Ungt fólk vill læra um lífeyrismál

16. júní 2023

Ungt fólk vill læra um lífeyrismál

Nýtt myndband/hlaðvarp

Samkvæmt rannsókn sem Ásdís Rún Ragnarsdóttir meistaranemi í mannauðsstjórnun gerði í lokaverkefni námsins, telur ungt fólk að það ætti að þekkja grunnatriði í lífeyrismálum en gerir sér einnig grein fyrir vanþekkingu sinni. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjum þætti af Hlaðvarpi Almenna. Í þættinum greinir Ásdís frá helstu niðurstöðum rannsóknarinnar í samtali við Halldór Bachmann, kynningarstjóra.  Hægt er að horfa á viðtalið hér og hlusta hér.

Rannsóknin staðfestir með marktækum gögnum þann grun sem starfsfólk Almenna og lífeyriskerfisins alls hefur lengi haft. Fólk þekkir lítið til lífeyrismála og kynnir sér þau seint á starfsævinni.

Í rannsókninni kom jafnframt fram að fólk telur sig hlunnfarið um fræðslu um lífeyrismál og fjármál almennt.  Fólk vill meiri fræðslu og jafnvel að fjármálafræðsla verði gerð að skyldufagi í skólum. Einnig kom fram að ósk um að efnið sé sett fram a aðgengilegan og myndrænan hátt á skiljanlegu máli.

Segja má að Raunveruleikur Almenna sé nokkurs konar svar við niðurstöðum könnunarinnar en leikurinn hefur verið í gangi í nokkrar vikur og var í undirbúningi þegar viðtalið var tekið upp. Leiknum er ætlað að kynna fyrir ungu fólki þessi flóknu og framandi hugtök um fjármál og lífeyrismál sem það er að kynnast í fyrsta sinn. Sjóðnum hafa borist mjög jákvæðar umsagnir um leikinn, bæði frá ungu fólki og einnig þeim eldri sem einnig virðast hafa gaman af því að spreyta sig á snúnum spurningum um lífeyrismál og fjármál. Hægt er að taka þátt í Raunveruleik Almenna hér.

 

Skráðu þig á póstlistann

Fáðu fréttir um lífeyrismál, viðburði og starfsemi sjóðsins.