Getum við aðstoðað?

Hlaðvarp #1, Fyrsta fasteign

Fjallað um fyrstu fasteign og leiðir til að auðvelda kaupin, Lífeyrisleyndardómurinn: Aðsend spurning frá Árna Helgasyni um það sem þarf að hafa í huga ef maður myndi vilja skipta um lífeyrissjóð.  Almenna lífeyrisorðabókin, hugtak um lífeyrismál eða fjármál útskýrt. Hvað er aldurstengd réttindaávinnsla? Úff, hljómar flókið en svarað á mannamáli.

Hlaðvarp #2, Fjárfestingarstefna og prjónauppskriftir

Aðalefni þáttarins er fjárfestingarstefna Almenna fyrir árið 2021. Kristjana Sigurðardóttir, fjárfestingarstjóri Almenna greinir frá helstu breytingum á fjárfestingarstefnu og skýrir góða ávöxtun síðasta árs. Í lífeyrisleyndardómnum útskýrir Þóra Margrét Birgisdóttir, kennari og fyrirtækjaeigandi í Stykkishólmi, hvernig umræða um lífeyrismál hljómar fyrir henni. Í Almennu lífeyrisorðabókinni er tekið fyrir fyrirbærið reiknað endurgjald.

Hlaðvarp #3, Algengar spurningar

Hvaða spurningar berast oftast til Almenna lífeyrissjóðssins þessa dagana, hafa þær breyst á síðustu áratugum og myndu aðrar spurningar nýtast sjóðfélögum betur? Brynja Margrét Kjærnested og Þórhildur Stefánsdóttir, reyndustu ráðgjafar sjóðsins, leitast við að svara þessum spurningum og miðla af áratuga langri reynslu sinni og þekkingu.

Hlaðvarp #4, Sjálfbærni í fjárfestingum

Hver er staða og þróun í sjálfbærni  og samfélagslegri ábyrgð í fjárfestingum og hvaða áskoranir eru til staðar. Þröstur Olaf Sigurjónsson prófessor við viðskiptafræðideild HÍ og Copenhagen Business School og Lára Jóhannsdóttir, prófessors í umhverfis- og auðlindafræði við viðskiptafræðideild HÍ fara á dýptina um þessi mál. Helga Indriðadóttir, sjóðstjóri hjá Almenna og stjórnarmaður í IcelandSIF og Halldór Bachmann, kynningarstjóri Almenna taka þátt í umræðunni.

Hlaðvarp #5, Örorka og úrræði

Hvaða úrræði hafa lífeyrissjóðir og Virk þegar kemur að örorku og hvernig geta einstaklingar nýtt sér þau úrræði til að komast aftur út í atvinnulífið? Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Virk er gestur Þórhildar Stefánsdóttur, ráðgjafa Almenna og Halldórs Bachmann, kynningarstjóra Almenna í þessum þætti af Hlaðvarpi Almenna.

 

Hlaðvarp #6, Skipting lífeyrisréttinda

Hjónum og sambúðarfólki stendur til boða að jafna lífeyrisréttindi sín. Úrræðið skiptir sérstaklega miklu máli þegar mikill munur hefur verið á tekjum á milli hjóna eða sambúðarfólks á starfsævinni, til dæmis ef annað hjóna er heimavinnandi en hitt aflar tekna á vinnumarkaði.

Í þessum þætti af Hlaðvarpi Almenna ræða Þórhildur Stefánsdóttir ráðgjafi hjá Almenna og Halldór Bachmann kynningarstjóri Almenna við Þórey S. Þórðardóttur, framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða um málið.

Hlaðvarp #7, Ungt fólk vill læra um líf­eyr­is­mál

Samkvæmt rannsókn sem Ásdís Rún Ragnarsdóttir meistaranemi í mannauðsstjórnun gerði í lokaverkefni námsins, telur ungt fólk að það ætti að þekkja grunnatriði í lífeyrismálum en gerir sér einnig grein fyrir vanþekkingu sinni. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjum þætti af Hlaðvarpi Almenna. Í þættinum greinir Ásdís frá helstu niðurstöðum rannsóknarinnar í samtali við Halldór Bachmann, kynningarstjóra.

Hlaðvarp #8, Seðlar - borðspil um fjármál

Flestum ber saman um að fjármálalæsi sé ábótavant á Íslandi og að það sé risastór áskorun að gera fjármál og lífeyrismál áhugaverð fyrir fólki, sérstaklega ungu fólki. Þá áskorun þekkjum við vel sem glímum við það daglega að kynna lífeyrismál fyrir ungu fólki. Raunveruleikur Almenna var einmitt dæmi um ágætlega heppnaða tilraun til þess en þar var leikur á netinu notaður til að kynna þessi flóknu hugtök um fjármál og lífeyrismál. Verkfræðinemarnir Tristan Þórðarson og Veigar Elí Grétarsson virðast vera að hugsa á svipuðum nótum en þeir eru að vinna að þróun borðspils um fjármál sem þeir kalla Seðla. Halldór Bachmann, kynningarstjóri Almenna ræddi við þá félaga.