt hækkaði um 6,5%
  • Ríkissafn stutt hækkaði um 5,4%
  • Húsnæðissafn hækkaði um 4,1%
  • Innlánasafn hækkaði um 3,3%

Upplýsingar um afkomu ávöxtunarleiða Almenna lífeyrissjóðsins:

Blönduð söfn Ávöxtun blandaðra ávöxtunarleiða, þ.e. Ævisafna I, II, III og samtryggingarsjóðs var frá 7,2% til 13,9%. Hækkun á erlendum og innlendum hlutabréfamörkuðum hafði mest áhrif til hækkunar á gengi safnanna.
Ríkissafn langt  Ríkissafn langt hækkaði um 6,5%. Lækkun á ávöxtunarkröfu langra verðtryggðra skuldabréfa og hækkun á vísitölu neysluverðs skýra að mestu ávöxtun safnsins.
 Ríkissafn stutt  Ríkissafn stutt hækkaði um 5,4%. Lækkun á ávöxtunarkröfu óverðtryggðra skuldabréfa og væntingar um aukna verðbólgu hafa mest áhrif á ávöxtun safnsins.
 Innlánasafn  Innlánasafnið hækkaði um 3,3%. Safnið ávaxtar eignir sínar á bundnum innlánsreikningum og vega verðtryggð innlán um 93% af eignum safnsins.
 Húsnæðissafn  Húsnæðissafnið hækkaði um 4,1%. Safnið ávaxtar eignir sínar að mestu í veðskuldabréfum, innlánum og í stuttum óverðtryggðum ríkisskuldabréfum.

Góð eignadreifing        

Ávöxtun verðbréfasafna ræðst af eignasamsetningu og ávöxtun einstakra verðbréfaflokka. Almenni lífeyrissjóðurinn leggur mikla áherslu á góða eignadreifingu til að draga úr heildaráhættu safnanna. Sjóðurinn birtir mánaðarlega upplýsingar um ávöxtunarleiðir þar sem meðal annars má lesa um eignasamsetningu. Smellið hér til að skoða upplýsingablöðin. Sjóðurinn birtir einnig ítarlegar upplýsingar um ávöxtun og sveiflur á heimasíðu, sjá nánar hér.

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.